Ísland heiðursgestur á jólamarkaðnum í Strassborg
Sendiráð Íslands í Frakklandi og Íslandsstofa standa fyrir landkynningarverkefni í tengslum við þátttöku Íslands á jólamarkaðnum með það að markmiði að kynna íslenskar vörur, mat og menningu. Slegið hefur verið upp íslensku jólaþorpi þar sem íslensk fyrirtæki kynna vörur sínar fyrir gestum og gangandi. Íslensku fyrirtækin sem taka þátt í verkefninu eru Bæjarins Bestu, Hekla Ísland, Handprjónasambandið, Heilsukokkur, Ice-Co, Ice Wear, Iceland Treasures, Lýsi, Reykjavík Distillery, Skinboss og Urð.
Íslensku jólasveinarnir hafa vakið mikla kátínu á markaðnum, sérstaklega hjá yngstu kynslóðinni, og sögur af hrekkjabrögðum þeirra vekja athygli. Til að borgarstjórinn færi ekki í jólaköttinn færði sendiherrann honum vettlinga að gjöf.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið stendur fyrir fjölmörgum menningarviðburðum þann rúma mánuð sem markaðurinn stendur yfir. Íslenska dagskráin hófst með húsfylli á jólatónleikum í dómkirkjunni í Strassborg þar sem Sigríður Ósk Kristjánsdóttir messó-sópran og söngvaskáldið Svavar Knútur sungu sig inní hug og hjörtu borgarbúa.