Hoppa yfir valmynd
15. september 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Rætt um framtíðarstefnu í baráttu gegn eyðimerkurmyndun

Monique Barbut, framkvæmdastjóri Eyðimerkursamningsins, ávarpar aðildarríkjaþingið. - mynd

Fulltrúar Íslands sitja nú 13. aðildarríkjaþing samnings Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn eyðimerkurmyndun (UNCCD) sem haldið er í borginni Ordos í Innri Mongólíu í Kína. Þar er stefna í starfi samningsins til næstu 12 ára til umfjöllunar, en í henni eru sett fram fjögur meginmarkmið. Þau snúa að endurheimt landgæða og baráttu gegn eyðimerkurmyndun, að draga úr áhrifum þurrka og auka þanþol vistkerfa, að bæta lífsskilyrði samfélaga sem verða fyrir áhrifum eyðimerkurmyndunar og að virkja fjármagn betur í þágu þessara markmiða.

Eyðimerkursamningurinn, eins og hann er oft nefndur, er einn af þremur lykilsamningum Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál, sem gengið var frá á Ríó-ráðstefnunni 1992. Hinir eru Loftslagssamningur S.þ. og Samningurinn um vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Í Ordos er rætt um hvernig megi ná meiri jákvæðri samlegð milli ofangreindra þriggja samninga. Dæmi um slíkt er uppgræðsla örfoka lands á Íslandi, sem eflir um leið líffræðilega fjölbreytni og bindur kolefni úr andrúmslofti.

Í öllum heimsálfum er unnið að verkefnum sem snúa að stöðvun eyðimerkurmyndunar og endurheimt landgæða og 110 þjóðir hafa nú þegar sett sér markmið um að ná jafnvægi á milli landhnignunar og endurheimtar landgæða árið 2030. Þingið hefur m.a. til umræðu mikilvægi þess að samþætta þetta markmið við önnur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Þinginu lýkur á morgun,16. september.

Vefur Samnings Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn eyðimerkurmyndun (UNCCD) 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta