Ráðherra hefur endurheimt votlendis við Urriðavatn
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, markaði í gær upphaf vinnu við endurheimt votlendis við Urriðavatn í Garðabæ með því að moka ofan í skurð við vatnið. Um leið undirrituðu Garðabær, Landgræðsla ríkisins, Toyota á Íslandi, Urriðaholt ehf og Byggingarfélag Gylfa og Gunnars samning um endurheimt votlendisins.
Urriðavatn og umhverfi er á náttúruminjaskrá og markmið verkefnisins er að færa land í átt til fyrra horfs og skapa lífsskilyrði fyrir gróður og dýralíf sem áður ríkti og skapa einnig aukið svigrúm fyrir útivistaraðstöðu í umhverfi Urriðavatns.
Verkið felst í uppfyllingu skurða sem eru 815 lengdarmetrar með aðfluttu efni úr næsta nágrenni eða frá Urriðaholti, ásamt efni á bökkum skurðanna. Með tímanum ætti endurheimt votlendi að binda kolefni í stað þess að losa það út í andrúmsloftið en votlendi geyma verulegan hluta kolefnisforða jarðarinnar.