Vinnustofa um geðheilsu og vellíðan
Embætti landlæknis stóð nýlega fyrir vinnustofu í samvinnu við velferðarráðuneytið þar sem fjallað var um ýmsar hliðar geðheilbrigðismála s.s. forvarnir, nærþjónustu, stefnumótun og löggjöf á þessu sviði. Vinnustofan er liður í evrópsku samstarfsverkefnis um geðheilsu og vellíðan sem Embætti landlæknis hefur tekið þátt í á síðustu árum.
Þátttakendur voru tæplega fimmtíu fulltrúar ráðuneyta, skólasamfélagsins, barnaverndaryfirvalda, heilbrigðisþjónustu á öllum þjónustustigum, fagfélaga og notenda. Markmiðið var að leiða saman aðila sem koma að þessum málum og vinna markvisst að því að finna lausnir varðandi þau atriði sem tekin voru til umfjöllunar, m.a. með greiningu á styrkleikum og veikleikum hér á landi og forgangsröðun verkefna sem ráðast þarf í á næstu árum til þess að koma málum í betri farveg.
Niðurstöður og greiningar vinnuhópanna verða teknar saman í skýrslu sem afhent verður ráðherrum heilbrigðis-, félags- og menntamála í byrjun næsta árs.