Guðlaugur Þór fundar með menntamálaráðherra Japan
Á fundi ráðherranna var farið yfir góð samskipti Íslands og Japans og blómleg og vaxandi viðskipti. Því var sérstaklega fagnað að nýlega var lokið við gerð tvísköttunarsamnings milli landanna, sem áætlað er að undirrita öðrum hvorum megin við næstu áramót. Ráðherrarnir lýstu ánægju sinni með samning sem er í vinnslu og auðveldar ungu fólki – 18 til 26 ára – að flytjast tímabundið milli landanna tveggja, meðal annars með tímabundnum réttindum á vinnumarkaði á báða bóga. Guðlaugur Þór ítrekaði vilja Íslendinga til að hafinn yrði undirbúningar að gerð fríverslunarsamnings, sem oft hefur borið á góma í samskiptum landanna. Hann lýsti þeirri skoðun að, í ljósi aukinna umsvifa í flugi á Íslandi og fjölgunar flugvéla með mikið flugþol, tímabært væri að hefja viðræður um gerð loftferðasamnings milli landanna. Utanríkisráðuneytið mun senda japönskum stjórnvöldum formlega ósk þar að lútandi innan skamms.
Ráðherrarnir ræddu væntanlega þriggja vikna heimsókn Sinfóníuhljómsveitar Íslands til Japans á næsta ári. Það er fyrsta heimsókn hljómsveitarinnar til Asíu. Ráðgert er að hún haldi tónleika í nokkrum helstu borgum Japans, meðal annars Tókýó, Kýótó, Sapporo og Hamamatsu. Stjórnandi verður Vladimir Ashkenazy, sem nýtur mikillar hylli í Japan. Einleikari verður japanski píanóleikarinn Nobuyuki Tsujii, sem er stórstjarna í heimalandi sínu og víða um heim, þekktur undir nafninu Nobu. Japanski ráðherrann fagnaði væntanlegri heimsókn hljómsveitarinnar, því með henni væri Japönum sérstakur sómi sýndur.