Nýr samningur um stjórnun fiskveiða og vísindasamstarf í Norður-Íshafi
Samkomulag hefur náðst á milli Bandaríkjanna, Danmerkur f.h. Færeyja og Grænlands, Íslands, Japan, Kanada, Kína, Noregs, Rússlands, Suður-Kóreu og Evrópusambandsins um drög að samningi sem kemur í veg fyrir stjórnlausar fiskveiðar í Norður-Íshafi ef ísinn þar hopar enn frekar og möguleikar til fiskveiða skapast. Samkomulagið varðar stjórnun fiskveiða, samstarf um vísindarannsóknir og vöktun fiskistofna og lífríkis í Norður-Íshafi og náðist á fundi sem haldinn var í Washington, dagana 28. – 30. nóvember.
„Þetta er afar mikilvægt samkomulag þar sem tekist hefur að fá þjóðirnar sem að honum standa til að sýna ábyrgð og framsýni varðandi þær miklu breytingar sem fyrirsjáanlegar eru í norðurskautinu vegna loftslagsbreytinga. Samkomulagið tónar vel við nýjan stjórnarsáttmála þar sem áhersla er lögð á umhverfisvernd og sjálfbærni á norðurslóðum," segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
„Það er ánægjulegt að samkomulag hefur náðst um þetta viðkvæma hafsvæði með þeim tíu ríkjum sem eiga hvað mestra hagsmuna að gæta af samstarfi í vísindarannsóknum og sjálfbærri nýtingu auðlinda á Norðurslóðum." segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Samningurinn nær til úthafsins og felur í sér að aðilar hans munu skuldbinda sig til að heimila ekki veiðar á samningssvæðinu fyrr en vísindarannsóknir hafa lagt grunn að sjálfbærum fiskveiðum. Einnig eru ákvæði um vísindasamstarf og ákvarðanatöku um að koma á fót fiskveiðistjórnunarstofnun þegar slíkt er tímabært. Ekki er fyrirsjáanlegt að mögulegt verði að stunda fiskveiðar á samningssvæðinu á allra næstu árum. Á grundvelli varúðarnálgunar ákváðu aðilarnir hins vegar að stofna til samnings nú til að fyrirbyggja stjórnlausar veiðar á þessu viðkæma hafsvæði á komandi árum þar sem hraðar breytingar eiga sér nú stað vegna hlýnunar og bráðnunar íss. Að þessu leyti er um að ræða tímamótasamning. Með aðild Íslands að þessum samningi mun aðkoma Íslands að ákvarðanatöku og rannsóknasamstarfi á þessu mikilvæga hafsvæði verða tryggð.
Sendinefnd Íslands skipuðu Jóhann Sigurjónsson, formaður, frá utanríkisráðuneytinu, Stefán Ásmundsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Matthías G. Pálsson frá utanríkisráðuneytinu og Aðalheiður Inga Þorsteinsdóttir úr sendiráði Íslands í Washington.
Hjálögð er yfirlýsing formanns fundarins, David Balton, sendiherra, á ensku.