Samningur við Kötlu Jarðvang undirritaður
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Brynja Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri Kötlu Jarðvangs, undirrituðu í gær samning um stuðning ráðuneytisins við þróun og uppbyggingu jarðvangsins. Samningurinn er til fimm ára.
Katla Jarðvangur var settur á fót árið 2010 og nær yfir 9.542 km2 landsvæði sem heyrir undir þrjú sveitarfélög, Skaftárhrepp, Mýrdalshrepp og Rangárþing eystra. Jarðvangurinn skartar stórbrotinni náttúru en þar er t.a.m. að finna Lakagígar, eldstöðina Kötlu og Eldgjá. Auk jarðminja er jarðvangnum ætlað að draga fram menningu og sögu svæðisins og hefur hann hlotið alþjóðlega viðurkenningu sem UNESCO Global Geopark.
Samkvæmt samningnum hlýtur Katla Jarðvangur fjárhagslegan stuðning stjórnvalda í fimm ár með það að markmiði að stuðla að aukinni vernd náttúru- og menningarminja, uppbyggingu innviða, aukinni fræðslu og stefnumótun fyrir jarðvanginn. Þá er stuðningum ætlað að tryggja að Katla Jarðvangur haldi UNESCO vottun sinni.
Í framhaldinu verður skipaður samráðshópur sem í sitja fulltrúar Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Minjastofnunar Íslands auk Kötlu Jarðvangs.