Hoppa yfir valmynd
5. september 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samstaða um sterkan kaupmátt

Fjármála- og efnahagsráðherra kynnti áherslur ríkisins í kjaraviðræðunum framundan. - mynd
Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í dag áherslur og skipulag ríkisins í komandi kjaraviðræðum við starfsmenn ríkisins. Ráðherra sagði markmið ríkisins vera að ná samstöðu um það hvernig eigi að viðhalda þeirri miklu kaupmáttaraukningu sem orðið hefur á undanförnum árum og byggja upp samkeppnishæft starfsumhverfi ríkisins. Ráðherra lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að öll upplýsingagjöf af hálfu ríkisins í tengslum við kjarasamningana verði skilvirk og aðgengileg.

Horft verði á heildarmyndina í kjaraviðræðum

Í þeim kjaraviðræðum sem framundan eru hjá ríkinu verður haldið áfram að byggja upp það framtíðarfyrirkomulag sem almenn sátt ríkir um að þurfi að ríkja á íslenskum vinnumarkaði. Í þeirri vegferð verður lögð áhersla á að horfa á heildarmyndina þar sem samvinna, kaupmáttur, árangur og ábyrgð verða leiðarljósin.

Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra:

„Kaupmáttur launa hefur aukist um 25% frá janúar 2014 og okkar mikilvægasta verkefni er að ná samstöðu um hvernig við getum viðhaldið þeim kaupmætti. Til þess að gera það er nauðsynlegt að horfa á heildarmyndina, það er að þegar allt er tekið saman verði niðurstaðan góð fyrir alla. Þess vegna munum við leggja áherslu á að horfa til þróunar efnahagsmála og möguleg áhrif kjarasamninga á hana og öfugt. Þar teljum við mikilvægt að skapa forsendur fyrir stöðugra gengi og lægri vexti auk þess sem lækkun virðisaukaskatts mun styðja við okkar markmið um að styrkja kaupmátt. Þá viljum við fara yfir aðra þætti sem launþegahreyfingarnar hafa lagt áherslu á og miða að því að skapa samkeppnishæft vinnuumhverfi hjá ríkinu, eins og vinnutilhögun og önnur atriði sem snúa ekki endilega beint að launaliðnum.“

„Þessir samningar snúast um það hvernig við getum átt gott og árangursríkt samstarf við opinbera starfsmenn enda byggir allur árangur í ríkisrekstrinum á að laða til sín og halda í hæft starfsfólk. Þess vegna munum við leggja áherslu á að hlusta og vinna með viðsemjendum okkar að því sameiginlega markmiði að ríkið geti boðið samkeppnishæf kjör á sama tíma og við sýnum ábyrgð í fjármálum og efnahagsmálum. Þá leggjum við áherslu á að þetta samtal haldi áfram yfir samningstímann en ljúki ekki þegar skrifað er undir samningana.“

Áhersla á góð og heiðarleg samskipti

Á fundinum kynnti fjármála- og efnahagsráðherra skipulag ríkisins í viðræðunum. Hann lagði áherslu á að góð og heiðarleg samskipti af hálfu ríkisins, hvort sem er gagnvart viðsemjendum, fjölmiðlum eða almenningi, verði tryggð.

Gunnar Björnsson skrifstofustjóri Kjara- og mannauðssýslu ríkisins er formaður samninganefndar ríkisins en hann hefur áratugareynslu af kjaramálum fyrir þess hönd. Auk hans verður samninganefndin skipuð reynslumiklu fólki úr stjórnkerfinu.

Guðrún Ragnarsdóttir mun starfa með samninganefndinni sem sérstakur talsmaður og bera ábyrgð á samskiptum og upplýsingagjöf til fjölmiðla. Guðrún hefur áður átt sæti í samninganefnd ríkisins og hefur víðtæka reynslu úr opinbera- og einkageiranum en hún starfaði m.a. sem framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna og hefur verið stjórnarformaður nokkurra ríkisstofnana.

Allar frekari upplýsingar um áherslur og skipulag ríkisins í komandi kjaraviðræðum veitir Guðrún Ragnarsdóttir talsmaður samninganefndar ríkisins í netfanginu [email protected] eða í síma 770 4121.

Glærur fjármála- og efnahagsráðherra frá fundinum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta