Heilsa og líðan Íslendinga könnuð í fjórða sinn
Embætti landlæknis stendur nú fyrir viðamikilli rannsókn á heilsu og líðan landsmanna. Þetta er í fjórða sinn sem þessi rannsókn er gerð. Leitað verður til tíu þúsund Íslendinga á næstu dögum og þeir beðnir um að svara spurningalista um heilsu og líðan sína.
Meginmarkmið rannsóknarinnar er að leggja mat á heilsu, líðan og lífsgæði Íslendinga, auk þess að mæla með reglubundnum hætti helstu áhrifaþætti heilbrigðis. Rannsóknin var fyrst framkvæmd árið 2007 og endurtekin árin 2009 og 2012.