Iceland Airwaves og Sameinuðu þjóðirnar taka höndum saman
Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves og Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið höndum saman til stuðnings átaki í þágu farand- og flóttafólks og gegn útlendingahatri og mismunun. Átakið nefnist Saman eða Together og var ýtt úr vör af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Íslandi, á sérstökum leiðtogafundi samtakanna í september 2016.
"Það er okkur hjá Iceland Airwaves mikil ánægja að gerast aðilar að þessu átaki. Okkur er málið skylt enda eru margir þeirra listamanna sem koma fram á hátíðinni úr hópi þessa fólks," segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves.
Tilgangur Saman er að efla virðingu, öryggi og reisn flóttamanna og farandfólks. Undanfarin tvö ár hafa aðildarríki, einkageirinn, borgaralegt samfélag og einstaklingar fylkt liði undir merki átaksins í því skyni að breyta neikvæðri umræðu um fólksflutninga og efla félagslega samheldni á milli gistiríkja og flóttamanna og farandfólks.
Iceland Airwaves hátíðin hefst í dag, 1. nóvember og stendur til 5. nóvember. Ein helsta stjarna hátíðarinnar Lido Pimienta er fædd í Kólombíu og á rætur að rekja bæði til afrískra Kólombíumanna og Indíana, en hún býr í Kanada. Breski söngvarinn Micahel Kiwanyuka er Úgandamaður að uppruna en foreldrar hans flúðu ógnarstjórn einræðisherrans Idi Amin til Bretlands. Landi hans, söngkonan Nilüfer Yanya er svo af tyrknesku bergi brotin og bandaríska listakonan Káryyn er af sýrlensk-armenskum uppruna.
"Við Íslendingar þekkjum vel jákvætt framlag flótta- og farandfólks á íslenskt samfélag og ekki síst íslenska tónlist og menningu," segir Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi Sameinuðu þjóðanna. "Það nægir að nefna allt það hæfileikafólk sem flúði til Íslands fyrir síðari heimsstyrjöldina, að ekki sé minnst á Vladimir Azhkenazy." "Fólk á faraldsfæti hefur líka sest hér að og auðgað menningu okkar. Það væri að æra óstöðugan að nefna alla. Þeir bræður Tolli og Bubbi Morthens eru þannig danskir í móðurættina, og nær okkur í tíma eru hinir hálf-angólsku Stefánssynir í Retro Stefson, auk þess sem John Grant heiðrar okkur með búsetu sinni. Og í myndlistinni skulum við ekki gleyma Svisslendingnum Dieter Roth, Barböru Árnason hinni bresku og Katalónanum Baltasar Samper sem hefur átt hér glæstan listaferil sem og ættbogi hans allur í myndlist, kvikmyndagerð og leikhúsi."