Dómstólasýslan - ný sjálfstæð stjórnsýslustofnun
Hinn 1. janúar 2018 tók til starfa ný og sjálfstæð stjórnsýslustofnun er ber heitið dómstólasýslan. Dómstólasýslan annast sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna og gegnir víðtæku stjórnsýslulegu hlutverki. Hún mun m.a. hafa það hlutverk að leggja mat á og gera tillögu til ráðherra um nauðsynlegar fjárveitingar til dómstólanna, ákveða fjölda héraðsdómara og annarra starfsmanna við hvern héraðsdómstól, veita dómurum leyfi og skipuleggja símenntun dómara og annarra starfsmanna dómstólanna, vera í fyrirsvari fyrir sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna og koma fram gagnvart stjórnvöldum, fjölmiðlum og öðrum í þágu dómstólanna sameiginlega, fara með yfirstjórn upplýsingamála og tæknimála við dómstólana og annast þróun þeirra o.fl. Sjá nánar á vef dómstólasýslunnar, domstolasyslan.is.
Stjórn dómstólasýslunnar
Dómsmálaráðherra skipar stjórn dómstólasýslunnar samkvæmt lögum um dómstóla nr. 50/2016. Stjórnina skipa:
- Benedikt Bogason hæstaréttardómari, formaður, varamaður hans er Karl Axelsson, hæstaréttardómari.
- Hervör Þorvaldsdóttir, forseti Landsréttar, varamaður hennar er Davíð Þór Björgvinsson, landsréttardómari og varaforseti Landsréttar.
- Kristín Haraldsdóttir, lektor, varamaður hennar er Guðni Bergsson, lögmaður.
- Íris Elma Guðmann, dómritari, varamaður hennar er Erna Björt Árnadóttir, dómritari.
- Halldór Björnsson, héraðsdómari, varamaður hans er Barbara Björnsdóttir, héraðsdómari.
Framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar er Ólöf Finnsdóttir.