Ríkur samhljómur á samráðsfundi Íslands og Bretlands
Embættismenn frá utanríkisráðuneytinu áttu í gær árlegan tvíhliða samráðsfund með háttsettum embættismönnum úr breska utanríkisráðuneytinu, ráðuneyti útgöngumála, utanríkisviðskiptaráðuneytinu, varnarmálaráðuneytinu og fleiri ráðuneytum í Lundúnum. Tilgangur þessara funda er að efla enn frekar víðtækt samstarf ríkjanna.
Rætt var um viðskipta- og efnahagssamstarf, samstarf í alþjóða- og öryggismálum, sjávarútvegsmál, auðlinda- og umhverfismál, málefni Norðurslóða. Lýstu íslensku fulltrúarnir ánægju með þá afstöðu Bretlands að tryggja áframhaldandi farsælt samstarf við viðskiptalönd sín eftir að Bretland hverfur úr Evrópusambandinu.
„Þessi embættismannafundur er haldinn á afar mikilvægum tímapunkti og er tónninn sem sleginn var á fundinum til marks um hin traustu tengsl Íslands og Bretlands,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Mikill vilji er til þess að efla samstarf ríkjanna á fjölmörgum sviðum. Á næstunni verða útfærðar nánari hugmyndir um samstarfið.
Unnur Orradóttir Ramette, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins fór fyrir sendinefnd Íslands.