Uppbygging hjúkrunarrýma og aðrar umbætur í öldrunarþjónustu
Stjórnvöld stefna á stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma á næstu árum auk þess að efla heimahjúkrun og ýmsa aðra þjónustuþætti sem mikilvægir eru til að bæta þjónustu við aldraða. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar um þessi áform í blaðagrein í dag og leggur áherslu á að samráð verði haft við notendur þjónustunnar og samtök eldra fólks.
Í greininni bendir Svandís á að skortur á hjúkrunarrýmum skerði bæði lífsgæði aldraðra og valdi auknu álagi á sjúkrahúsin. Samhliða uppbyggingu hjúkrunarrýma þurfi að tryggja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimilanna svo þeim sé kleift að bjóða íbúunum viðeigandi umönnun og þjónustu. Samhliða þessu verði lögð áhersla á að treysta aðra þætti öldrunarþjónustunnar, t.d. með því að efla heimahjúkrun og aðra þjónustu sem styður við getu fólks til sjálfstæðrar búsetu, s.s. dagþjónustu og endurhæfingu elda fólks.
„Sjá þarf til þess að aldraðir fái lifað með reisn og hafi möguleika á því að lifa innihaldsríku lífi, þar sem þeir njóta þeirrar þjónustu sem nauðsynleg er hverju sinni. Hlutverk stjórnvalda er að tryggja að svo sé, enda verður bætt öldrunarþjónusta ofarlega á dagskrá nýrrar ríkisstjórnar“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra m.a. í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.