Smáríkjafundur WHO verður á Íslandi að ári
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur þegið boð íslenskra stjórnvalda um að halda fund smáríkja um heilbrigðismál á Íslandi að ári. Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra kynnti boð þessa efnis á árlegum fundi smáríkjanna sem lauk á Möltu í gær.
Þetta er í fjórða sinn sem WHO stendur fyrir fundi smáríkjanna átta sem eru Andorra, Kýpur, Lúxemborg, Malta, Mónakó, Svartfjallaland, San Maríno og Ísland og eiga það sameiginlegt að íbúafjöldi hvers þeirra er innan við milljón. Fyrsti fundurinn var haldinn á San Maríno árið 2014, árið eftir í Andorra og í fyrra í Mónakó.
Á fundum ríkjanna er meðal annars fjallað um hvernig smáríki geta skapað fordæmi og verið fyrirmynd annarra þjóða á sviði sjálfbærra verkefna í þágu velferðar og heilsu, líkt og endurspeglast m.a. í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
„Þó að lönd okkar séu mjög ólík þá eigum við líka margt sameiginlegt, jafnt áskoranir, lausnir og tækifæri. Þessir fundir WHO þar sem heilbrigðisráðherrar og embættismenn smáríkjanna koma saman eru mikilvægur vettvangur til að deila reynslu og skerpa á áherslum. Því fagna ég þeim heiðri að fá að bjóða ykkur til Íslands á næsta ári“ sagði Óttarr Proppé þegar hann kynnti boðið fyrir fundarmönnum á Möltu í gær og uppskar lófatak og mikla ánægju viðstaddra.