Utanríkisþjónusta til framtíðar
„Hagsmunagæsla verður að vera rauði þráðurinn í störfum utanríkisþjónustunnar bæði hér heima og erlendis. Hagsmunagæsla er í mörgum myndum en á hverjum degi skapar atvinnulífið og fyrirtækin í landinu útflutningstekjur sem er kjölfesta efnahagslífsins hér á landi. Utanríkisþjónustan á að opna dyr og afla nýrra markaða, í samvinnu og samráði við atvinnulífið,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sem kynnti í dag skýrslu og tillögur stýrihóps utanríkisráðuneytisins um framtíð utanríkisþjónustunnar sem unnið hefur verið að undanfarna mánuði.
Í skýrslunni sem ber heitið Utanríkisþjónusta til framtíðar: Hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi er sjónum beint að þeim tækifærum og áskorunum sem utanríkisþjónustan stendur frammi fyrir á næstu árum og gerðar tillögur um hvernig laga megi starfsemi utanríkisþjónustunnar að verkefnum framtíðarinnar. „Með þessari skýrslu og tillögugerð er mörkuð heildstæð sýn á hvernig kröftum okkar verður best varið á næstu árum miðað við þau verkefni og þau tækifæri sem fram undan eru í alþjóðlegum efnahagsmálum, alþjóðastjórnmálum, umhverfismálum, þróunarsamvinnu og þar fram eftir götunum,“ segir utanríkisráðherra. „Aldrei áður hefur verið ráðist í jafn umfangsmikla rýni á starfsemi utanríkisþjónustunnar og þetta verður fyrsta skrefið á langri leið,“ segir utanríkisráðherra.
Stýrihópurinn átti víðtækt samráð við gerð skýrslunnar á undanförnum mánuðum, hitti fjölda fólks að máli og kallaði eftir tillögum um úrbætur. Afraksturinn er efnismikil skýrsla og tillögur í rúmlega 150 liðum sem taka til mála á borð við staðsetningu og mönnun sendiskrifstofa, aukna áherslu á fríverslun og nýtingu útflutningstækifæra, bætta þjónustu við Íslendinga erlendis og aukna viðskiptaþjónustu og hagsmunagæslu á nýmörkuðum. „Kröfur nútímans eru þær að við þurfum að vera sveigjanleg og laga mannauð og fjármuni að síbreytilegum aðstæðum, að við séum í stakk búin að sinna þörfum atvinnulífsins og þá ekki síst hinum skapandi greinum. Hér erum við komin með hagnýtan ramma um slíkt starf og allir þeir sem vinna að málaflokkunum eða hafa af þeim að segja hafa haft tækifæri til að leggja orð í belg,“ segir utanríkisráðherra.
„Þetta hefur verið afar áhugavert ferli þar sem við höfum velt við mörgum steinum og rýnt í hvernig við getum betur ráðstafað fjármunum og mannauði utanríkisþjónustunnar til hagsbóta fyrir þjóðina,“ segir Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri sem leiddi stýrihóp ráðuneytisins.
Utanríkisþjónusta til framtíðar; hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi