X. Umhverfisþing sett á morgun
Skráningu er nú lokið á Umhverfisþing sem haldið verður í Hörpu á morgun, föstudaginn 20. október. Að þessu sinni eru loftslagsmál í brennidepli.
Þetta er í tíunda sinn sem umhverfis- og auðlindaráðherra efnir til Umhverfisþings. Að loknu ávarpi ráðherra stígur heiðursgestur þingsins, Mónica Araya frá Costa Rica, í pontu en hún hefur frá unga aldri helgað krafta sína baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Araya mun meðal annars fjalla um það hvernig lítið land getur verið í fararbroddi í loftslagsmálum en hún hefur ferðast víða um heim og verið ötull talsmaður endurnýjanlegrar orku og hreinnar samgöngutækni.
Á þinginu verða viðruð sjónarmið framhaldsskólanema um framtíðina og loftslagsmál, fjallað verður um áhrif loftslagsbreytinga á Ísland og hafið í kring, sagt verður frá stöðu Íslands gagnvart Kýótó-bókuninni, möguleikum til að draga úr losun og framtíðarsýn lýst. Þá verður rætt um orkuskipti, loftgæði og lýðheilsu, bindingu kolefnis og ábata fyrirtækja af umhverfisstarfi. Að lokum verður pallborð þar sem ýmsir aðilar ræða loftslagsmálin út frá ólíkum sjónarhornum.
Þeir sem ekki hafa tök á að sitja þingið geta fylgst með beinni útsendingu frá því hér.