Hoppa yfir valmynd
1. desember 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir nýr heilbrigðisráðherra

Svandís Svavarsdóttir kom til starfa í velferðarráðuneytinu í dag sem ráðherra heilbrigðismála í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Svandís tekur við embættinu af Óttari Proppé.

 

Svandís tók við lyklunum úr hendi Önnu Lilju Gunnarsdóttur ráðuneytisstjóra sem afhenti þá fyrir hönd forvera hennar sem er staddur erlendis. Svandís segist hlakka til að takast á við verkefnin sem framundan eru þar sem meðal forgangsverkefna er að fullvinna stefnu í heilbrigðismálum fyrir landið allt og skilgreina  betur hlutverk einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar og samspil þeirra: „Af einstökum áherslumálum nefni ég sérstaklega eflingu heilsugæslunnar, dregið verður úr greiðsluþátttöku sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu og ráðist í stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma um leið og önnur þjónusta sem er mikilvæg fyrir aldraða verður efld. Bætt geðheilbrigðisþjónusta og leiðir til að efla lýðheilsu verða einnig ofarlega á dagskrá, líkt og fram kemur í ríkisstjórnarsáttmálanum“ sagði Svandís Svavarsdóttir meðal annars þegar hún  heilsaði upp á starfsfólk velferðarráðuneytisins um hádegisbil í dag.

Svandís Svavarsdóttir hefur setið á Alþingi fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð frá árinu 2009. Hún hefur áður gegnt ráðherraembætti sem umhverfisráðherra 2009 – 2012 og umhverfis- og auðlindaráðherra 2012 – 2013. Á Alþingi hefur Svandís átt sæti í allsherjar- og menntamálanefnd, þingskapanefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og verið formaður þingflokks Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs 2013–2017.

Svandís er fædd 24. ágúst 1964. Eiginmaður hennar er Torfi Hjartarson lektor og eiga þau fjögur börn og fjögur barnabörn.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta