Fjárlagafrumvarp 2018
Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2018 er í dag lagt fram á Alþingi og er í samræmi við markmið fjármálaáætlunar fyrir árin 2018-2022, sem Alþingi samþykkti í júní.
Fjárlagafrumvarpið fyrir 2018 er hið fimmta í röð þar sem gert er ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs. Meginmarkmið þess er að varðveita þann góða árangur í efnahagsmálum sem náðst hefur á undanförnum misserum en útlit er fyrir að núverandi hagvaxtarskeið verði það lengsta frá upphafi mælinga. Staða efnahagsmála, fjármála ríkissjóðs og hins opinbera er að mörgu leyti öfundsverð í alþjóðlegum samanburði.
104 milljarða afgangur fyrir vexti
Gert er ráð fyrir að heildarafkoma ríkissjóðs skili afgangi sem nemur tæpum 44 milljörðum króna. Það er nær fjórum milljörðum hærra en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun og í góðu samræmi við áætlunina og fjármálastefnu sem Alþingi samþykkti í vor.
Framsetning fjárlagafrumvarps
Fjárlög byggja á fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Lögð eru fram tvö skjöl, annars vegar frumvarpið sjálft og hins vegar fylgirit. Fylgiritið sýnir áætlun um það hvernig ráðuneyti hyggjast verja fjárheimildum sínum. Nú í fyrsta sinn eru settar fram áætlanir um fjárveitingar í tvö ár eftir fjárlagaárið fyrir stofnanir og verkefni.
Samhliða frumvarpinu var útbúinn lítill bæklingur, Fjárlögin í stuttu máli.
Allt talnaefni er nú birt á tölvutæku formi, en áfram verður unnið að því að bæta framsetningu gagna úr áætlanagerð og ríkisrekstri. Skemmst er að minnast vefsins opnirreikningar.is sem var opnaður í gær, mánudag.
Á fjárlagavef Stjórnarráðsins er öllu efni sem tengist frumvarpinu safnað saman.
Glærukynning fjármála- og efnahagsráðherra frá fundi með blaðamönnum(ppt).
Meðal áherslumála fjárlagafrumvarps
Velferðarmál
Tekjutrygging hækkar: Fólk sem býr eitt og þiggur örorkulífeyri eða ellilífeyri mun fá að minnsta kosti 300 í stað 280 þúsunda. Stofnstyrkir til byggingar almennra íbúða verða 3 milljarðar, sem er hækkun um 100% frá gildandi fjárlögum. Stuðningur við fyrstu íbúðakaup hefur verið festur í sessi. Hæstu greiðslur í fæðingarorlofi hækka úr 500 í 520 þúsund krónur, en stefnt er að því að hækka greiðslurnar í 600 þúsund á næstu árum. Framlög vegna móttöku flóttamanna verða nálega þrefölduð. Stuðningskerfi til að auka atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu verður styrkt frekar.
Heilbrigðismál
Hugað er að geðheilbrigðismálum víða í kerfinu. Heilsugæslan um land allt verður styrkt áfram sem fyrsti viðkomustaður, t.d. með fjölgun sálfræðinga. Barna- og unglingageðdeild Landspítala verður styrkt sérstaklega og sálfræðingum á heilsugæslu, geðheilsuteymum og meðferðarúrræðum við geðvanda fjölgað. Samkvæmt fjármálaáætlun er áætlað að auka framlög til geðheilbrigðisþjónustu, þ.m.t. barna- og unglingageðdeildar í áföngum til ársins 2022.
Bygging nýs Landspítala hefst seinni hluta árs 2018 og þá verður hafist handa við byggingu meðferðarkjarna við Hringbraut. Framlög til byggingar nýs Landspítala verða 2,8 ma.kr. og hækka um 1,5 ma.kr. frá fjármálaáætlun. Áfram verður haldið með átak til að bæta núverandi húsnæði Landspítala. Alls hækka heilbrigðis- og velferðarútgjöld um 4,6% umfram launa- og verðlagsþróun.
Atvinnumál
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða mun hafa tæplega 800 milljónir til ráðstöfunar, sem er aukning um 200 milljónir. Þá verður auknu fé varið til rannsókna og gagnaöflunar í ferðaþjónustu og stuðningur við Markaðsstofur landshlutanna aukinn verulega. Stuðningur við nýsköpun úr Tækniþróunarsjóði nemur 2,3 ma.kr. og skattaafsláttur vegna rannsókna og þróunar öðru eins. Báðir þessir liðir eru lítt breyttir á milli ára en hafa stóraukist á undanförnum árum. Gert er ráð fyrir að endurgreiðslur á framleiðslukostnaði kvikmynda breytist lítið á milli ára og verði liðlega 1,1 milljarður króna.
