Úthlutað úr Framkvæmdasjóði aldraðra
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur úthlutað um 170 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra til verkefna sem ætlað er að bætta aðbúnað aldraðra og auka öryggi og gæði öldrunarþjónustu.
Ráðherra staðfesti með ákvörðun sinni tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra um úthlutun úr sjóðnum árið 2017.
Hæsta fjárhæðin, tæpar 30 milljónir króna, rennur til breytinga og endurbóta á framleiðslueldhúsi Hrafnistu Reykjavík.
Næsthæsta framlagið úr Framkvæmdasjóði aldraðra að þessu sinni, rúmar 25 milljónir króna, rennur til endurbóta í húsnæði Múlabæjar; dagþjálfunar fyrir aldraða.
Sveitarfélagið Árborg fékk þriðja hæsta framlagið tæpar 24 milljónir króna vegna byggingar húss fyrir dagdvöl í sveitarfélaginu.
Alls bárust 34 umsóknir um framlög til fjölbreyttra verkefna. 14 umsóknir fengu úthlutun en 20 umsóknum var hafnað, ýmist vegna þess að þær uppfylltu ekki skilyrði reglugerðar um Framkvæmdasjóð aldraðra fyrir úthlutun eða vegna þess að frekari undirbúningur er nauðsynlegur áður en mögulegt er að taka afstöðu til umsóknanna og veita fjármunum til framkvæmda.