Forsætisráðherra ávarpar Hringborð norðurslóða
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, var í dag viðstaddur opnun Hringborðs norðurslóða (Arctic Circle Assembly). Í ávarpi forsætisráðherra þakkaði hann formanni og stofnanda Hringborðs norðurslóða, Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrir framtakið og stöðugan innblástur. "Loftslagsbreytingar eru áskorun sem virða ekki landamæri, fullveldi ríkja eða alþjóðalög. Þetta er viðfangsefni sem ekkert ríki getur fengist við eitt og sér - en þarfnast alþjóðlegs átaks og samvinnu", sagði forsætisráðherra.
Hann vísaði til Parísarsamningsins frá árinu 2015, sagði hann mikilvægan áfanga og að Ísland hafi verið eitt þeirra ríkja sem stutt hafi við metnaðarfullt samkomulag. Íslensk stjórnvöld væru ákveðin í að framkvæma samninginn á metnaðarfullan máta. Forsætisráðherra sagði loftslagsbreytingar sýnilegar á Íslandi. Jöklar væru að hörfa og án aðgerða gæti ís á Íslandi horfið innan 100 ára. Loftslagsbreytingar geti breytt samfélögum á margvíslegan máta á norðurslóðum - efnahagslega, félagslega, menningarlega, umhverfislega og í öryggismálum. En breytingar eigi sér ekki eingöngu stað á norðurslóðum, heldur hafi bráðnunin áhrif út um allan heim, meðal annars á lífríki lands og sjávar svo og hækkun sjávarborðs. Í erindi sínu ræddi forsætisráðherra þær öru breytingar sem eiga sér stað á norðurslóðum og fela í sér bæði tækifæri og áskoranir og lagði áherslu á að nauðsynlegt væri að allar athafnir fælu í sér jafnvægi þar á milli, með sjálfbærni í huga. Þá áréttaði forsætisráðherra mikilvægi samvinnu ríkja og annarra hagsmunaaðila í málefnum norðurslóða, meðal annars innan Norðurskautsráðsins, sem Ísland tekur við formennsku í árið 2019. Hann sagði mikilvægt að norðurslóðir héldu áfram að vera svæði friðar, stöðugleika og samstarfs og tók fram í lokin að náttúran þyrfti alltaf fá að njóta vafans í allri ákvarðanatöku í málefnum norðurslóða. "Við berum sameiginlega ábyrgð í málefnum norðurslóða - í stefnumörkun til velgengni og sjálfbærni" sagði forsætisráðherra.
Hringborð norðurslóða er haldið í Hörpu helgina 13.-15. október og yfir 2000 þátttakendur frá um 50 löndum sækja ráðstefnuna.