Umsóknarfrestur um embætti landlæknis framlengdur til 4. janúar
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja umsóknarfrest um Embætti landlæknis sem að óbreyttu hefði runnið út 20. desember, til 4. janúar næstkomandi. Embættið var auglýst laust til umsóknar 10. nóvember síðastliðinn.
Heilbrigðisráðherra skipar landlækni til fimm ára í senn að fengnu mati nefndar sem skipuð er á grundvelli 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu til að meta hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana. Um embættið fer samkvæmt lögum nr. 41./2007 um landlækni og lýðheilsu.
Skipað verður í embættið frá 1. apríl 2018 þegar Birgir Jakobsson lætur af störfum vegna aldurs.
Auglýsingin er svohljóðandi:
Embætti landlæknis auglýst laust til umsóknar
Velferðarráðuneytið auglýsir embætti landlæknis laust til umsóknar. Um embættið fer samkvæmt lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.
Heilbrigðisráðherra skipar landlækni til fimm ára í senn að fengnu mati nefndar skv. 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Embættið heyrir undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra.
Umsækjendur skulu hafa sérfræðimenntun í læknisfræði, þekkingu á sviði lýðheilsu og víðtæka reynslu eða menntun á sviði stjórnunar. Leitað er að einstaklingi með samskipta- og leiðtogahæfileika og góða þekkingu og reynslu af rekstri og stefnumótun. Mikilvægt er að viðkomandi hafi reynslu af stjórnunarstörfum á sviði heilbrigðisþjónustu.
Landlæknir ber ábyrgð á því að embættið starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Hann ber jafnframt ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma embættisins sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.
Hlutverk landlæknis er meðal annars að:
- veita ráðherra og öðrum stjórnvöldum, fagfólki og almenningi ráðgjöf og fræðslu um málefni á verksviði embættisins,
- annast forvarna- og heilsueflingarverkefni,
- efla lýðheilsustarf í samvinnu við aðra sem að þeim málum starfa og styðja við menntun á sviði lýðheilsu,
- vinna að gæðaþróun,
- hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum,
- hafa eftirlit með lyfjaávísunum og fylgjast með og stuðla að skynsamlegri lyfjanotkun landsmanna,
- veita starfsleyfi til einstaklinga sem uppfylla skilyrði laga og reglugerða til notkunar starfsheita löggiltra heilbrigðisstétta,
- stuðla að því að menntun heilbrigðisstarfsmanna sé í samræmi við kröfur heilbrigðisþjónustunnar á hverjum tíma,
- sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu,
- bera ábyrgð á framkvæmd sóttvarna, sbr. sóttvarnalög,
- safna og vinna upplýsingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu,
- meta reglulega árangur af lýðheilsustarfi og bera hann saman við sett markmið,
- stuðla að rannsóknum á starfssviðum embættisins,
- sinna öðrum verkefnum sem honum eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.
Skipað verður í embættið frá 1. apríl 2018. Um kjör landlæknis fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs þar til ný ákvörðun hefur verið tekin um laun og starfskjör skv. 39. gr. a. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum.
Ráðuneytið hvetur konur jafnt sem karla til að sækja um embættið.
Upplýsingar um starfið veita Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri ([email protected]) og Áslaug Einarsdóttir settur skrifstofustjóri ([email protected]) í síma 545 8100.
Umsóknarfrestur er til 4. janúar 2018. Með umsókn skal fylgja ítarleg starfsferilsskrá, starfsheiti og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og hvernig viðkomandi uppfylli hæfniskröfur fyrir starfið. Umsóknir skulu sendar til velferðarráðuneytisins, Skógarhlíð 6, 105 Reykjavík eða á netfangið [email protected].
Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun liggur fyrir.