Stefnt að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum
Gert er ráð fyrir að vinnan byggi á þeirri tillögu og afmörkun sem unnið var með árið 2013. Sú tillaga byggir á verulegri stækkun friðlands Þjórsárvera auk þess að ná til Hofsjökuls alls.
Umræða hefur verið um frekari vernd Þjórsárvera í mörg ár en áform þess efnis hafa ekki náð fram að ganga. Í stefnuræðu sinni á Alþingi nefndi ráðherra að hún hyggðist leiða til lykta það þarfa náttúruverndarmál sem stækkun friðlandsins í Þjórsárverum er.
Aukin vernd á miðhálendinu er sérstakt áherslumál umhverfis- og auðlindaráðherra og hluti af áformum í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Hefur verið unnið að þeim hugmyndum í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að undanförnu og hafa þær verið til umfjöllunar á fundum ráðuneytisins með viðkomandi sveitarstjórnum. Fellur stækkað friðland Þjórsárvera vel að þeirri vinnu.
Ekki þarf að tíunda hátt náttúruverndargildi Þjórsárvera og nærliggjandi svæða, en á svæðinu er einstakt lífríki og einhver tilkomumestu víðerni landsins. Þessi tillaga að stækkuðu friðlandi liggur jafnframt að friðlandinu Guðlaugstungum til norðurs og að fyrirhuguðu friðlandi í Kerlingafjöllum sem unnið er að því að stofna. Með því yrði til stórt, samfellt friðland á miðhálendinu sem tæki til afar mikilvægra náttúruminja.
Góð umræða varð um þessar tillögur á fundinum með fulltrúum sveitarfélaganna. Næstu skref eru þau að drög að friðlýsingarskilmálum og afmörkun svæðisins verða send sveitarfélögunum til kynningar og umsagna, auk þess sem þau verða sett til almennrar umsagnar á heimasíðu ráðuneytisins.