Drög að frumvarpi til laga um póstþjónustu
Í drögum að frumvarpi til laga um póstþjónustu er lagt til að einkaréttur ríkisins verði lagður niður og opnað fyrir samkeppni á póstmarkaði. Jafnframt er lagt til að eftirlit með póstþjónustu verði einfaldað, m.a. eftirlit með gjaldskrá fyrir alþjónustu. Eftir sem áður verður alþjónusta, grunnþjónusta á sviði póstþjónustu, tryggð borgurunum og leitast við að gera það á sem hagkvæmastan hátt.
Aðdragandinn að þessum breytingum er langur en á einkum rætur að rekja til breytinga á regluverki Evrópusambandsins og Evrópska efnahagsvæðins á sviði póstþjónustu.
Frumvarpsdrög voru áður lögð til umsagnar á vef þáverandi innanríkisráðuneytis í janúar 2016. Hafa þau tekið talsverðum breytingum síðan, en ekki náðist að leggja fram fyrrnefnd drög 2016-2017, m.a. vegna þingkosninga.
Ný drög eru hér lögð fram til umsagnar en samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hyggst leggja fram frumvarp til nýrra póstlaga á komandi hausti.
Þeir sem hafa áhuga á að koma með athugasemdir við frumvarpsdrögin geta sent þær á netfangið [email protected]. Umsagnarfrestur er til og með 14. ágúst 2017.
Nánar um helstu breytingar
Meginmarkmið með þeim breytingum sem hér eru lagðar fram er að stuðla að virkri samkeppni og lágmarka ríkisframlag við að tryggja hagkvæma lágmarksþjónustu (alþjónustu) um land allt. Lagt til að nú verði stigið lokaskrefið í afnámi einkaréttar hins opinbera á sviði póstþjónustu en póstþjónusta hér á landi hefur hingað til lotið einkarétti ríkisins.
Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpsdrögunum eiga sér talsvert langan aðdraganda. Með lögum nr. 31/1940 var einkaréttur skilgreindur fyrir lokaðar áritaðar bréfasendingar allt að 2 kg. Með lögum nr. 142/1996 var pósttilskipun Evrópusambandsins 97/67/EB innleidd í íslenskan rétt (hér eftir nefnd pósttilskipunin), þar sem öllum þegnum var tryggð grunnþjónusta. Árið 1998 var dregið úr einkarétti ríkisins og einkarétturinn bundinn við 250 g bréfasendingar. Í núgildandi lögum nr. 19/2002 er miðað við að bréf undir 50 g séu háð einkarétti, sbr. tilskipun 2002/39/EB. Í meðfylgjandi frumvarpi er lagt til afnám einkaréttar sem byggist á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/6/EB um breytingar á pósttilskipun 97/67/EB (þriðja pósttilskipunin). Auk þess að lagðar eru til breytingar á starfsumhverfi póstfyrirtækja er jafnframt lagt til að eftirlit með póstþjónustu verði einfaldað, m.a. varðandi eftirlit með gjaldskrá alþjónustu. Öll önnur ríki innan EES hafa þegar innleitt tilskipunina og fellt einkarétt hins opinbera á póstþjónustu úr gildi.
Markmið frumvarpsins er að tryggja hagkvæma, virka og áreiðanlega póstþjónustu hér á landi m.a. með því að tryggja notendum aðgang að alþjónustu eins og hún er skilgreind og með því að efla samkeppni á markaði fyrir póstþjónustu samhliða því að einkaréttur ríkisins er afnuminn. Tilgangur einkaréttar hefur hingað til fyrst og fremst verið að standa undir kostnaði við og viðhalda alþjónustu í póstþjónustu. Með minnkandi póstmagni getur einkaréttur ekki lengur staðið undir kostnaði við að viðhalda alþjónustu miðað við óbreytta þjónustu innan alþjónustu.
Með bættum fjarskiptum og samgöngum hefur á undanförnum árum dregið úr mikilvægi póstþjónustu hér á landi, sér í lagi hvað varðar dreifingu á hefðbundnum bréfum, s.s. útsendingu á reikningum, launamiðum og öðru slíku. Kannanir árin 2012 og 2015 leiddu bersýnilega í ljós að þarfir notenda hafa breyst og dregið hefur úr eftirspurn eftir þjónustu. Aftur á móti hefur samkeppni í bögglasendingum aukist og vísbendingar eru um að með aukinni vefverslun muni bögglasendingum fjölga áfram.
Í frumvarpinu er lögð áhersla á að tryggja aðgang að alþjónustu og að þjónustan taki mið af þörfum notenda og eftirspurn eftir þjónustu. Lagt er til að gerð verði markaðskönnun til að athuga hvort póstþjónustu verði við komið á markaðslegum forsendum. Reynist svo ekki vera er heimilt að bjóða út alþjónustuna. Komi í ljós að ekki reynist hagkvæmt og skilvirkt að bjóða þjónustuna út er heimilt að útnefna alþjónustuveitanda. Hafi alþjónustuveitandi verið útnefndur getur hann óskað eftir fjárstuðningi frá hinu opinbera vegna alþjónustu sem telst vera ósanngjörn fjárhagsleg byrði.
Nokkrar breytingar eru lagðar til á stjórnsýslu hins opinbera en lagt er til að dregið verði úr eftirliti á póstmarkaði. Eftir sem áður fer Póst- og fjarskiptastofnun með eftirlit með framkvæmd laganna. Lagt er til að dregið verði úr gjaldskráreftirliti og ekki gerð krafa um að stofnunin samþykki gjaldskrá alþjónustuveitanda fyrirfram. Þetta þýðir að markaðsaðilar hafa meira frelsi til að ákveða verð og fyrirkomulag póstþjónustu. Stofnunin hefur engu að síður heimildir til inngrips, reynist þess þörf, enda eiga notendur rétt á að alþjónusta sé á sanngjörnu verði.
Reikna verður með að einhver kostnaður geti fallið á ríkissjóð verði frumvarpið að lögum en reynt er að tryggja að sá kostnaður verði lágmarkaður eins og mögulegt er. Það mun þó ekki liggja fyrir hversu mikill kostnaður verður fyrr en að lokinni markaðskönnun og eftir atvikum að loknu útboði eða útnefningu leiði markaðskönnun í ljós þörf til að tryggja notendum aðgang að alþjónustu með þeim hætti sem kveðið er á um í lögunum.
Með þessum breytingum er stuðlað að samkeppni en um leið er notendum tryggður aðgangur að alþjónustu. Ætla má að umtalsverður ávinningur skapist af samkeppni og svigrúmi á sviði póstþjónustu sem getur leitt til vöruþróunar, nýsköpunar og nýjunga á póstmarkaði.