Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2017 Utanríkisráðuneytið

Kynning á áformum um breytingar á lögum um Íslandstofu

Starfshópur sem utanríkisráðherra skipaði til að skrifa frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 38/2010 um Íslandsstofu, hefur unnið drög að frumvarpinu.

Verkefni starfshópsins var að endurskoða hlutverk utanríkisþjónustunnar og Íslandsstofu hvað varðar útflutningsaðstoð við íslenskt atvinnulíf á erlendum mörkuðum, ímynd og orðspor Íslands, kynningu á íslenskri menningu erlendis og markaðsstarf gagnvart erlendum ferðamönnum og fjárfestum með það að markmiði að marka grundvöll fyrir framtíðarfyrirkomulag útflutningsaðstoðar og markaðsstarfs. Starfshópurinn var skipaður aðstoðarmönnum utanríkisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.

Frumvarpsdrögin eru til umsagnar til og með 10. september nk. Umsagnir sendist á postur [hjá] utn.stjr.is.

Frumvarpinu er ætlað að koma til framkvæmda tillögum starfshóps utanríkisráðherra um útflutningsaðstoð og markaðssetningu á vöru og þjónustu frá Íslandi sem árið 2015 skilaði skýrslunni „Áfram Ísland, endurskoðun á stefnumörkun og skipulagi útflutningsþjónustu og markaðsstarfs“ eða eftir atvikum skapa forsendur til þess. Er mikilvægt að þessi heildarmynd liggi fyrir við meðferð málsins á Alþingi þannig að ljóst sé að markmiðið með þessum breytingum er að styrkja enn frekar það starf sem fram hefur farið innan Íslandsstofu undanfarin ár og gera grunn hennar skýran á nýjan leik í öflugu samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda. Lagt er upp með að hinn markaði tekjustofn haldist óbreyttur og að ákvæði laganna þess efnis gildi sem sérlagaákvæði gagnvart lögum um opinber fjármál.

Nánar tiltekið felur frumvarpið í sér neðangreint:

  1. Lagt er til að rekstrarformi Íslandstofu verði breytt til að skýrt sé að Íslandsstofa sé rekin sem sjálfseignarstofnun á einkaréttarlegum grunni í samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda. Gert er ráð fyrir að með ítarlegum hætti verði mælt fyrir um skyldur Íslandsstofu gagnvart stjórnvöldum í sérstökum þjónustusamningi.
  2. Lagt er til að starfsemi Íslandsstofu verði undanþegin stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og lögum um opinber innkaup.
  3. Rekstur Íslandsstofu verði áfram fjármagnaður með markaðsgjaldi, þ.e. gjald sem lagt er á gjaldstofn til greiðslu tryggingagjalds eins og hann er skilgreindur í III. kafla laga nr. 113/1990, um tryggingagjald.
  4. Mælt er fyrir um auknar skyldur stjórnar Íslandsstofu m.a. að því er varðar framkvæmd mótaðrar langtímastefnu.
  5. Lagt er til að sett verði á fót útflutnings- og markaðsráð sem gegni lykilhlutverki varðandi mótun langtímastefnu og eftirfylgni hennar.
  6. Ríkari áhersla verði lögð á að vinna út frá markaðri langtímastefnu í útflutnings- og markaðsmálum sem unnin verði í breiðri samvinnu atvinnulífs, stjórnvalda og eftir atvikum sveitarfélaga.
  7. Staða Íslandsstofu sem þungamiðja í samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda í markaðsstarfi á erlendri grundu er staðfest, m.a. með því að mæla fyrir um skýrt hlutverk hennar í mótun langtímastefnu og framkvæmd hennar
  8. Kveðið verði með skýrum hætti á um að beita skuli mælanlegum markmiðum og mælikvörðum í markmiðssetningu og áætlanagerð sem síðan er stjórnar Íslandsstofu að fylgjast með og eftir atvikum bregðast við.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta