Hoppa yfir valmynd
27. september 2017 Utanríkisráðuneytið

Menntun í ferðatösku (Education in a Suitcase)

Broskallar2Styrktarfélagið Broskallar fékk á dögunum samþykki utanríkisráðuneytisins fyrir menntaverkefni í Kenía. Verkefnið nefnist Menntun í ferðatösku, eða "Education in a Suitcase" og markmið þess er að styrkja börn sem búa við sára fátækt á völdum svæðum í Kenía og aðstoða þau við að ljúka fyrst grunnskóla og síðan framhaldsskóla, þannig að þau eigi möguleika á að ná inntökuskilyrðum í háskóla.

 Verkefnið á uppruna í rannsóknaverkefni um vefstudda kennslu, en vefkerfið "tutor-web" hefur verið notað við kennslu og sem rannsóknatæki um vefstudda kennslu á Íslandi og erlendis allt frá árinu 2004. Það vefkerfi var kynnt aðilum í Kenía á árunum 2010-2012, m.a. á ráðstefnu í Naíróbí og síðan þróað áfram með samstarfsaðilum, til að taka tillit til aðstæðna í Kenía. Um 2012 hófst samstarf við nokkra aðila í Kenýa, mest við hóp sem tengist háskólanum í Maseno, en sá hópur hefur verið aðalhvatinn að African Maths Initiative. Nemendur á Íslandi og í Kenía eiga margt sameiginlegt, m.a. þurfa allir nemendur aðgang að góðu námsefni sérstaklega kemur öllum til góða æfingakerfi, t.d. fyrir menntaskólastærðfræði en einmitt þar er sterkasta hlið "tutor-web". Niðurstöður rannsókna með "tutor-web" kerfinu hafa verið kynntar á ráðstefnum um menntamál og birtar t.d. í tímaritum um sálfræði, menntun, tölvumál og tölfræði. Sérílagi hafa niðurstöður verið kynntar oft á fundum og ráðstefnum í Kenía. 

Augljóslega eru aðstæður samt um flest ólíkar á Íslandi og í Kenía, og alveg sérstaklega í fátækustu hlutum Kenía. Má nefna óstöðugt rafmagn og oft algeran skort á Internet aðgangi. Því hefur verið þróuð útgáfa af "tutor-web" kerfinu, sem má nota við slíkar aðstæður. Samstarfsaðilar í Kenía mæltu sérstaklega með því að fyrstu raunverulegu prófanir færu fram á eyjunni Takawiri í Viktoríuvatni, því þar hafa fæst hús rafmagn og hvorki er aðgangur að þráðlausu neti né Interneti og símasamband afar lélegt. Ummælin voru "ef þetta gengur á Takawiri þá gengur þetta alls staðar" (og þá líka t.d. í Tanzaníu, Gambíu, Eþíópíu og Gana). Eyjan er dæmigert lágtekjusvæði. Aðaltekjur fjölskyldna á Takawiri eru af fiskveiðum, fá atvinnutækifæri og afar fáir nemendur hafa komist áfram í langskólanám. Áherslan í Kenía þarf að vera á stærðfræði framhaldsskóla því hún stendur nemendum einna mest fyrir þrifum hvað varðar aðgang að háskólanámi. Grunnskólamenntun er orðin skylda og þannig kunna allir nemendur að lesa og skrifa, en helsti vandi menntakerfisins liggur í framhaldsskólum þar sem m.a. vantar góða kennara og nemendur falla unnvörpum á inntökuprófum í háskóla. 

Broskallar

Verkefnið fékk heitið Education in a Suitcase (EIAS) og er stundum kallað Menntun í ferðatösku. Styrktarfélagið Broskallar er almennt félag (non-profit) sem var stofnað árið 2015 til að sjá um fjársöfnun til verkefnisins. Styrkfé var safnað 2015-2016 og eingöngu notað til að kaupa spjaldtölvur til handa nemendum, tölvuþjóna fyrir fjóra skóla og til að setja upp endanlegar útgáfur af hugbúnaði. Kerfið var fyrst sett upp á Takawiri árið 2016 og síðan var verkefninu fylgt eftir 2017. Bæði árin styrktu HÍ og Félag prófessora verkefnið dyggilega og greiddu m.a. allan ferðakostnað. 

Hugmyndafræðin byggir þannig á reynslu aðstandenda félagsins af kennslu og kennsluhugbúnaði ásamt samvinnu í Kenía. Kerfið í heild hefur verið þróað í samvinnu við Maseno og er nú þannig að það er vel nothæft þótt ekkert þráðlaust net sé fyrir hendi, ekkert Internet sé á svæðinu og rafmagn sé stopult. 

Nemendur fá í hendur æfingakerfið "tutor-web", sem hópurinn hefur þróað, en það er öllum opið og aðgangur ókeypis. Að auki fylgir kerfinu öll Wikipedia, almennt námsefni frá Khan Academy og í ár verður bætt við Gutenberg bókasafninu sem inniheldur 50 þúsund bókatitla. Allt efnið og allur hugbúnaðurinn er afhent með opnu leyfi til almennrar notkunar og dreifingar. 

Ýmis verkefni tengjast EIAS verkefninu. Má t.d. nefna rafmyntina Broskalla (Smileycoin eða SMLY), sem notuð er innan "tutor-web" kerfisins til að umbuna nemendum fyrir árangur. Myntin er aðallega til gamans, en er samt rafmynt eins og Bitcoin og Auroracoin, en hönnuð með "tutor-web" í huga. 

Hingað til hefur framkvæmdin verið þannig að nemendum hafa verið gefnar spjaldtölvurnar. Með þessu er reynt að forðast þekkta tilhneigingu skólayfirvalda og kennara í sumum skólum til þess að einoka nýja tækni eða misnota aðstöðu á annan hátt. Þjónarnir eru hins vegar gefnir skólunum. Sama aðferð verður notuð áfram.

Tilraunin lofar góðu 

Þegar þetta er ritað er fyrsti árgangurinn kominn í framhaldsskóla og helsta niðurstaða tilraunarinnar var sú að hér gekk allt upp. Svo vitnað sé í kennarann: "Thank you very much for the project. My students are using the tutor web daily. I have seen a remarkable improvement in their performance in mathematics". Á árinu 2017 var farið með spjaldtölvur fyrir tvo árganga til að kanna, hver áhrifin verða af því að grunnskólanemendur hafi tölvurnar aðeins lengur. Síðan mun hitt koma í ljós á næstu árum, hvort og hvernig spjöldin nýtast þessum sömu nemendum í framhaldsskólum sínum. 

Árið 2017 var einnig reynt að setja upp öflugra loftnet til að kanna hvort unnt væri að tengja þjóninn betur við farsímakerfið og ná þannig Internet tengingu. Þetta mun einfalda verulega gagnasöfnun því áður þurfti að fara með þjóninn með ferju í næsta þorp til að komast í Internetsamband og hlaða upp gögnum eða lagfæra hugbúnaðinn. Fyrstu prófanir bentu til að þetta væri vel gerlegt og verið er að vinna úr byrjunarhnökrum til að tölvuþjónn verkefnisins verði miðstöð Internetsins í skólanum. Sú nettenging verður alltaf mjög hægvirk og því er ekki hægt að sleppa þjóninum, sem gerir allar staðbundnar tengingar nothæfar. 

Samstarfsaðilar í Kenía völdu næsta skóla fyrir verkefnið, en það er  Shivanga skólinn sem er verst staddi framhaldsskólinn í Kakamega héraði Kenía. Þar, eins og á Takawiri er samt til staðar áhugasamur kennari sem getur séð um að fylgja eftir notkun spjaldtölvanna og tengiliðir í Maseno/AMI þekkja vel til aðstæðna. Aðstæður eru um margt svipaðar og á Takawiri eyju, en hér er um framhaldsskóla að ræða, svo hér verður hægt að fylgja nemendum eftir alveg fram að umsóknum um aðgang að háskólum. Að auki er reiknað með því að bæta a.m.k. þriðja skólanum við árið 2018.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta