Hoppa yfir valmynd
7. desember 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur á desemberfundi Samorku 7. desember 2017

Ágætu fundargestir,

Það er mér ánægja að vera með ykkur hér í dag, á desemberfundi Samorku. Það er gott að fá tækifæri til að fara stuttlega yfir það með ykkur, helstu stjórnendum og lykilstarfsfólki orku- og veitufyrirtækjanna, hvað er efst á baugi í orkumálum frá mínum bæjardyrum séð og af hálfu stjórnmálanna, ekki síst með hliðsjón af nýrri ríkisstjórn og nýjum stjórnarsáttmála.

Einhverjir kunna að greina nýjan tón í umfjöllum stjórnarsáttmálans um orkumál, en þar er þó einnig að finna ýmis verkefni sem vinna var þegar hafin við, fyrr á árinu.

Skoðum nokkur dæmi.

Í kaflanum um byggðamál segir:

„Flutnings- og dreifikerfi raforku verður að mæta betur þörfum atvinnulífs og almennings alls staðar á landinu. Uppbygging kerfisins getur stutt við áætlanir um orkuskipti sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. með því að hraða þrífösun rafmagns, með varmadæluvæðingu á köldum svæðum, innviðum fyrir rafbíla og rafvæðingu hafna.“

Þetta er lykilverkefni og það er þegar hafið, innan starfshóps undir forystu Haraldar Benediktssonar alþingismanns. Sá starfshópur er að skoða leiðir um úrbætur á raforkuflutningskerfi í dreifbýli með sérstakri áherslu á þrífösun rafmagns. Skýrslu starfshópsins er að vænta um mitt næsta ár og er stærsta áskorunin þar, að finna markvissar og raunhæfar leiðir til að hraða áformum um þrífösun. Ekki er boðlegt að slík áform nái til ársins 2036, eins og staðan er í dag.

Áfram er til skoðunar hvernig hægt sé að efla hvata til aukinnar varmadæluvæðingar á köldum svæðum, meðal annars í gegnum þau styrkjakerfi sem í boði eru, hvort sem er á stórum skala eða minni.

Þá mun atvinnuvegaráðuneytið á næstunni, í samráði við stofnanir og hagsmunaaðila, setja á fót starfshóp um smávirkjanir sem ætlað er að kortlegga möguleika á sviði staðbundinna lausna í orkumálum sem miða að bættu afhendingaröryggi á landsvísu. Þar eru mörg sóknarfæri.

 

Í stjórnarsáttmálanum er líka fjallað um orkumál í kaflanum um umhverfis- og loftslagsmál. Það er meðal annars lögð áhersla á að málsmeðferð ákvarðana sem tengjast línulögnum þurfi að vera skilvirkari en hún er í dag. Þessu megi meðal annars ná fram með því að styrkja úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

 

Einnig segir þarna:

„Forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar verður að nýta með sem hagkvæmustum hætti þá orku sem þegar hefur verið virkjuð. Í þeim tilgangi þarf að treysta betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt. Skoðað verði að hve miklu leyti má nýta jarðstrengi í þessar tengingar með hagkvæmum hætti. Ekki verður ráðist í línulagnir yfir hálendið.“

Sumir spyrja sig væntanlega hvort fyrsta setningin þýði að ekki verði virkjað meira. Í því sambandi er rétt að minna á þá staðreynd, að ríkisstjórn og ráðherrar taka ekki ákvarðanir um einstakar virkjanir nema í besta falli með óbeinum hætti; þannig er ekki ferli þessara mála.

 

Það er mikilvægt að í sáttmálanum er undirstrikuð þörfin fyrir því að efla flutningskerfi raforku og tengja betur saman landsvæði. Útgangspunkturinn er að tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt. Hvernig við náum því er síðan úrlausnarefnið sem við stöndum frammi fyrir. Í stuttu máli má segja að verkefnið framundan sé að ná jafnvægi annars vegar milli þeirra samfélagslegu og efnahagslegu þátta sem felast í öflugu flutningskerfi á landsvísu og hins vegar þeirra umhverfisáhrifa sem framkvæmdir hafa óhjákvæmilega í för með sér, hvort sem um loftlínu eða jarðstrengi er að ræða.

Við sjáum að jarðstrengslausnum er beitt í æ ríkara mæli og hægt og sígandi eru slíkar lausnir að verða raunhæfur valkostur í flutningskerfinu, bæði hvað varðar tæknilega þætti og kostnað.

Eins og fram kemur í sáttmálanum er mikilvægt að skoðað verði frekar að hve miklu leyti megi nýta jarðstrengi með hagkvæmum hætti og ég tel skynsamlegt að láta greina það betur, til að meta hvort raunhæft sé að breyta þeim viðmiðum sem við höfum stuðst við til þessa.

Ráðgert er því að á næstunni verði kallað eftir slíkri vinnu.  Slík óháð rannsóknarvinna myndi snúa að samanburði á jarðstrengjum og loftlínu og greiningu á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að aukið hlutfall flutningskerfisins verði lagt í jörðu, með tilliti til áhrifa á raforkuverð, afhendingaröryggi, hagkvæmni, byggðaþróun, tæknilegar lausnir og umhverfiskostnað.

Til stendur að þetta verði endurspeglað og nánar útfært í tillögu til þingsályktunar sem lögð verður fram á Alþingi á vorþingi.

 

Kæru fundargestir,

Í stjórnarsáttmálanum er skýrt kveðið á um á kjörtímabilinu verði unnin langtímaorkustefna. Nánar tiltekið segir:

„Langtímaorkustefna verður sett á kjörtímabilinu í samráði við alla þingflokka. Í orkustefnu verði byggt á áætlaðri orkuþörf til langs tíma miðað við stefnu stjórnvalda, til að mynda um orkuskipti, og hvernig megi tryggja raforkuframboð fyrir almenning og atvinnulíf. Eigendastefna Landsvirkjunar mun taka mið af orkustefnunni.“

Ég hef í ræðum fyrr á þessu ári komið inn á mikilvægi þess að við setjum okkur orkustefnu til lengri tíma. Ég lít svo á að það sé jafn mikilvægt að hafa til staðar langtíma stefnu á sviði orkumála, og að við höfum langtíma stefnur á sviði annar mikilvægra málaflokka, eins og samgöngumála, ferðamála, sjávarútvegs, heilbrigðismála og menntamála, svo að dæmi séu tekin.

Með orkustefnu gefst okkur tækifæri, í sameiningu, til að setja fram ákveðna langtímasýn í orkumálum, hvert við viljum stefna og hvaða áherslur við ætlum að hafa að leiðarljósi. Einnig gefst með því tækifæri til að marka okkur sérstöðu í alþjóðlegum samanburði og gæti slík orkustefna þannig án efa stutt við jákvæða ímynd Íslands og markaðssetningu.

Ég tel að í grunninn ríki almenn samstaða um þau meginsjónarmið og þá efnisþætti sem koma myndu fram í orkustefnu Íslands. Almennar áherslur okkar í orkumálum, í dag og á undanförnum árum, hafa snúið að auknu hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa, áframhaldi orkuskipta, sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda, orkuöryggi heimila og fyrirtækja, nýsköpun í orkumálum, auknu afhendingaröryggi raforku á landsbyggðinni, virkri samkeppni á raforkumarkaði, auknum orkurannsóknum og útflutningi hugvits og þekkingar á sviði orkumála. Fleira má telja til en allt eru þetta mikilvægir grundvallarþættir sem varða veginn.

Auðvitað drögum við ekki fjöður yfir að ólík sjónarmið eru uppi um sjálft umfang orkuvinnslunnar. Þar takast á hagsmunir verndar og jafnvel friðlýsingar annars vegar, og orkuvinnslu hins vegar. Það liggur í augum uppi að í orkustefnu verði komið inn á þetta atriði og fjallað um það með hvaða hætti við tökum þessar ákvarðanir, eða hið minnsta hver séu okkar helstu markmið og leiðarljós. En afurðin verður að leiða til þess að við náum sem bestu jafnvægi milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta, til lengri tíma. Það ætti að vera kjarninn í okkar orkustefnu og forsenda sáttar um mikilvægi hennar í þjóðhagslegu samhengi.

 

Mikilvægur þáttur í orkustefnu er orkuöryggi fyrir heimili og fyrirtæki. Þau mál hafa talsvert verið í umræðunni og fyrr á árinu tók til starfa starfshópur á vegum ráðuneytisins, sem er meðal annars skipaður fjórum fulltrúum frá Samorku, sem er með til skoðunar hvernig megi tryggja raforkuframboð á heildsölumarkaði fyrir almenning og atvinnulíf. Sú vinna kemur því beint inn í vinnuna um mótun orkustefnu til lengri tíma.

Allt helst þetta því í hendur og er það von mín að fyrir lok kjörtímabilsins, vel að merkja að fjórum árum liðnum, verðum við komin með sterka og skýra framtíðarsýn á sviði orkumála sem nær vel utan um flesta eða helst alla þessa þætti.

 

Orkufyrirtækin og fleiri horfa væntanlega töluvert til þess hver verði næstu skref í vinnunni við rammaáætlun. Það var ekki talin ástæða til að fjalla sérstaklega um það í stjórnarsáttmála enda má segja að ferlið um hana liggi ágætlega skýrt fyrir í lögum.

Eins og þið vitið lagði verkefnisstjórn þriðja áfanga til ákveðna flokkun orkukosta án þess að taka tillit til faghópa 3 og 4, sem áttu að meta annars vegar samfélagsleg áhrif og hins vegar efnahagsleg áhrif. Enda treysti hvorugur hópurinn sér til að ljúka þeirri vinnu að raða orkukostunum með tilliti til þessara þátta, það er að segja samfélagslegra og efnahagslegra. Ástæðan virðist meðal annars hafa verið sú að skilgreiningin á verkefnum faghópanna tók töluverðum breytingum í þriðja áfanga miðað við annan áfanga. Til að mynda var hlutverk faghóps fjögur í öðrum áfanga „… að áætla stofnkostnað virkjana og leggja mat á hagkvæmni þeirra“. En hlutverk sama faghóps í þriðja áfanga var að skoða virkjanakostina með það fyrir augum að meta áhrif þeirra á þjóðarhag. Það er auðvitað mun stærra og flóknara verkefni, sem virðist hafa ráðið mestu um að hópurinn treysti sér í raun ekki til að skila niðurstöðu á tilskildum tíma. Við stöndum því frammi fyrir því að verkefninu sem lögin kveða á um er strangt til tekið ekki lokið, og það er staða sem stjórnmálin þurfa einhvern veginn að spila úr á næstunni.

 

Kæru fundargestir,

Verkefnin framundan eru ærin en þau eru líka mikilvæg og spennandi og við þurfum að takast á við þau í sameiningu og á breiðum grunni. Tími skotgrafanna er liðinn. Það getur enginn leyft sér að neita að gefa eftir. Breið sátt til lengri tíma næst eingöngu með skynsamlegum málamiðlunum milli ólíkra hagsmuna og ólíkra skoðana, sem og gagnkvæmri virðingu fyrir mismunandi afstöðu til hlutanna.

Um leið og ég þakka Samorku fyrir farsælt og gott samstarf í gegnum tíðina þá óska ég þess að þið njótið aðventunnar og eigið friðsæl jól og áramót.

Takk fyrir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta