Nefndir um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi og um endurskoðun tekjuskatts
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað tvær nefndir. Er annarri falið að meta þörfina á aðskilnaði viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi en hinni að vinna að endurskoðun tekjuskattskerfis einstaklinga.
Nefnd sem falið er að meta þörfina á aðskilnaði viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi
Vorið 2017 fól fjármála- og efnahagsráðherra hópi sérfræðinga að skoða samspil viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi, hvernig þróunin hefði verið hérlendis og ytra síðustu ár, hvert umfang starfseminnar væri hér á landi og hvað gert hefði verið í nágrannalöndum m.t.t. umræðu um aðskilnað fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni til ráðherra í júní sl.
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur nú skipað nefnd til að fara nánar yfir niðurstöður starfshópsins. Skal nefndin taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til að gera breytingar á núverandi skipan mála og eftir atvikum leggja fram tillögur og skila niðurstöðum sínum til ráðherra fyrir 1. nóvember.
Nefndina skipa eftirtaldir þrír fulltrúar meiri hluta og tveir fulltrúar minni hluta á Alþingi:
- Guðjón Rúnarsson, formaður,
- Sigurður B. Stefánsson,
- Sigrún Ragna Ólafsdóttir,
- Frosti Sigurjónsson, og
- Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir.
Nefnd um endurskoðun á tekjuskatti einstaklinga
Á síðustu árum hefur margháttuð greining verið gerð á tekjuskattskerfi einstaklinga. Sérstaklega má þar benda á tillögur samráðsvettvangs um aukna hagsæld, sem byggðu meðal annars á skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá árinu 2015 um íslenskt tekjuskattkerfi einstaklinga. Helstu tillögurnar sem þar komu fram voru þær að taka upp útgreiðanlegan persónuafslátt samhliða endurskoðun á barna- og vaxtabótum, auk endurskoðunar á tekjuskattshlutföllum.
Hlutverk nefndar fjármála- og efnahagsráðherra um endurskoðun á tekjuskattkerfi einstaklinga er að setja fram raunhæfar tillögur að breytingum á núverandi kerfi sem meðal annars byggja á framangreindri vinnu. Breytingarnar skulu hafa það að markmiði að lækka jaðarskatta og fækka þannig og helst útrýma fátæktargildrum, auka gegnsæi kerfisins og tryggja skilvirka tekjuöflun ríkisins.Nefndin skal skila niðurstöðum sínum til ráðherra fyrir 1. desember 2017.
Í nefndinni sitja:
- Dr. Axel Hall, hagfræðingur, formaður
- Elín Alma Arthúrsdóttir, sviðsstjóri, ríkisskattstjóra
- Maríanna Jónasdóttir, skrifstofustjóri, fjármála- og efnahagsráðuneyti
- Henný Hinz, hagfræðingur, Alþýðusambandi Íslands.