Hoppa yfir valmynd
27. júní 2017 Utanríkisráðuneytið

Mikilvægi fríverslunar undirstrikað á ráðherrafundi EFTA á Svalbarða

Ráðherrar og framkvæmdastjóri EFTA. - myndEFTA

Viðskiptafrelsi og greiður markaðsaðgangur hefur aldrei verið mikilvægari en nú. Þetta voru ráðherrar sem sóttu ráðherrafund EFTA á Svalbarða í gær, sammála um.

„EFTA samstarfið er afar mikilvægt fyrir Ísland og tryggir góð viðskiptakjör fyrir íslensk fyrirtæki og einstaklinga á erlendum mörkuðum víða um heim. Nú eiga frjáls viðskipti undir högg að sækja og er því mikilvægt að standa vörð um opna markaði og viðskiptafrelsi,” segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sem sótti fundinn á Svalbarða.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir hvernig best megi tryggja óbreytt eða betra viðskiptaumhverfi við Bretland eftir brotthvarf landsins úr Evrópusambandinu og þar með Evrópska efnahagssvæðinu. Á fundinum var jafnframt ákveðið að EFTA ríkin muni styrkja enn frekar samráð um málefni sem tengjast Brexit. “Bretland er afar mikilvægt viðskiptaríki allra EFTA ríkjanna og því skiptir verulegu máli að þau efli enn samstarf og samráð sín á milli til að tryggja hagsmuni ríkjanna í þeim breytingum sem framundan eru. Í því samhengi er mikilvægt að kortleggja og undirbúa þá mismunandi valkosti sem í stöðunni eru,” segir Guðlaugur Þór.

Ráðherrar EES/EFTA ríkjanna ræddu einnig um samstarfið innan Evrópska efnahagssvæðisins og lögðu áherslu á mikilvægi samningsins nú þegar 25 ár eru síðan samningurinn var undirritaður.

Þá fóru ráðherrarnir yfir mikilvægi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og þess að standa vörð um hið alþjóðlega viðskiptakerfi, sem nú mæti ýmsum áskorunum.

Ráðherrarnir ræddu framgang fríverslunarviðræðna EFTA við önnur ríki en EFTA ríkin hafa nú gert 27 fríverslunarsamninga við 38 ríki, auk Evrópusambandsins. Þá hafa verið gerðar samstarfsyfirlýsingar við fimm ríki til viðbótar.

Ráðherrarnir fögnuðu því að EFTA ríkin hafi fyrr í þessum mánuði hafið viðræður við Mercosur ríkin (Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrugvæ). EFTA á einnig í viðræðum um gerð fríverslunarsamninga við Ekvador, Indland, Indónesíu, Malasíu og Víetnam og er unnið að því að uppfæra gildandi fríverslunarsamninga með Mexíkó og Tyrklandi. Þá er stefnt að því að hefja viðræður um uppfærslu gildandi samninga við Kanada, Chile og Tollabandalag S-Afríkuríkja og er í undirbúningi að gera samstarfsáætlun við Nígeríu og tollabandalag ríkja í A-Afríku

Ráðherrarnir áttu einnig fundi með þingmannanefnd EFTA og ráðgjafanefnd EFTA.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta