Hoppa yfir valmynd
4. desember 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Snúum vörn í sókn

Svandís Svavarsdóttir - mynd

Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.
Birtist í Morgunblaðinu 4.12.2017

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar fjallar fyrsti kaflinn um heilbrigðismál. Þar þarf að taka til hendinni enda hefur heilbrigðisþjónustan ekki notið raunverulegrar uppbyggingar allt frá hruni. Nú er kominn tími til að leggja megináherslu á þennan mikilvæga málaflokk en í sáttmálanum segir að íslenska heilbrigðiskerfið eigi að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum og að allir landsmenn eigi að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu.

Þessum orðum þurfa að fylgja efndir; raunverulegur vilji, fjármagn og góður hugur. Í því skyni verður lokið við að fullvinna heilbrigðisstefnu fyrir Ísland með hliðsjón af þörfum allra landsmanna þar sem einstakir þættir þjónustunnar verða skilgreindir betur og samspil þeirra. Á undanförnum árum hafa framlög til opinberrar heilbrigðisþjónustu aukist umtalsvert minna en til annarrar heilbrigðisþjónustu. Því liggur fyrir að sækja þarf
fram í þágu opinberrar þjónustu bæði til að nýta opinbert fé eins vel og kostur er en ekki síður til þess að leggja megináherslu á jöfnuð og gæði í þróun þjónustunnar.

Ég mun láta gera úttekt á þróun einkavæðingar í heilbrigðisþjónustunni á síðustu árum ásamt þeim ákvörðunum sem þar liggja að baki og þar verður litið sérstaklega til áhrifa á aðra þjónustu. Heilsugæslan verður
efld sem fyrsti viðkomustaður notenda með því að styðja við reksturinn og efla þverfaglega vinnu. Geðheilbrigðismál, forvarnir og lýðheilsa verða líka í forgrunni. Framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna Landspítala munu svo hefjast næsta sumar. Stefnt er að því að bygging spítalans taki fimm til sex ár og að hann komist í notkun á árinu 2023. Samhliða þarf að sinna viðhaldi og endurbótum á þeim byggingum sem fyrir eru og koma áfram að góðum notum.

Við ætlum að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og gera kerfið gegnsærra og skilvirkara. Mikilvægt er að skoða þróun greiðsluþátttökunnar, hverjir eru að borga fyrir hvaða þjónustu, hvaða þjónusta
er gjaldfrjáls og hverjir þurfa að borga mest. Þannig er hægt að byggja nýjar ákvarðanir á traustum grunni í þágu veikasta fólksins.

Skortur á hjúkrunarrýmum veldur miklu álagi á sjúkrahúsin og skerðir lífsgæði aldraldraðra. Tímabært er að ráðast í stórsókn í uppbyggingu þeirra og það átak mun birtast í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar á næsta ári. Einnig styrkjum við rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila og leggjum áherslu á aðra þjónustuþætti, eins og heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu. Þannig búum við betur að okkar elsta fólki og léttum álagi af sjúkrahúsunum sem fyrir eru.

Hér eru nefnd aðeins nokkur dæmi um heilbrigðismál sem verða í forgangi í heilbrigðisráðuneytinu á þessu kjörtímabili. Það er sannarlega af nógu að taka.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta