Hoppa yfir valmynd
12. október 2017 Utanríkisráðuneytið

Fjölmenn rakarastofuráðstefna í Kaupmannahöfn

Fullt hús var á rakararáðstefnunni í Kaupmannahöfn.  - mynd

Ísland, í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina og UN Women, stóð að fjölmennri rakarastofuráðstefnu í Kaupmannahöfn í dag og opnaði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ráðstefnuna sem fór fram hjá Sameinuðu þjóðunum í Kaupmannahöfn.

Utanríkisráðherra sagði það bæði sjálfsagt og ánægjulegt að hvetja karla hvarvetna til að taka þátt í umræðu og hugarfarsbreytingu í þágu kynjajafnréttis og vekja athygli á þeim góða árangri sem náðst hefur á Íslandi, samfélaginu öllu til hagsbóta. „Norrænu ríkin eru leiðandi á heimsvísu þegar kemur að jafnréttismálum. Við þekkjum það frá fyrstu hendi að aukin virðing fyrir réttindum kvenna og aukin þátttaka þeirra á vinnumarkaði eiga stóran þátt í þeirri velferð sem á svæðinu ríkir. Við erum enn staðráðin í því að ná enn betri árangri en lokatakmarkið er ekki að leiða áfram heldur að öll ríki heims nái fram jafnrétti kynjanna,“ sagði Guðlaugur Þór.

Ísland hefur fengið það hlutverk að leiða fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar verkefni um karla og jafnrétti. Markmið verkefnisins er að standa fyrir svokölluðum rakarastofuráðstefnum á vettvangi norræns samstarfs til að virkja karla í baráttunni fyrir auknu jafnrétti kynjanna. Áður hefur Ísland staðið fyrir rakarastofuráðstefnum í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York og Genf, hjá NATO og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu enda er það markmið íslenskra stjórnvalda að halda slíkar ráðstefnur í öllum helstu alþjóðastofnunum sem Ísland á aðild að. Ráðstefnurnar sækja menn og konur í áhrifastöðum sem geta haft áhrif á viðamiklar ákvarðanir á vettvangi alþjóðamála en þar hallar mjög á konur og því þarf að breyta.

Viðburðirnir hafa lagt áherslu á mismunandi málefni á sviði jafnréttismála og fjallar ráðstefnan í Kaupmannahöfn um jafnrétti á vinnumarkaði og hvernig körlum og konum gengur að samhæfa atvinnu- og fjölskylduábyrgð. Erindi héldu ráðherrar frá nokkrum Norðurlöndum, forstjórar og framkvæmdastjórar stórra fyrirtækja og sérfræðingar í jafnréttisfræðum. Rakarastofuviðburðir eru skipulagðir sem einskonar námssmiðjur þar sem þátttakendur öðlast færni til að takast á við verkefni á sviði jafnréttismálum á eigin vinnustöðum

Íslensk stjórnvöld eru þátttakendur í verkefni UN Women um HeforShe og hafa skuldbundið sig til þess að auka hlut karla og drengja í öllu jafnréttisstarfi, jafnt á Íslandi sem á alþjóðlegum vettvangi og eru rakarastofuráðstefnurnar meðal þeirra verkefna sem íslensk stjórnvöld hafa átt frumkvæði að en viðburðirnir eru til þess fallnir að hvetja karla til virkrar þátttöku með opinni umræðu.

Alþjóðaefnhagsráðið (WEF) spáir því að kynjajafnrétti muni, miðað við núverandi þróun verða að veruleika árið 2133. Utanríkisráðherra sagði að við gætum ekki sætt okkur við svo hægfara þróun.Eitthvað þarf að breytast og karlmenn verða að láta sig málaflokkinn varða. Fótboltaleik er ekki hægt að sigra ef aðeins hálft liðið er inni á vellinum. Hvað kynjajafnrétti varðar eigum við öll að vera saman í liði, karlar og konur, drengir og stúlkur." 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta