Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ísland getur gert betur í jafnréttismálum

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, ávarpar á heimsþingi alþjóðasamtakanna Women Political Leaders Global Forum - mynd
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, ávarpaði í morgun heimsþing alþjóðasamtakanna WPL, Women Political Leaders Global Forum. Forsætisráðherra sagði m.a. í ávarpi sínu að ríki, samfélög og efnahagskerfi gætu ekki blómstrað án jafnrar þátttöku kvenna og karla. Þrátt fyrir það hafi afrakstur vinnu við að ná fullu jafnrétti á efnahagslega, félagslega og pólitíska sviðinu látið á sér standa og jafnvel hafi orðið bakslag á þessu sviði. Þar vísaði forsætisráðherra til nýjustu skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum, WEF) fyrir árið 2017 um stöðu jafnréttismála á meðal 144 ríkja, þar sem Ísland skipar fyrsta sæti í níunda sinn. "Þetta er í fyrsta skipti frá árinu 2006, er WEF hóf slíkar mælingar, að dregur í sundur með kynjunum á heimsvísu", sagði ráðherra í ávarpi sínu. Forsætisráðherra lýsti vonbrigðum yfir þessari stöðu og sagði hana vera sterka áminningu um nauðsyn þess að vera ávallt vel á verði, gera þurfi mun betur og mikilvægt sé að skýrslan WEF verði til þess að stjórnvöld og viðskiptalíf forgangsraði í þágu jafnréttis.

Forsætisráðherra lagði áherslu á að í jafnréttisbaráttunni hafi Ísland viðurkennt að sértækar aðgerðir væru nauðsynlegar til þess að ná raunverulegum árangri. Ísland hafi þannig ekki náð árangri í jafnréttismálum á einni nóttu og nefndi hann mikilvægi kjörs Vigdísar Finnbogadóttur árið 1980 í embætti forseta Íslands, sem var þar með fyrst kvenna í heiminum til að vera lýðræðislega kjörin þjóðhöfðingi, svo og stofnun Kvennalistans árið 1983. Forsætisráðherra fjallaði um mikilvægi jákvæðra fyrirmynda á öllum sviðum samfélagsins og greindi frá ýmsum sértækum aðgerðum og leiðum sem Ísland hafi farið s.s. að því er varðar dagvistun barna, fæðingarorlofsreglur, sérstakt feðraorlof, kynjakvóta í stjórnum og nefndum, kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð, aðgerðir til að útrýma kynbundnu ofbeldi og hvatningu til karla og drengja til að taka þátt í jafnréttisbaráttunni. Þá sagði forsætisráðherra frá nýlegu átaki sem miðaði að því að útrýma kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði með aðstoð jafnlaunavottunar, sbr. nýlega breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Þá ítrekaði forsætisráðherra að þrátt fyrir góðan árangur Íslands á jafnréttissviðinu þá væri þar enn verk að vinna.

Heimsþing alþjóðasamtakanna Women Political Leaders Global Forum er haldið í Reykjavik 28. - 30. nóvember og var formlega sett í Hörpu í morgun. Þingið sækja um 400 stjórnmálakonur frá um 100 löndum og ber það yfirskriftina "We Can Do It".

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta