Niðurstöður hönnunarsamkeppni um hjúkrunarheimili í Árborg
Úrslit samkeppni um hönnun nýs hjúkrunarheimilis í Árborg voru kynntar formlega við athöfn á Selfossi í dag. Við sama tækifæri undirrituðu heilbrigðisráðherra og framkvæmdastjóri Árborgar samkomulag um stækkun heimilisins sem nemur tíu hjúkrunarrýmum.
Alls bárust 17 tillögur frá íslenskum og erlendum arkítektastofum. Í samkeppninni var meðal annars lögð áhersla á lausnir með góðu innra skipulagi og heimilislegu yfirbragði ásamt aðstöðu til útivistar, þar sem aðgengi og öryggismál væru höfð að leiðarljósi og góð vinnuaðstaða fyrir starfsmenn væri tryggð.
• Fyrstu verðlaun hlaut Urban arkitektar ehf. og LOOP architects aps.
• Önnur verðlaun hlaut ANDERSEN & SIGURDSSON ARKITEKTER
• Þriðju verðlaun hlaut Sei ehf.
Í meðfylgjandi áliti dómnefndar eru lýsingar á tillögum þátttakenda ásamt myndum.
Hjúkrunarheimilið mun rísa skammt frá bökkum Ölvusár, austan við sjúkrahúsið á Selfossi.
Gert er ráð fyrir að hönnun verði lokið og útboðsgögn tilbúin í ágúst 2018, framkvæmdir hefjist í október 2018 og verði lokið vorið 2020.
Hjúkrunarheimilið verður fyrir 60 íbúa
Upphafleg ákvörðun um byggingu hjúkrunarheimilisins miðaðist við 50 hjúkrunarrými og var sú ákvörðun kynnt í framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma í byrjun árs 2016.
Í júní síðastliðnum samþykkti Alþingi nýja fjármálaáætlun til fimm ára og skapaðist með henni svigrúm til aukinnar uppbyggingar hjúkrunarrýma. Í framhaldi af því var í velferðarráðuneytinu gerð áætlun um byggingu 155 hjúkrunarrýma til ársins 2022, til viðbótar þeim 313 rýmum sem þegar eru á framkvæmdastigi samkvæmt eldri áætlun.
Með gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar var ákveðið að heimila stækkun hjúkrunarheimilisins sem byggt verður í Árborg úr 50 rýmum í 60. Við athöfnina á Selfossi í dag undirrituðu Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar samkomulag þessa efnis.