Umhverfismál
Grænir skattar verða lagðir á kolefnisútblástur en ívilnanir til kaupa á vistvænum bílum verða framlengdar í þrjú ár. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum lítur dagsins ljós á næstunni með fjölþættum aðgerðum víða í stjórnkerfi og hjá stofnunum ríkisins. Náttúruperlur verða verndaðar og byggðar upp samkvæmt áætlun um uppbyggingu innviða og vernd náttúru.
Menntamál
Máltækniáætlun verður hrint í framkvæmd með auknu fé. Einnig er ráðgert að bygging Húss íslenskra fræða komist aftur á skrið og gert ráð fyrir verulegri hækkun á framlögum til fjárfestinga vegna þessa. Verkið verður boðið út fyrir árslok 2017 og áætlað er að bygging hefjist fyrri hluta árs 2018. Framlög á hvern framhaldsskólanema halda áfram að hækka.
Samgöngur og aðrir innviðir
Tæplega 18 milljarðar króna fara í framkvæmdir og viðhald vega. Meðal stærstu verkefna verða Dýrafjarðargöng, nýr kafli hringvegarins í Berufjarðarbotni og ný Vestmannaeyjaferja. Ljósleiðaratengingar verða styrktar um hálfan milljarð í gegnum verkefnið Ísland ljóstengt, og hafnabótasjóður eflist.
Ferðaþjónusta í almennt þrep virðisaukaskatts í janúar 2019
Í fjármálaáætlun var stefnt að því að færa gistiþjónustu og aðra ferðaþjónustutengda starfsemi úr neðra þrepi í almennt þrep virðisaukaskatts þann 1. júlí 2018. Fjárlagafrumvarp fyrir 2018 gerir ráð fyrir því að ferðaþjónustutengd starfsemi verði ekki færð úr neðra þrepi virðisaukaskatts í hið almenna fyrr en í upphafi árs 2019. Markmið skattabreytinganna er að stuðla að sjálfbærari vexti ferðaþjónustunnar, bættri skilvirkni virðisaukaskattskerfisins og að samræma rekstrarskilyrði atvinnugreina þannig að ferðaþjónustan ryðji ekki öðrum atvinnugreinum úr vegi.
Við upphaf ársins 2019 mun hið almenna þrep virðisaukaskattsins lækka úr 24% í 22,5% líkt og áður var gert ráð fyrir.
„Með þessu uppleggi erum við að koma til móts við gagnrýni sem kom við umfjöllun um fjármálaáætlun, einkum hversu flókið það er að breyta um skattþrep tvisvar á hálfu ári. Neytendur munu fagna lægri virðisaukaskatti og Ísland verður samkeppnishæfara bæði hvað varðar lífskjör og starfsskilyrði fyrirtækja,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra.
Á árinu 2018 verða skref stigin í átt að samræmdu kerfi grænna skatta. Kolefnisgjald er hækkað og gjaldtaka af bensíni og díselolíu jöfnuð. Ívilnanir vegna kaupa á rafbílum, sem hefðu fallið niður, verða framlengdar í þrjú ár.
Traustur efnahagur
Efnahagsaðstæður um þessar mundir eru almennt afar hagfelldar og hefur hagvöxtur verið meiri en væntingar stóðu til. Afnám fjármagnshafta í mars 2017 stuðlaði að eðlilegri verðmyndun íslensku krónunnar, en fram að þeim tíma mátti að miklu leyti rekja styrkingu krónunnar til vaxtar ferðaþjónustu. Í ljósi hagfelldra efnahagsaðstæðna og til að vega nokkuð á móti vexti eftirspurnar í hagkerfinu er gert ráð fyrir að afgangur af rekstri hins opinbera verði aukinn úr 1% af VLF í 1,6% af VLF á næstu tveimur árum.
Mikilvægt er að hið opinbera nýti hagfelldar aðstæður til að greiða niður skuldir, sporna við þensluvaldandi útgjaldaaukningu og tryggja að afgangur verði af rekstri hins opinbera.
Auknum kaupmætti viðhaldið
Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila hefur vaxið hratt undanfarin misseri þar sem launahækkanir síðustu ára hafa lagst á sveif með lágri verðbólgu. Mikilvægt er að viðhalda þessu. Heimilin hafa meðal annars nýtt aukinn kaupátt til að greiða niður skuldir. Atvinnuþátttaka er nálægt hámarki og langtímaatvinnuleysi nánast horfið.
Skuldir lækka hratt
Heildarskuldir ríkissjóðs hafa lækkað fyrri hluta árs 2017 um nálægt 200 milljarða króna. Áfram eru vaxtagreiðslur afar stór útgjaldaliður og munu nema 73 ma.kr. á árinu 2018 að meðtöldum reiknuðum vöxtum vegna lífeyrisskuldbindinga sem nema 14 ma.kr. Á móti koma vaxtatekjur upp á 12 ma.kr.
Gert er ráð fyrir að skuldir lækki áfram hratt á árinu 2018, eða um 36 milljarða en ráðgert að skuldir hins opinbera fari niður fyrir 30% árið 2019.