Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2017 Utanríkisráðuneytið

Málefni Brexit rædd á ráðherrafundi EFTA

Ráðherrar og framkvæmdastjóri EFTA. - mynd

Mikilvægi þess að tryggja hagsmuni EFTA-ríkjanna við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu (ESB) var þungamiðja umræðna á ráðherrafundi EFTA sem haldinn var í Genf í dag auk þess sem staða mála í fríverslunarviðræðum voru rædd. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði áherslu á það á fundi EFTA-ráðherranna að EFTA-ríkin fjögur verði að vera reiðubúin að laga sig skjótt að þeim áskorunum og tækifærum sem felast í Brexit. „Brexit er og verður eitt stærsta hagsmunamál Íslands á sviði utanríkismála á næstu misserum og árum og á fundinum báru EFTA-ríkin saman bækur sínar hvað varðar undirbúning útgöngu Breta úr ESB og EES sem og framtíðarfyrirkomulag fríverslunar milli Íslands og hinna EFTA-ríkjanna við Bretland,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Segir hann afar mikilvægt að EFTA-ríkin samræmi viðbrögð sín og hann fagnar þeim skrefum sem þegar hafa verið tekin í þá veru.

Á fundinum var farið yfir stöðu fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna við Indland, Indónesíu, Mercosur-ríkjannna (viðskiptabandalag Argentínu, Brasilíu, Paragvæ, Úrúgvæ), Malasíu og Víetnam. Lýstu ráðherrarnir ánægju með framgang viðræðna EFTA við Ekvador en vonast er til að þeim ljúki fyrir árslok.

Ráðherrarnir lýstu ennfremur vilja sínum til að uppfæra og endurskoða gildandi fríverslunarsamninga við Chile og Tollabandalag Suður Afríkuríkja (SACU) og halda áfram slíkum viðræðum við Mexíkó. Fríverslunarnet EFTA samanstendur af 27 samningum við 38 ríki og svæði og er ríkur metnaður til að efla enn þetta víðfeðma net. Mikilvægur liður í því er að leita leiða til að hefja viðræður um endurskoðun fríverslunarsamninga EFTA og Kanada. Í tengslum við ráðherrafundinn í Genf tók utanríkisráðherra einnig þátt í fundi EFTA ráðherranna með þingmannanefnd EFTA þar sem fjallað var um stöðu fríverslunarviðræðna og farið var yfir þróun mála í samskiptum Bretlands og ESB, auk frekari áherslu á jafnréttismál við gerð fríverslunarsamninga. Þá undirrituðu EFTA-ráðherrarnir enn fremur samstarfsyfirlýsingu við Moldóvu.

Fundinn sátu auk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þau Johann Schneider-Ammann, efnahagsráðherra Sviss, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, og Monica Mæland viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta