Hoppa yfir valmynd
18. júlí 2017 Innviðaráðuneytið

Drög að breytingum á lögum á sviði siglinga til umsagnar

Tvenn drög að lagafrumvörpum á sviði siglinga eru nú til umsagnar hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu: Annars vegar breytingar á lögum um Samgöngustofu og hins vegar breytingar á lögum um eftirlit með skipum.

Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin og skulu þær berast á netfangið [email protected] eigi síðar en 4. ágúst.

Lög um Samgöngustofu

Með fyrri drögunum er lagt til að Samgöngustofa birti á vef sínum ýmsa alþjóðlega gerninga, s.s. viðauka og kóða sem fylgja alþjóðasamningum á sviði siglinga, sem Ísland er aðili að.

Ísland er aðili að 33 alþjóðasamningum sem samdir hafa verið á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO). Flestir eru byggðir upp með þeim hætti að í meginefni er að finna almenn ákvæði um réttindi og skyldur samningsaðila o.fl. en tæknilegar útfærslur er að finna í gerningum sem sækja stoð sína í meginefni samninganna, sem kallast ýmist kóðar eða viðaukar. Er þetta sambærilegt því hvernig lög frá Alþingi veita ráðherra heimild til að útfæra ákvæði laga í reglugerðum.

Umfang þessara kóða og viðauka er mikið og breytingar á þeim eru örar. Vegna þessa hafa fáir þessara kóða og viðauka verið birtir hér á landi á vegum stjórnvalda. Með birtingu á vef Samgöngustofu felst töluvert hagræði og aðgengi almennings og lögaðila að þeim verður betra hér á landi. Þá er lagt til að heimilt verði að birta þessi gögn á ensku.

Lög um eftirlit með skipum

Með drögum að breytingu á lögum um eftirlit með skipum er lagt til að bætt verði við ákvæði um stjórnvaldssektir vegna brota á lögunum.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, Samgöngustofu og Landhelgisgæsla Íslands hafa fjallað um nauðsyn þess að lög um eftirlit með skipum hafi að bjóða upp á virkari úrræði til að bregðast við brotum gegn þeim.

Í lögunum er fyrst og fremst gert ráð fyrir því að brot gegn þeim séu kærð til lögreglu til rannsóknar. Aðeins er að finna eina tegund stjórnsýsluviðurlaga sem er farbann, sem eðli málsins samkvæmt kann að vera mjög þungbært úrræði. Beiting stjórnvaldssekta er almennt skilvirkara úrræði en að bera mál undir dómstóla af hálfu ákæruvaldsins. Eftirlitsstjórnvöld eru oft í lykilaðstöðu til að meta hvar þurfi að bregðast við á skilvirkan hátt til þess að halda uppi lögum.

Málsmeðferð er almennt kostnaðarminni þegar stjórnvöld leggja á stjórnsýsluviðurlög heldur en þegar dómstólar dæma menn eða lögaðila til refsingar. Kostnaður hins brotlega, t.d. vegna aðstoðar lögmanna, er oftast einnig minni þegar um stjórnsýsluviðurlög er að ræða. Þá tekur almennt mun skemmri tíma að rannsaka og koma fram stjórnsýsluviðurlögum en refsingu.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið telur nauðsynlegt að mælt sé fyrir um stjórnsýsluviðurlög í lögum um eftirlit með skipum til viðbótar við ákvæði um farbann. Er það mat ráðuneytisins að stjórnvaldssektir séu skilvirkasta úrræðið í þessum efnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta