Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfismál á norðurslóðum í brennidepli nýrrar skýrslu

Frá Grænlandi - myndLjósmynd: Kitt – norden.org

Hnattræn hlýnun hefur einna mest áhrif á norðurslóðum en Norðurheimskautssvæðið hlýnar nú tvöfalt hraðar en önnur svæði jarðar að jafnaði. Ríki Evrópu eiga sinn þátt í þessari hröðu hlýnun en álfan getur einnig lagt sitt af mörkum til að sporna við frekari hlýnun í norðri. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýlegri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu um umhverfismál á norðurslóðum.

Skýrslan gefur yfirlit yfir stöðu umhverfismála á Norðurheimskautssvæðinu og bendir á helstu leiðir sem færar eru til að draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum þar, með sérstakri áherslu á evrópska hluta svæðisins.

Loftslagsbreytingar eru ekki eina áskorunin sem samfélög á norðurslóðum standa frammi fyrir. Leit að jarðefnum og jarðefnaeldsneyti, auknar samgöngur á láði og legi, ásókn í veiðar á norrænum hafsvæðum, staðbundin mengun frá iðnaði og gömlum aflögðum iðnaðarsvæðum, uppbygging innviða, ferðaþjónusta, ágengar tegundir og hnignun líffræðilegs fjölbreytileika eru allt áskoranir sem tvinnast saman við áhrif loftslagsbreytinga svo heildaráhrifin verða mun meiri en ella. Þetta reynir á þol samfélaga og vistkerfa á norðurslóðum.

Enn sem komið er halda vistkerfi Norðurheimskautssvæðisins í við hlýnun og sinna vistkerfisþjónustu sem svæðið og samfélög manna þar geta ekki lifað án. Hins vegar þykir sýnt að ef hlýnun heldur áfram muni mörg vistkerfi á svæðinu gefa eftir um miðbik aldarinnar og hætta að veita þessa nauðsynlegu þjónustu. Helsta ástæða þessa er að samverkandi þættirnir, sem taldir eru upp hér að ofan, magna hver annan upp þar til áhrifin eru orðin meiri en vistkerfin þola.

Í skýrslunni segir að auk almennra aðgerða til að vernda umhverfið sé rétt að leggja áherslu á að tekið sé á afleiðingum loftslagsbreytinga með því að styðja samfélög við að aðlagast breyttum aðstæðum. Einnig er hvatt til að byggja upp frekari vísindalega þekkingu á orsökum og afleiðingum breytinga á norðurslóðum og styrkja sjálfbæra þróun með fjárfestingu í nýsköpun, innviðum og samvinnu ríkja á svæðinu.

The Arctic Environment - skýrsla um umhverfismál á norðurslóðum 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta