Ísland mælist efst á Positive Economy Index fyrir árið 2017
Ísland er í 1. sæti á lista yfir efnahagslegan árangur samkvæmt Positive Economy Index 2017, en niðurstöðurnar voru kynntar á ráðstefnunni Global Positive Forum í París í dag. Staðallinn mælir árangur OECD-ríkja í efnahagsmálum með tilliti til ósérplægni efnahagsstefnu þeirra m.a. á mælikvarða jákvæðrar skuldastefnu, menntastefnu, endurnýjanlegrar orkunotkunar og samfélagslegs trausts.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, ávarpaði af þessu tilefni ráðstefnuna og svaraði spurningum Jaques Attali, stofnanda vettvangsins. Meðal þess sem þeir ræddu var þáttur jafnréttis og félagslegrar samheldni í góðum árangri Íslands, sem og skynsamlega notkun auðlinda og fyrirhyggju í fjármálum með setningu laga um opinber fjármál, fyrirhugaða stofnun stöðugleikasjóðs og sterka stöðu lífeyriskerfisins.
Positive Economy Index mælikvarðinn á rætur sínar að rekja til ársins 2013 og hefur Ísland frá upphafi komið ágætlega út og er þetta árið í efsta sætinu. Mælikvarðinn snýst ekki síst um efnahagsstöðu og stefnu ríkja, samfélagið, félagsleg og siðferðileg gildi, og hve mikilvægt er að snúa frá skammtímahugsun til langtímahugsunar.
Forsætisráðherra á fund með forseta Frakklands í kvöld og heldur til Finnlands í fyrramálið þar sem hann mun fylgjast með leikjum Íslands í fótbolta og körfubolta.