Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2017 Innviðaráðuneytið

Norðfjarðarflugvöllur í gagnið á ný með bundnu slitlagi

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, klippir á borða í dag ásamt fulltrúum Fjarðabyggðar og þeirra sem lögðu til fjármagn í verkefnið á Norðfjarðarflugvelli. - mynd

Norðfjarðarflugvöllur var í dag tekinn formlega í notkun á ný með bundnu slitlagi sem lagt var á völlinn. Ríki og sveitarfélagið lögðu saman fjármagn til verksins sem alls kostaði 158 milljónir króna.

Fjarðabyggð, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað og Síldarvinnslan hf. fjármögnuðu helminginn af kostnaði við framkvæmdarinnar á móti ríkinu. Flugbrautin var malabraut og hefur ástand hennar farið versnandi undanfarin ár og talið var orðið brýnt að leggja á hann bundið slitlag ef hann ætti að nýtast sem sjúkraflugvöllur.

Við athöfn á flugvellinum af þessu tilefni fluttu ávörp þeir Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri hjá Isavia, Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, og Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar. Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, stýrði athöfninni. Að henni lokinni klippti ráðherra á borða ásamt fulltrúa Isavia og forráðamönnum Fjarðabyggðar og þeirra aðila sem lögðu fjármagn í verkefnið. Að því loknu var sýnt listflug, gestir gátu skoðað sjúkraflugvél Mýflugs og ýmsar aðrar flugvélar sem höfðu viðkomu á vellinum.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði það fagnaðarefni að taka nú völlinn í notkun eftir þessa endurnýjun en sextíu ár eru síðan flugvöllurinn var lagður. Um nokkurt árabil var stundað áætlunarflug um völlinn en það lagðist af árið 1997. Einnig kom fram við athöfnina að Fjarðabyggð liti á framlag sitt og samstarfsaðilanna í bænum sem framlag til heilbrigðisþjónustu enda væri góður sjúkraflugvöllur í Norðfirði brýnn þáttur í þjónustu Umdæmissjúkrahúss Austurlands í Neskaupstað við íbúa í fjórðungnum. Þá var bent á að þessi endurnýjun flugvallarins gæti til dæmis gefið flugáhugamönnum tækifæri til að efla einkaflug og fyrirhugað væri að bjóða uppá útsýnisflug frá vellinum.

  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flutti ávarp á Norðfjarðarflugvelli. - mynd
  • Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri hjá Isavia, flutti ávarp í dag. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta