Hoppa yfir valmynd
22. desember 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra brýnir stjórnendur í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni

Svandís Svavarsdóttir - mynd

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sent stjórnendum allra stofnana sem heyra undir embætti hennar bréf þar sem hún brýnir þá til að fylgja fast eftir lögum um jafnrétti kynjanna. Í bréfinu bendir hún á að í lögunum sé kveðið skýrt á um að allir eigi að hafa jafna möguleika til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. ,,Það gerist ekki nema kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni verði upprætt" segir m.a. í bréfi ráðherra.

Bréf heilbrigðisráðherra til stjórnenda

Nýlega birtust opinberlega sögur fjölmargra kvenna, sem starfa í heilbrigðisþjónustu á Íslandi, um kynbundna og kynferðislega áreitni og jafnvel um kynbundið ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir í störfum sínum innan heilbrigðisþjónustunnar. Þessar sögur eru í samræmi við sögur kvenna víða um heim sem birst hafa undir myllumerkinu #metoo og draga fram í dagsljósið ójafna stöðu karla og kvenna að því er virðist á öllum sviðum samfélagsins. Það er von mín að birting þessara sagna verði til þess að takist að breyta menningu samfélaga á þann hátt að kynbundið ofbeldi og áreitni verði ekki lengur liðin.

Ég vil brýna alla forstöðumenn, sem starfa í stofnunum sem heyra undir heilbrigðisráðherra, til að fylgja fast eftir lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, þar sem kveðið er skýrt á um að allir eigi að hafa jafna möguleika til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Það gerist ekki nema kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni verði upprætt.

Ég bendi einnig á að í 22. gr. laganna er fjallað um kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni. Þar segir meðal annars að yfirmenn stofnana skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað.

Í 18. gr. sömu laga er fyrirtækjum og stofnunum, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn, gert skylt að setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Með jafnréttisáætluninni skal fylgja aðgerðaáætlun þar sem skilgreint er hvernig starfsmönnum eru tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í 19.–22. gr. Þetta þýðir að allir stærri vinnustaðir eiga að vera með aðgerðaáætlun þar sem fram kemur hvernig koma á í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni.

Ég beini því til allra forstöðumanna stofnana heilbrigðisráðuneytisins að tryggja að í gildi sé jafnréttisáætlun ásamt aðgerðaráætlun þar sem fram kemur hvernig á að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni á stofnunum ráðuneytisins.

Bréfið sem viðhengi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta