Dómnefnd skilar umsögn sinni um umsækjendur um átta embætti héraðsdómara
Dómnefnd samkvæmt 4. gr. a laga nr. 15/1998 um dómstóla hefur skilað umsögn sinni um umsækjendur um átta embætti héraðsdómara sem auglýst voru laus til umsóknar í Lögbirtingablaðinu 1. september síðastliðinn. Alls barst 41 umsókn um embættin.
Umsögn dómnefndarinnar er sú að Arnar Þór Jónsson, Ásgerður Ragnarsdóttir, Ástráður Haraldsson, Daði Kristjánsson, Helgi Sigurðsson og Ingiríður Lúðvíksdóttir séu hæfust til þess að verða skipuð í sex embætti dómara með fast sæti við Héraðsdóm Reykjavíkur. Þá telur nefndin að Pétur Dam Leifsson sé hæfastur til þess að verða skipaður í embætti með starfsstöð við Héraðsdóm Reykjavíkur en sinna störfum við alla héraðsdómstólana. Loks telur nefndin að Bergþóra Ingólfsdóttir sé hæfust til þess að verða skipuð í eitt embætti dómara sem hafa mun starfsstöð við Héraðsdóm Vestfjarða en sinna störfum við alla héraðsdómstólana eftir ákvörðun dómstólaráðs og jafnframt vera dómstjóri við Héraðsdóm Vestfjarða.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ákvað að víkja sæti í málinu vegna umsóknar Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns. Taldi hún fyrir hendi aðstæður sem væru til þess fallnar að umsækjendur dragi óhlutdrægni hennar i efa. Óskaði hún eftir því við forsætisráðherra að öðrum ráðherra í ríkisstjórninni yrði falin meðferð málsins og ákvað forsætisráðherra að setja Guðlaug Þór Þórðarson sem dómsmálaráðherra í málinu og mun hann skipa dómarana.
Dómnefndina skipuðu: Jakob R. Möller, formaður, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Kristín Benediktsdóttir, Ragnheiður Harðardóttir og Ragnhildur Helgadóttir.