Árangur, gagnsæi og ábyrgð einkenna íslenska þróunarsamvinnu
Niðurstöður fyrstu jafningjarýni Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar á íslenskri þróunarsamvinnu eru góður vitnisburður um framlag Íslands í málaflokknum. Í skýrslunni, sem kynnt var í dag, kemur fram að fyrirkomulag, aðferðir og stefnumið í þróunarsamvinnu Íslands séu til þess fallin að leiða til framfara í samstarfslöndum. Þetta hámarki áhrif samvinnunnar auk þess sem árangur, gagnsæi og ábyrgð einkenni starfið.
„Þetta er jákvæð niðurstaða fyrir opinbera þróunarsamvinnu Íslands. Hún er góður vitnisburður um að í þessum málaflokki hafi Íslendingar margt fram að færa sem við megum vera stolt af en hún nefnir einnig atriði sem betur mega fara og við því munum við reyna að bregðast“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, en hann tók þátt í kynningu skýrslunnar með Charlotte Petri Gornitzka formanni Þróunarsamvinnunefndarinnar. Þau áttu fyrr í morgun tvíhliða fund um niðurstöður rýninnar.
Í skýrslunni kemur jafnframt fram að þrátt fyrir að framlög Íslands séu ekki há í samanburði við önnur lönd hafi tekist að forgangsraða í þágu þeirra sem minnst mega sín og nýta styrkleika á sviði þróunarsamvinnu á skilvirkan hátt. Stjórnvöld hafi nýtt sér smæðina í stefnumótun og framkvæmd og því beri að hrósa. Í skýrslunni eru ennfremur gerðar tillögur um hvernig bæta megi íslenska þróunarsamvinnu enn frekar, m.a. hvernig megi efla almenna og pólitíska vitund um það sem Ísland hefur áorkað í þróunarmálum.
Ísland varð aðili að DAC árið 2013 að undangenginni sérstakri rýni á þróunarsamvinnu Íslands. Á síðasta ári var komið að fyrstu reglubundnu jafningjarýninni en aðildarríki nefndarinnar gera úttekt á þróunarsamvinnu hvers annars á fimm ára fresti. Rýniteymi DAC samanstóð af fjórum fulltrúum frá skrifstofu nefndarinnar og fulltrúum Slóveníu og Grikklands sem höfðu verið tilnefnd úttektarríki.
Áður en teymið kom til Íslands í september 2016 hafði utanríkisráðuneytið skilað inn ítarlegri greinargerð um skipulag, stefnumótun og framkvæmd alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands. Rýniteymið átti m.a. fundi með utanríkisráðherra, starfsmönnum utanríkisráðuneytisins og annarra ráðuneyta, fulltrúum þróunarsamvinnunefndar, borgarasamtaka og fleirum. Jafningjarýnin felur m.a. í sér skoðun á almennri stefnumótun í málaflokknum; skipulagi, fyrirkomulagi og stjórnun; pólitískri forystu; framlögum; verkefna- og fjármálastjórnun; árangursstjórnun; neyðar- og mannúðarmálum; samræmingu stefnumiða; mannauðsmálum; upplýsingagjöf og samstarfi við aðra aðila.
Skýrslan er ítarleg og skiptist í tvo hluta, hluta I, sem er stutt yfirferð og felur í sér tilmæli rýninefndar eftir úttekt, og hluta II, sjálfa úttektina, sem er lengri og ítarlegri.