Ísland getur gert betur í jafnréttismálum
Forsætisráðherra lagði áherslu á að í jafnréttisbaráttunni hafi Ísland viðurkennt að sértækar aðgerðir væru nauðsynlegar til þess að ná raunverulegum árangri. Ísland hafi þannig ekki náð árangri í jafnréttismálum á einni nóttu og nefndi hann mikilvægi kjörs Vigdísar Finnbogadóttur árið 1980 í embætti forseta Íslands, sem var þar með fyrst kvenna í heiminum til að vera lýðræðislega kjörin þjóðhöfðingi, svo og stofnun Kvennalistans árið 1983. Forsætisráðherra fjallaði um mikilvægi jákvæðra fyrirmynda á öllum sviðum samfélagsins og greindi frá ýmsum sértækum aðgerðum og leiðum sem Ísland hafi farið s.s. að því er varðar dagvistun barna, fæðingarorlofsreglur, sérstakt feðraorlof, kynjakvóta í stjórnum og nefndum, kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð, aðgerðir til að útrýma kynbundnu ofbeldi og hvatningu til karla og drengja til að taka þátt í jafnréttisbaráttunni. Þá sagði forsætisráðherra frá nýlegu átaki sem miðaði að því að útrýma kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði með aðstoð jafnlaunavottunar, sbr. nýlega breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Þá ítrekaði forsætisráðherra að þrátt fyrir góðan árangur Íslands á jafnréttissviðinu þá væri þar enn verk að vinna.
Heimsþing alþjóðasamtakanna Women Political Leaders Global Forum er haldið í Reykjavik 28. - 30. nóvember og var formlega sett í Hörpu í morgun. Þingið sækja um 400 stjórnmálakonur frá um 100 löndum og ber það yfirskriftina "We Can Do It".