Hoppa yfir valmynd
13. september 2017 Dómsmálaráðuneytið

Framlög til löggæslu- og landhelgismála hækkuð vegna aukins umfangs

Almanna- og réttaröryggi er það málefnasvið dómsmálaráðuneytis sem er mest að umfangi en fjárveitingar næsta árs verða 24,5 milljarðar króna samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Undir málasviðið falla löggæslu- og landhelgismál, ákæruvald og réttarvarsla, réttaraðstoð og bætur og fullnustumál.

Heildargjöld málefnasviðsins hækka um 1.309 milljónir króna frá yfirstandandi ári að meðtöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum. Varanleg 400 milljóna króna hækkun er til löggæslu í fjárlögum yfirstandandi árs. Fjárheimild til Landhelgisgæslu hækkar um 100 milljónir króna sem fara til undirbúnings endurnýjunar þyrluflota Landhelgisgæslunnar.

Framlög til mála er varða réttindi einstaklinga, sem eru meðal annars persónuréttur, sýslumenn, útlendingamál og trúmál, hækka um 1,4 milljarða króna að meðtöldum launa- og verðlagsbreytingum og nema þau alls rúmum 14 milljörðum. Þannig er starfsemi Persónuverndar styrkt með 88 milljóna króna hækkun fjárheimildar til að stofnuninni verði unnt að mæta áherslum nýrrar evrópureglugerðar um persónuvernd sem tekur gildi um mitt næsta ár.

Fjárheimild til útlendingamála verður 3,6 milljarðar

Heildarfjárheimild til útlendingamála hækkar um 1,6 milljarða króna og verður rúmir 3,6 milljarðar. Fer mestur hluti hækkunarinnar til að mæta kostnaði vegna fjölgunar hælisleitenda. Þannig fær Útlendingastofnun 167 milljóna króna hækkun og kærunefnd útlendingamála 171 milljóna króna hækkun til að þeim verði unnt að standa undir viðunandi málshraða við meðferð hælisumsókna og kærumála.

Aukin framlög til dómstóla vegna Landsréttar

Framlög til dómstóla verða á næsta ári 2,9 milljarðar króna og hækka um 760 milljónir frá þessu ári að meðtöldum launa- og verðlagsbreytingum. Mestur hluti hækkunarinnar eða 576 milljónir eru vegna hins nýja Landsréttar sem tekur til starfa í byrjun næsta árs. Einnig verður nokkur hækkun á framlagi til héraðsdómstóla sem fá tímabundna 65 milljóna króna hækkun til að endurnýja málaskrá dómstólanna, tölvubúnað og húsbúnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta