Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á ferð um Austurland
Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, er nú á ferð um Austurland þar sem hann á fundi með sveitarstjórnarfólki í landsfjórðungnum. Einnig kynnir ráðherra sér samgönguframkvæmdir og heimsækir starfsstöðvar Vegagerðarinnar.
Aðal umræðuefnin á fundunum eru samgöngumál, sveitarstjórnarmál og fjarskiptamál, svo og ýmis mál sem sveitarstjórnarmenn bera upp og eru til umfjöllunar í þeirra heimabyggð.
Ráðherra átti í gær fund með fulltrúum Fjarðabyggðar, í dag með bæjarfulltrúum á Seyðisfirði og með fulltrúum bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs. Á þessum fundum hefur ráðherra farið yfir það sem er efst á baugi í málaflokkunum og koma samgöngumál þar einna mest til umræðu. Rætt er mikið um forgangsröðun framkvæmda og hefur komið fram í máli ráðherra að hann hefur átt viðræður bæði við ráðherra og alþingismenn um leiðir til að leggja áfram aukið fé til samgönguframkvæmda enda mörg umfangsmikil og brýn verkefni framundan. Leggur ráðherra áherslu á að sveitarstjórnarmenn á Austurlandi líti á svæðið sem eina heild og hafi í huga að samgöngubætur í einu byggðarlagi komi mannlífi og atvinnulífi í öllum fjórðungnum til góða.
Jarðgöng á Austurlandi hafa mikið verið rædd á þessum fundum en stutt er í að Norðfjarðargöng verði opnuð. Gert er ráð fyrir að það geti orðið síðla í október sem er nokkrum vikum síðar en ráðgert var. Austfirðingar leggja áherslu á að næstu jarðgangaframkvæmdir verði í fjórðungnum í kjölfarið á Dýrafjarðargöngum. Er annars vegar horft til gerðar jarðganga milli Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar en við það myndi leggjast af erfiður fjallvegur um Fjarðarheiði sem fer uppí 600 m hæð. Hins vegar er horft til jarðganga milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og Mjóafjarðar og Norðfjarðar en einnig með tengingu milli Mjóafjarðar og Fagradals.
Fram hefur komið í máli samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á þessum fundum að mikilvægt sé að ígrunda vel þessa kosti alla og setja í forgangsröð enda væru þær umfangsmestu samgönguframkvæmdir sem ráðist hefði verið í hérlendis. Boðaði hann að starfshópur myndi rýna skýrslur, álit og rannsóknir undanfarinna ára til að unnt væri að meta hvernig mætti standa að samgöngubótum sem kæmu fjórðungnum að sem mestu gagni.
Í dag stóð samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fyrir opnum fundi á Reyðarfirði um samgöngumál á Austurlandi. Þar fór ráðherra yfir helstu verkefnin framundan og fundarmenn báru fram ýmsar spurningar og urðu líflegar umræður í kjölfarið.