Embætti Tollstjóra fyrst til að hljóta jafnlaunamerkið
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra afhenti í dag Snorra Olsen tollstjóra jafnlaunamerkið sem viðurkenningu um að embættið starfræki jafnlaunakerfi sem samræmist kröfum reglugerðar um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana á grundvelli jafnlaunastaðalsins ÍST 85.
Embætti tollstjóra var fyrsta stofnunin sem tók þátt í tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins sem staðið hefur frá árinu 2013 og lýkur á þessu ári. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur leitt verkefnið í samstarfi við velferðarráðneytið og aðgerðahóp stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins. Alls tóku 11 stofnanir, tvö fyrirtæki og tvö sveitarfélög þátt í verkefninu. Embætti Tollstjóra er jafnframt fyrsta stofnunin sem öðlast hefur fagilta vottun og státar því af vottunarskírteini frá Vottun hf. númer 1. Fast á hæla Tollstjóra koma nokkrar ríkisstofnanir og einkafyrirtæki sem eru annað hvort að ljúka innleiðingu eða í úttekt.
„Þetta er mjög stór dagur í mínum huga og ástæða til að fagna þeim áfanga sem hér hefur náðst í baráttunni fyrir launajafnrétti kynja. Ég er sannfærður um að innleiðing jafnlaunavottunar verði þungt lóð á vogarskálar launajafnréttisins til lengri tíma litið“ sagði Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra þegar hann afhenti Snorra Olsen jafnlaunamerkið í velferðarráðuneytinu í dag.
„Þótt innleiðing jafnlaunastaðalsins hjá embættinu hafi kostað tíma og fyrirhöfn hefur það verið vel þess virði. Þessi vinna hefur veitt okkur betri yfirsýn yfir launauppbygginguna, hún dregur fram hvað betur má fara og vottunin á eftir að hjálpa okkur við að laða að gott starfsfólk vegna þeirrar viðurkenningar sem hún felur í sér“ sagði Snorri Olsen tollstjóri þegar hann tók við jafnlaunamerkinu ásamt Unni Ýr Kristjánsdóttur, forstöðumanni mannauðsviðs embættisins.
Jafnlaunamerkinu er ætlað að vera gæðastimpill og hluti af ímynd og orðspori fyrirtækja og stofnana sem öðlast hafa jafnlaunavottun. Merkið staðfestir að atvinnurekendur hafi komið sér upp ferli sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum feli hvorki í sér kynbundna mismunun eða mismunun af öðrum toga. Jafnlaunamerkið er hannað af Sæþóri Erni Ásmundssyni en hann vann samkeppni um hönnun þess sem haldin var á vegum aðgerðahóps um launajafnrétti og Hönnunarmiðstöðvar Íslands.
Jafnlaunamerkið býður upp á alþjóðlega notkun, er einstakt og lýsandi fyrir verkefnið, líkt og fram kom í umsögn dómnefndar á sínum tíma. Í því má sjá mynd sem sýnir skífurit, stimpil, rúnir og brosandi andlit tveggja ólíkra einstaklinga. Í lögun minnir merkið á mynt eða pening og gefur þannig til kynna að einstaklingarnir sem þar sjást séu metnir jafnir að verðleikum.