Hoppa yfir valmynd
12. september 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Fjárlagafrumvarpið: Framlög til uppbyggingar leiguíbúða tvöfölduð

Frá Reykjavík - myndHaraldur Jónasson / Hari

Framlög til uppbyggingar hagkvæmra leiguíbúða, svokallaðra leiguheimila, verða tvöfölduð á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Áformað er að verja 3,0 milljörðum króna til stofnframlaga í þessu skyni samkvæmt lögum um almennar íbúðir.

Íbúðalánasjóður hefur umsjón með úthlutun stofnframlaga ríkisins en uppbygging leiguheimila nýtur einnig framlaga frá sveitarfélögunum. Stofnframlög eru veitt til byggingar eða kaupa á leiguheimilum til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, t.d. námsmenn, ungt folk, aldraðir og fatlaðir. Stofnframlög ríkisins eru 18% af stofnvirði almennrar íbúðar en heimilt er að veita allt að 4% viðbótarframlag vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga og vegna íbúðarhúsnæðis sem ætlað er námsmönnum eða öryrkjum.

Margir búa við háan húsnæðiskostnað og þurfa að komast í öruggt húsnæði. Með tilkomu leiguheimila getur fólk sem er undir ákveðnum tekjumörkum komist í langtímaleigu á verði sem er 20-30% lægra en markaðsverð á leigumarkaðnum í dag.

Stjórvöld kynntu síðastliðið vor sáttmála um húsnæðismál sem gerður var í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og felur í sér aðgerðaáætlun í 14 liðum sem stuðla á að auknu framboði hagkvæmra íbúða, jafnt leigu- og eignaríbúða. Uppbygging leiguheimila er liður í þeirri áætlun.

Ráðinn hefur verið verkefnastjóri sem hefur umsjón með rekstri sáttmálans, í samstarfi sveitarfélaga og fjögurra ráðuneyta.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta