Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, undirritaði styrktarsamning við Landssamtök íslenskra stúdenta
Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra og Landssamtök íslenskra stúdenta undirrituðu í dag styrktarsamning til eins árs.
Með samningnum vill mennta- og menningarmálaráðuneyti stuðla að öflugum samstarfsvettvangi háskólastúdenta og að LÍS sé öflugur tengiliður stjórnvalda við íslenska háskólastúdenta í umræðu um skipulag háskólakerfisins og stefnumótun.
Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) eru samtök háskólanema á Íslandi sem og íslenskra háskólanema á erlendri grundu. LÍS eru regnhlífarsamtök og standa að þeim átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og fyrir íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis.
Hlutverk samtakanna er að standa vörð um hagsmuni stúdenta háskólanema hérlendis sem og hagsmuni íslenskra stúdenta háskólanema á alþjóðavettvangi og um leið skapa samstarfsvettvang fyrir íslensk stúdentafélög.