Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu efld með 250 m.kr. fjárframlagi
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að ráðstafa 250 milljónum króna af safnlið heilsugæslustöðva til að efla heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að auka öryggi fólks sem býr heima og draga úr þörf fyrir stofnanavistun og aðra heilbrigðisþjónustu.
Alþingi samþykkti á sínum tíma fjárveitingu sem nemur 250 milljónum króna á safnlið heilsugæslustöðva sem velferðarráðuneytið myndi ráðstafa til að efla heimahjúkrun. Í ljósi þess að fjárveitingar hafa þegar verið hækkaðar nokkuð til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni í þessu skyni og þar sem fyrir liggur brýn þörf á höfuðborgarsvæðinu fyrir aukna þjónustu að þessu leyti, ekki síst við aldraða, hefur heilbrigðisráðherra tekið framangreinda ákvörðun um ráðstöfun fjárins.
Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu er fyrst og fremst veitt af hálfu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem ríkið rekur og Heimaþjónustu Reykjavíkur sem rekin er af Reykjavíkurborg. Í kjölfar greiningar á umfangi þjónustunnar hjá þessum aðilum liggur fyrir að hækka þarf framlög til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um 100 milljónir króna þannig að báðir aðilar sitji við sama borð og felur ákvörðun ráðherra í sér að það verður gert.
Til að efla heimahjúkrunarþáttinn við íbúa höfuðborgarsvæðisins verða að auki veittar 60 milljónir króna til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og 90 milljónir króna til Heimaþjónustu Reykjavíkur til að efla og auka þjónustu þessara aðila við fólk í heimahúsum. Miðað er við að fjölga heilbrigðisstéttum sem koma að þjónustunni og verður auknum fjármunum varið til að ráða sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa og aðrar heilbrigðisstéttir til að efla getu fólks og færni.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra segir ánægjulegt að geta kynnt þessa niðurstöðu eftir vandaða vinnu og undirbúning af hálfu ráðuneytins. Þetta geti skipt miklu máli til að draga úr álagi á Landspítala og til að draga úr þörf aldraðra fyrir hjúkrunarrými sem skortur sé á, á höfuðborgarsvæðinu: „Fólk vill líka búa heima ef það mögulega getur og góð þjónusta við fólk í heimahúsum sem dregur úr þörf þess fyrir sjúkrahúsþjónustu eða varanlega dvöl á hjúkrunarheimili er ómetanleg fyrir þá sem eiga í hlut. Ráðstöfun fjármuna sem stuðlar að þessu er bæði réttmæt og skynsamleg“.