Hoppa yfir valmynd
22. júní 2017 Utanríkisráðuneytið

Endurnýjaður samstarfssamningur um íslensku alþjóðabjörgunarsveitina

Undirritun samstarfssamnings - mynd

Utanríkisráðuneytið hefur endurnýjað til næstu fjögurra ára samstarfssamning við Slysavarnarfélagið Landsbjörg um íslensku alþjóðabjörgunarsveita (ICE-SAR). Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kynnti sér starf Landsbjargar í morgun og skrifaði í lok heimsóknarinnar undir samninginn ásamt Smára Sigurðssyni formanni félagsins.

„Við höfum átt einstaklega gott samstarf og farsælt við Slysavarnarfélagið Landsbjörg og lítum á samninginn sem mikilvægan þátt í alþjóðastarfi ráðuneytisins, meðal annars  á vettvangi mannúðaraðstoðar. Við erum stolt af sveitinni, sem hefur fengið hæstu einkunn í alþjóðlegum úttektum á starfi hennar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Ráðuneytið hefur dyggilega stutt við bakið á starfsemi alþjóðabjörgunarsveitarinnar sem er rústabjörgunarsveit, stofnuð árið 1999. Sveitin hefur farið á vegum íslenskra stjórnvalda víða um heim og sinnt leitar- og björgunarstörfum á hamfarasvæðum.

Nýi samningurinn tekur eins og sá fyrri til þátttöku í Alþjóðasamtökum björgunarsveita (INSARAG) og viðbragðsteymi Sameinuðu þjóðanna (UNDAC) en það telur 250 sérfræðinga sem sendir eru um heim allan til að samræma alþjóðlegt hjálparstarf.

Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin er sérhæfð rústabjörgunarsveit sem sinnir leitar- og björgunarstörfum á erlendum hamfarasvæðum, vottuð af Sameinuðu þjóðunum. Fyrir þremur árum fór fram endurúttekt á Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni af hálfu úttektarteymis frá Sameinuðu þjóðunum og fékk hún hæstu einkunn. Í henni eru björgunarmenn sem hafa sérhæft sig í viðbrögðum á hamfarasvæðum. Búnaður sveitarinnar vegur um átta tonn og gert er ráð fyrir því að sveitin geti starfað án utanaðkomandi aðstoðar í tíu daga. Einnig leggur Slysavarnafélagið Landbjörg til fjóra sérfræðinga í UNDAC teymi Sameinuðu þjóðanna.


Samkvæmt samningnum tekur utanríkisráðuneytið endanlega ákvörðun um útkall sveitarinnar í samráði við Slysavarnarfélagið Landsbjörg þegar hjálparbeiðni berst vegna stórfelldra náttúruhamfara og hamfara af mannavöldum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta