Hoppa yfir valmynd
5. janúar 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Dómar uppkveðnir árið 2017

Á árinu 2017 voru kveðnir upp 32 dómar sem varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess, 9 hæstaréttardómar, 21 héraðsdómar og 2 félagsdómar.

Hér að neðan er að finna upptalningu á nefndum dómum ásamt atriðisorðum og reifunum:

1. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. janúar 2017 í máli nr. E-2075/2016: A gegn Ríkissjóði Íslands.

TÍMABUNDINN RÁÐNINGARSAMNINGUR. LOK RÁÐNINGAR.

A var ráðinn til starfa í apríl 2015 hjá Útlendingastofnun með tímabundnum ráðningarsamningur. Samningurinn var endurnýjaður í júní 2015 vegna breytinga á launaflokkaröðun en með sama gildistíma. Í júlí 2015 rann gildistími samningsins út en ráðningarsamningurinn var endurnýjaður samningur til loka september 2015 lagður fyrir A til undirritunar. A neitaði að skrifa undir þann samning á þeim forsendum að hún ætti rétt á hærri launaflokkaröðun en fram komi í þeim samningi. Forstjóri Útlendingastofnunar var á þeim tíma í veikinda- og sumarleyfi og staðgengill forstjóra hafði ekki umboð til þess að semja um hærri launaflokkaröðun en fram kom í samningnum. Varð úr að samningurinn var ekki undirritaður af hálfu A en samkomulag varð með staðgengli forstjóra og A að hún héldi áfram vinnu hjá stofnuninni á sömu launum og hún hefði áður fengið, þar til forstjórinn kæmi aftur til starfa. Forstjórinn kom aftur til starfa um miðjan september 2015. Hófust viðræður milli A og forstjórans um launaflokkaröðun meðal annars með því að A útbjó sjálf ,að beiðni forstjóra, starfslýsingu fyrir starf sitt auk þess sem haldnir voru nokkrir fundir án þess að samkomulag næðist. Í október 2015, ritaði forstjórinn undir nýjan tímabundinn ráðningarsamning fyrir A sem gilda átti frá nóvember 2015 til loka desember 2015. A tók sér frest til ákvörðunar um undirritun. Í byrjun nóvember 2015, hafnaði A því að undirrita drög að framangreindum samningi þar sem að hennar mati var útséð um það að Útlendingastofnun myndi verða við kröfum hennar um hækkun launaliðar. A var tilkynnt af forstjóra að hún yrði að taka afstöðu til þess hvort hún ætlaði að undirrita samninginn eða ekki. Í framhaldi af þessu sendi starfsmannastjóri Útlendingastofnunar tölvupóst til A þar sem fram kom að litið væri svo á að ráðningu hennar væri lokið frá og með 5. nóvember 2015 og bæri henni að skila lyklum og öðrum munum sem tilheyrðu stofnuninni. A sendi tölvupóst í framhaldi af því þar sem fram komu sjónarmið hennar um að ekki hefði verið um tímabundinn ráðningarsamning að ræða og miða ætti uppsögn við næstu mánaðamót á eftir, auk þess sem hún ætti rétt á launum í uppsagnarfresti.

Ekkert hefur komið fram sem styður þann framburð stefnanda að hún hafi mátt gera ráð fyrir því að sjálfkrafa tæki við ótímabundin ráðning í framhaldi af þriggja mánaða tímabundinni ráðningu eða að samið hafi verið á þá leið. Gögn málsins benda til hins gagnstæða, enda var lagður fyrir stefnanda til undirritunar, nýr tímabundinn ráðningarsamningur um leið og gildistíma eldri samnings lauk. Verður ekki séð að stefnandi hafi gert athugasemdir við að henni hafi þá verið boðinn nýr tímabundinn samningur, heldur hafi athugasemdir hennar snúið að launalið samningsins og hún neitað að skrifa undir vegna þess. Vegna þeirrar neitunar stefnanda, og þar sem staðgengill forstjóra taldi sig ekki geta samið um hærri laun en tilgreind voru í samningnum, var gerður munnlegur samningur um að stefnandi héldi áfram störfum þar til forstjórinn kæmi úr leyfi. Starfaði stefnandi í samræmi við þann samning, án frekari athugasemda að séð verður. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að sá munnlegi samningur sem báðir málsaðilar telja að hafi komist á, hafi átt að vera um annað en þá lá fyrir að undirrita, þ.e. tímabundinn ráðningarsamning. Niðurstaða dómsins var að í júlí 2015, hafi komist á munnlegur tímabundinn ráðningarsamningur, með gildistíma til loka september 2015, með fyrirvara af hálfu A um laun. Meginreglan um ráðningar opinberra starfsmanna eru ótímabundnar ráðningar en heimild er til tímabundinna ráðninga í 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, enda vari sú ráðning ekki lengur en tvö ár, sbr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna. Ekki reynir á tímaskilyrði nefnds ákvæðis. Af 2. gr. laga nr. 139/2003 verður ráðið að hlutlægar ástæður skuli ráða við ákvörðun um tímabundnar ráðningar. Í málinu hefur ekki annað komið fram en að ráðning A hafi verið vegna tímabundinna heimilda til handa Útlendingastofnun til að ráða tvo starfsmenn, og hafi því hlutlægar ástæður ráðið því að A var boðinn tímabundinn ráðningarsamningur. Á því var byggt af hálfu A, með vísan til 2. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, að þar sem ekki hafi verið gengið frá ráðningarsamningi við A þegar eldri tímabundin ráðning rann út í júlí 2015, hafi sex vikum síðar sjálfkrafa komist á ótímabundinn ráðningarsamningur. Með vísan til þess að í júlí 2015 hafi komist á tímabundinn ráðningarsamningur, kom nefnd málsástæða A ekki til álita, enda var sá ráðningarsamningur gerður innan sex vikna frá lokum eldri samnings. Þegar munnlegum ráðningarsamningi lauk í lok september 2015, var ekki gengið frá nýjum samningi, hvorki munnlega né skriflega að því er séð verður. Gögn málsins benda ekki til þess að þá hafi staðið til að ráða A ótímabundið, enda eins og fyrr, var nýr skriflegur tímabundinn ráðningarsamningur lagður fyrir A í október 2015 til undirritunar. Tölvupóstur A í byrjun nóvember 2015, sem sendur var til forstjóra og starfsmannastjóra styður einnig þá niðurstöðu, en þar kom fram að A óskaði lagfæringar á launakjörum en engar athugasemdir voru um að sá samningur væri tímabundinn. Samkvæmt þessu liðu fimm vikur frá því að tímabundinn munnlegur ráðningarsamningur rann út í lok september 2015 og þar til starfi A lauk. Áttu ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2003 því heldur ekki við umrætt tímabil, þar sem á því tímabili var hvorki framlengdur eldri samningur né gerður nýr tímabundinn samningur innan sex vikna frá lokum eldri samnings. Mat dómurinn það svo að A hefði ekki sýnt fram á að ótímabundið ráðningarsamband hefði komist á á því tímabili sem hún starfaði hjá Útlendingastofnun. Var R því sýknað af kröfum A. Máli þessu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, sjá mál nr. 218/2017.

2. Dómur Félagsdóms frá 17. janúar 2017 í máli nr. 12/2016: Stéttarfélag lögfræðinga gegn íslenska ríkinu vegna Tollstjóra.

STOFNANASAMNINGUR. GRUNNRÖÐUN.

S krafðist þess að viðurkennt yrði að Tollstjóri hefði brotið í bága við 3. og 4. gr. stofnanasamnings Tollstjórans í Reykjavík og Bandalags háskólamanna, dags. 19. júní 2006, sbr. samkomulag um breytingu á stofnanasamningi milli S og T með gildistíma frá 1. nóvember 2014, með því að hafa ekki grunnraðað SM sem sérfræðingi B, í launaflokk 9, frá 1. janúar 2013 til 1. nóvember 2014 en frá þeim degi og fram til 1. mars 2015 sem sérfræðingi B, í launaflokk 11. Í niðurstöðu dómsins segir m.a. að lýsing á tveimur starfaflokkum í grein 3.3 í framlögðum stofnanasamningi væri ólík að því leyti að sérfræðingur A vinnur undir ábyrgð eða umsjón annars eða annarra starfsmanna, meðan sérfræðingur B vinnur „sjálfstætt að ákveðnum verkefnum undir stjórn deildarstjóra“. Að öðru leyti virðist sérfræðingum í báðum þessum flokkum almennt ætlað að leysa „vandamál“ og veita upplýsingar eða leiðbeiningar með því að „nota vísindalega þekkingu og hugtök“. Álitaefni um röðun sérfræðings í annan hvorn flokkinn lýtur því einkum að því hvort hann vinni sjálfstætt að ákveðnum verkefnum undir stjórn deildarstjóra eður ei. Að öðru leyti verður að ætla að verkefni sérfræðinga A og B, eins og þeim er lýst í stofnanasamningi, geti skarast og þeir unnið að meira eða minna leyti við sömu viðfangsefnin. Þá telur dómurinn að orðalagið „undir ábyrgð eða umsjón annars eða annarra starfsmanna“ í lýsingu á starfi sérfræðings A útiloki ekki að starfsmaðurinn vinni að verkefnum undir stjórn deildarstjóra. Málsástæðum S er byggja á öðrum skilningi var hafnað af dómnum. Í úrlausn dómsins á dómkröfu S sagði að taka verði tillit til þess að það er almennt hlutverk vinnuveitanda í ráðningarsambandi að ákveða skipulag starfsins og þá meðal annars hvaða starfsmenn eigi að sinna einstökum viðfangsefnum að því gefnu að það samrýmist lögum og gildandi kjarasamningi. Í því efni getur hann ákveðið að starfsmaður verði að hafa lokið tilteknu námi áður en honum eru falin verkefni sem kalla á aukið sjálfstæði í vinnubrögðum. Þótt stofnanasamningur geri ekki kröfu um að sérfræðingur B þurfi að hafa lokið tilteknu prófi, kann röðun vinnuveitanda í starfaflokk, og þar með í launaflokk, því óbeint að byggjast á tilteknum menntunarkröfum vinnuveitanda. Slíkt verklag, sem reist er á stjórnunarrétti yfirboðara, fór að mati dómsins ekki í bága við grein 3.3 í stofnanasamningi aðila. S byggði á því að þegar í upphafi ráðningar hafi SM unnið sjálfstætt að nánar tilgreindum verkefnum undir stjórn deildarstjóra. Engin breyting hafi orðið á því í mars 2015 þegar hún hafi loks verið færð í starf sérfræðings B. Þessu til stuðnings vísaði S til framlagðra starfslýsinga. Í mótmælti þessu. Byggði Í á því að SM hafi í fyrstu unnið að einfaldari verkefnum þar sem hún hafi getað stuðst við fyrirmyndir og verklagsreglur. Það hafi breyst í mars 2015 eftir að hún lauk námi til ML-gráðu í lögfræði. Í ráðningarsamningi var ekki kveðið á um hvort SM skyldi raðað í starf sérfræðings A eða sérfræðings B. Framlagðar starfslýsingar tilgreindu heldur ekki hvernig starfinu skyldi raðað samkvæmt stofnanasamningi. Í öllum þessum starfslýsingum var næsti yfirmaður sagður vera deildarstjóri lögfræðideildar. Samhljóða lýsing er á starfinu í starfslýsingunum frá júní 2013 og febrúar 2014, en þar segir orðrétt: „Hefur umsjón með lokunarmálum. Sér um mætingar hjá Sýslumanni í Reykjavík vegna aðfarargerðar Tollstjóra og Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar. Undirbýr fyrirtökur og sendir fyrirmæli til sýslumanna utan höfuðborgarsvæðisins. Undirbýr framhaldssölur fasteigna. Undirbýr lausafjáruppboð og sinnir frágangi vegna þeirra.“ Í lýsingu á starfssviði koma fram sömu upplýsingar. Þar er þó bætt við að starfsmanni sé ætlað að annast „önnur þau störf sem honum kunna að vera falin af yfirmanni“. Starfslýsing frá mars 2015 er að mestu leyti samhljóða eldri starfslýsingum SM nema að því leyti að í lýsingu á starfinu hefur verið bætt við að starfsmaður annist meðferð og afgreiðslu „stjórnsýsluerinda með stjórnvaldsákvörðun“. Þessi breyting gefur til kynna að viðfangsefni SM hafi að þessu leyti orðið fjölbreyttari eftir að nám hennar til ML-gráðu í lögfræði var metið og hún færð í starf sérfræðings B. Taldi dómurinn að starfslýsingar veitu ekki skýra vísbendingu um að hvaða marki ætlast væri til þess að SM væri sjálfstæð í störfum sínum á lögfræðideild Tollstjóra. Taldi dómurinn að S hefði ekki hnekkt því, sem vinnuveitandi hennar hélt fram, að í kjölfar ráðningar hennar hefði hún einkum fengist við einfaldari lögfræðistörf þar sem unnt hafi verið að styðjast við verklagsreglur og fyrirmyndir. Miðað við það sem fram kom fyrir dómi taldi dómurinn að jafnframt yrði að leggja til grundvallar að breyting hefði orðið á starfi SM í kjölfar þess að hún varð sérfræðingur B í mars 2015 á þann veg að verkefni hennar urðu í senn fjölbreyttar og meira krefjandi. Taldi því dómurinn að ekki yrði á það fallist að nægar sönnur hafi verið færðar fyrir því að Í hefði brotið gegn greinum 3 og 4 í umræddum stofnanasamningi með því að grunnraða SM í launaflokk 7 á tímabilinu frá janúar 2013 til nóvember 2014, en frá þeim degi til mars 2015 í launaflokk 9. Með vísan til sömu sjónarmiða bar að hafna málsástæðu S er laut að því að Í hefði brotið gegn jafnræðisreglu greinar 3.1 í stofnanasamningnum eða 1. gr. laga nr. 55/1980 með því að haga grunnröðun starfsmannsins eins og gert var. Var Í sýknað af kröfum S.

3. Dómur Hæstaréttar frá 26. janúar 2017 í máli nr. 278/2016: Íslenska ríkið gegn G.

RÁÐNINGARSAMNINGUR. RIFTUN. ÁMINNING.

G hóf störf hjá embætti umboðsmanns skuldara haustið 2010 og starfaði þar fram í maí 2015 þegar ráðningarsamningi var rift. Tilefni þess riftunar voru ávirðingar á hendur G sem fólust í því að G hafði haft afskipti af þremur málum fyrrverandi eiginmanns síns sem höfðu verið til meðferðar hjá embættinu. G krafðist bóta vegna uppsagnarinnar. Í dómnum var tekið fram að þótt afskipti G af málum fyrrverandi eiginmanns síns hefðu verið brot gegn ríkum trúnaðarskyldum hefði G í starfi sínu ekki tekið ákvarðanir í málunum og ekki lægi fyrir að G hefði notfært sér upplýsingarnar í eigin þágu eða hefði miðlað þeim til annarra. Niðurstaða dómsins var því sú að ávirðingarnar sem G voru gefnar að sök voru ekki taldar geta haft í för með sér fyrirvaralausan brottrekstur. Af þeim sökum var riftun ráðningarsamningsins ólögmæt. Var Í gert að greiða G bætur vegna fjártjóns og miska.

4. Dómur Hæstaréttar frá 26. janúar 2017 í máli nr. 331/2016: K gegn íslenska ríkinu.

UPPSÖGN. HAGRÆÐING Í REKSTRI. TRÚNAÐARMAÐUR.

K hóf störf hjá sjávarútvegsráðuneytinu á árinu 2002 og starfaði þar fram í janúar 2014 er honum var sagt upp störfum vegna hagræðingar í rekstri ráðuneytisins. K krafðist bóta vegna uppsagnarinnar þar sem hann taldi að uppsögnin ætti sér ekki lögmæta stoð, m.a. með tilliti til þess að sér hafi sem trúnaðarmanni verið sagt upp störfum og að forsendur að baki uppsögninni stæðust ekki. Niðurstað dómsins var sú að í ljósi hinna skýru lagaákvæða V. kafla laga nr. 94/1986 um aðferð við val trúnaðarmanns yrði ekki litið svo á að K hefði haft stöðu kjörins trúnaðarmanns í skilningi laganna. Þá taldi dómurinn að ítarleg greiningarvinna hefði verið unnin í aðdraganda uppsagnarinnar og að ákvörðun um hana hefði verið reist á málefnalegum sjónarmiðum. Var Í sýknað af kröfum K.

5. Dómur Hæstaréttar frá 16. febrúar 2017 í máli nr. 376/2016: Á gegn íslenska ríkinu.

UPPSÖGN. HAGRÆÐING Í REKSTRI.

Á krafðist bóta vegna ætlaðrar ólögmætrar uppsagnar í starfi hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var ekki fallist á með Á að ástæða uppsagnarinnar hefði verið önnur en að fækka hafi þurft starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunarinnar. Hefði uppsögnin því ekki verið háð undanfarandi áminningu og andmælarétti. Þá var talið að uppsögnin hefði verið reist á faglegu og málefnalegu mati og að meðalhófs hefði verið gætt. Var Í því sýknað af kröfu Á.

6. Dómur Hæstaréttar frá 23. febrúar 2017 í máli nr. 388/2016: Íslenska ríkið gegn B.
SLYSATRYGGING. Á HEIMLEIÐ FRÁ VINNUSTAÐ.

B krafðist bóta vegna áverka sem B varð fyrir er hún lenti í árekstri á bensínstöð á heimleið frá vinnustað sínum. Niðurstaða dómsins var sú að viðkoma B á umræddri bensínstöð hefði verið nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í akstri bifreiðarinnar frá vinnustað að heimili B þannig að reglur nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi, ættu við um slys B. Var því fallist á kröfu B.

7. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. febrúar 2017 í máli nr. E-1449/2016: X gegn íslenska ríkinu.

NIÐURLAGNING. FLUTTUR TIL Í STARFI.

Embætti sérstaks saksóknara var sett á fót með lögum nr. 135/2008. Samkvæmt 7. gr. laganna var embættinu upphaflega ætlað að starfa til 1. janúar 2011 en með breytingu á lögunum með lögum nr. 82/2011 var starfstími þess lengdur til 1. janúar 2013. Ráðherra var þá heimilað að leggja niður embættið að þeim tíma liðnum með framlagningu lagafrumvarps þess efnis, að fengnu áliti ríkissaksóknara. Í lögum nr. 135/2008 var tekið fram að ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um fimm ára skipunartíma og biðlaunarétt tækju ekki til sérstaks saksóknara og að skipun hans félli niður þegar embættið yrði lagt niður eða það sameinað annarri ríkisstofnun. Þá var tekið fram að sérstakur saksóknari héldi óbreyttum launum í þrjá mánuði frá þeim tíma. Með lögum nr. 82/2011 var bætt við ákvæði í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 135/2008 sem veitti heimild til þess að skipa lögreglumenn til starfa við embættið. Sérstaklega var tekið fram að ákvæði lögreglulaga og laga um réttindi starfsmanna ríkisins um fimm ára skipunartíma og biðlaunarétt tækju ekki til þessara starfsmanna. Í ákvæðinu var einnig tekið fram að skipun starfsmannanna félli niður þegar embætti sérstaks saksóknara yrði lagt niður eða sameinað annarri ríkisstofnun. Við þau málalok myndu skipaðir lögreglumenn halda óbreyttum launakjörum í þrjá mánuði frá þeim tíma. Embætti sérstaks saksóknara var lagt niður með lögum nr. 47/2015 en lögin felldu úr gildi lög nr. 135/2015, um sérstakan saksóknara. Lög nr. 47/2015 tóku gildi 1. janúar 2016, sbr. 29. gr. laganna. Með bréfi sérstaks saksóknara í september 2014 var X, ásamt öðrum lögreglumönnum sérstaks saksóknara, tilkynnt um fyrirhugaða lausn hans frá embætti lögreglufulltrúa frá og með 1. nóvember 2014. Í bréfinu segir að ástæða þessa sé fækkun starfsmanna embættisins vegna lækkunar fjárheimilda embættisins á árinu 2015. Lögmaður X sendi sérstökum saksóknara, fjármálaráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu bréf í október 2014 þar sem fyrirhuguðum uppsögnum X og nokkurra annarra lögreglumanna var mótmælt og færð rök fyrir því að þær væru ólögmætar. Þess var krafist að embættið félli frá áformum sínum um að veita lögreglumönnunum lausn frá embættum sínum. Með tölvupósti sérstaks saksóknara til X í október 2014 var X tilkynnt að samkomulag hefði náðst milli embættis hans og Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að X flyttist í stöðu rannsóknarlögreglumanns hjá síðarnefndu embætti og yrði skipaður í þá stöðu frá og með 1. nóvember 2014. Yrði miðað við að X nyti óbreyttra kjara í þrjá mánuði frá og með 1. nóvember en að þeim tíma liðnum yrðu kjör hans samkomulagsatriði milli hans og Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Í bréfinu var tekið fram að til þess að þetta fyrirkomulag gæti gengið eftir, yrði X að samþykkja tilhögunina sem fyrst. X svaraði með tölvupósti þar sem hann féllst á að verða fluttur til í embætti en gerði þann fyrirvara að hann teldi niðurlagningu stöðu sinnar ólögmæta og áskildi sér rétt til þess að krefja embættið um greiðslu fullra launa þar til þrír mánuðir væru liðnir frá því að skilyrði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 135/2008 um niðurlagningu væri uppfyllt. Sérstakur saksóknari hafnaði fyrirvara X í tölvupósti og leit svo á að X hefði samþykkt flutninginn og að ekki yrði byggt á þeim atriðum sem nefnd væru í fyrirvaranum. Flutningsbréf fyrir X til þess að vera rannsóknarlögreglumaður við embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var gefið út af lögreglustjóranum í lok október 2014. Í lok 2015 sendi lögmaður X bréf til sérstaks saksóknara þar sem gerð var krafa um að embættið greiddi X full laun út skipunartíma hans hjá embættinu, í samræmi við skýr ákvæði 2. gr. laga nr. 135/2008, þar til þrír mánuðir væru liðnir frá niðurlagningu embættis sérstaks saksóknara. Í bréfinu var tiltekið að embætti sérstaks saksóknara hefði hvorki verið lagt niður né sameinað annarri ríkisstofnun. Í niðurstöðu dómsins kom fram að af hálfu X væri byggt á því að hann hafi ekki verið leystur frá störfum, heldur hefði hann verið fluttur úr starfi lögreglufulltrúa hjá sérstökum saksóknara í starf rannsóknarlögreglumanns hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Því njóti hann sem embættismaður réttinda samkvæmt ákvæðum 36. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um greiðslu mismunar milli þeirra launa sem hann hafði í starfi sínu hjá sérstökum saksóknara annars vegar og þeirra launa sem hann hefði notið frá því hann hóf störf sem rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglustjóra allt þar til embætti sérstaks saksóknara var lagt niður í árslok 2015. Þessu mótmælti Í og byggði kröfur sínar á því að ákvæði laganna um lausn frá störfum eigi við í tilviki X, þ.m.t. ákvæði 25. og 34. gr. laganna. Í vísaði jafnframt til þess að til niðurlagningar embættis geti m.a. komið vegna hagræðingar og niðurskurðar í rekstri stofnana. Fram kom í málinu að frá árinu 2013 voru fjárheimildir embættis sérstaks saksóknara lækkaðar frá því sem verið hafði. Fyrirverandi sérstakur saksóknari lýsti því fyrir dóminum að vegna niðurskurðar á fjárheimildum, hefði verið nauðsynlegt að grípa til uppsagna starfsfólks og því hefði 18 starfsmönnum embættisins verið sagt upp störfum haustið 2013. Þegar ákvörðun hefði verið tekin haustið 2014 um að láta lögreglumenn fara, hafi legið fyrir að embættið fengi innan við 300.000.000 króna í rekstrarfé. Óumdeilt var að undir haust 2014 stóð til að segja upp fleiri starfsmönnum embættisins og að þeim hefði verið kynntar þær fyrirætlanir. X var tilkynnt um fyrirhugaða lausn hans frá embætti lögreglufulltrúa með bréfi sérstaks saksóknara í lok september 2014. Fram kom í bréfinu að ástæða þess sé fækkun starfsmanna embættisins vegna lækkunar fjárheimilda fyrir árið 2015. Þessari ráðagerð var mótmælt sem ólögmætri í bréfi til sérstaks saksóknara frá lögmanni X fyrir hönd hans og nokkurra annarra lögreglumanna í október 2014. Samhljóða bréf voru jafnframt send til innanríkisráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Í tölvupósti sérstaks saksóknara til X í október 2014 var vísað til þess að náðst hefði samkomulag milli embættisins og Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að X flyttist þangað í stöðu rannsóknarlögreglumanns og að hann yrði skipaður í hana frá nóvember það ár. Við það væri miðað að X nyti óbreyttra kjara í þrjá mánuði frá þeim tíma en að þeim tíma liðnum væru kjör X samkomulagsatriði milli hans og lögreglustjórans. Sérstaklega var tekið fram að til þess að þetta gæti gengið eftir, þyrfti X að samþykkja þessa tilhögun. Loks var tilkynnt að lögreglustjórinn muni flytja X í stöðu rannsóknarlögreglumanns frá 1. nóvember, að fengnu samþykki X. Í tölvupósti til sérstaks saksóknara í lok október 2014 féllst X á að vera fluttur til lögreglustjórans en gerði þann fyrirvara gagnvart embætti sérstaks saksóknara að hann teldi niðurlagningu stöðu sinnar ólögmæta og áskildi sér m.a. rétt til að krefja embættið um greiðslu fullra launa þar til þrír mánuðir væru liðnir frá því að skilyrði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 135/2008 um niðurlagningu væru uppfyllt. Í svari sérstaks saksóknara til X í tölvupósti kom fram að fyrirvörum X væri hafnað en að litið væri svo á að X hefði samþykkt flutninginn. Fyrir lá flutningsbréf fyrir X „til þess að vera rannsóknarlögreglumaður við embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu“. Þá segir í svarbréfi innanríkisráðuneytisins til lögmanns X að fyrirhugað hafi verið að leysa átta lögreglumenn frá störfum við embætti sérstaks saksóknara en að í lok október 2014 hefði verið gengið frá flutningsbréfum fyrir umrædda lögreglumenn í önnur störf. Því hefðu málalok orðið þau „að enginn var leystur frá embætti.“ Það var mat dómsins að fallast yrði á það með X að hann hefði verið fluttur til í starfi en ekki leystur frá störfum, eins og Í hélt fram. Leit dómurinn svo á að horfið hefði verið frá upphaflegum áformum sérstaks saksóknara um að leysa X frá störfum en færa hann þess í stað yfir í starf rannsóknarlögreglumanns hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Þá lá fyrir að gefið var út sérstakt flutningsbréf fyrir X og í því var tvívegis vísað sérstaklega til 36. gr. laga nr. 70/1996 sem mælir fyrir um heimild til flutnings á embættismanni milli starfa með tilteknum hætti. Jafnframt er þar tekið fram að flytjist maður í annað embætti, sem er lægra launað, skuli greiða honum launamismuninn þann tíma sem eftir er af skipunartíma hans í fyrra embættinu. Að öllu þessu gættu og litið til skýrs orðalags flutningsbréfsins að þessu leyti, féllst dómurinn ekki á það með Í að um það hafi í raun verið að ræða, að embætti X hafi verið lagt niður og að því bæri að byggja á ákvæðum 34. gr. laga nr. 70/1996 að því er varðar kjör X. Þá féllst dómurinn ekki á að höfnun sérstaks saksóknara á fyrirvörum í tölvupósti X til sérstaks saksóknara réði úrslitum um lögbundin réttindi og kjör X. Fyrir lá að X gerði fyrirvara við tilhögun fyrirhugaðs flutnings í embætti hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á þann veg að hann teldi niðurlagningu stöðu sinnar ólögmæta og áskildi sér jafnframt rétt til að krefja embætti sérstaks saksóknara um greiðslu fullra launa þar til þrír mánuðir væru liðnir frá því að skilyrði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 135/2008 um niðurlagningu væri uppfyllt. Því yrði hvorki á því byggt að X hafi með því að samþykkja flutninginn afsalað sér lögbundnum réttindum sínum, sem hann naut sem embættismaður, né að hann hafi ekki mátt gera sér væntingar um að hann nyti þeirra kjara sem framangreind gögn og lagaákvæði bera með sér. Því var þeim málsástæðum Í hafnað. Fram kom í dómnum að eftir setningu ákvæða 3. mgr. 2. gr. laga nr. 135/2008, svo sem henni var breytt með 2. gr. laga nr. 82/2011, nytu skipaðir lögreglumenn við embætti sérstaks saksóknara ekki réttinda samkvæmt ákvæðum lögreglulaga nr. 90/1996 og laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að því er varðaði fimm ára skipunartíma og biðlaun. Hins vegar er í ákvæðinu sérstaklega tekið fram að skipun þeirra falli niður þegar embætti sérstaks saksóknara verður lagt niður eða það sameinað annarri ríkisstofnun. Þá er jafnframt vísað til 7. gr. laganna nr. 135/2008 sem hefur að geyma lýsingu á því hvernig standa skuli að því að leggja embættið niður. Þar kemur fram að ráðherra geti lagt til, að fengnu áliti ríkissaksóknara, að embættið verði lagt niður og leggur þá frumvarp þess efnis fyrir Alþingi. Bæði í setningarbréfi X í febrúar 2012 og í skipunarbréfum hans frá september 2011 og mars 2012, er vísað til ákvæða 3. mgr. 2. gr. laga nr. 135/2008, sbr. 2. gr. laga nr. 82/2011. Þannig var í skipunarbréfi X frá september 2011 vísað til þess að um skipun hans sem lögreglumanns við embætti sérstaks saksóknara gilti ákvæði framangreindrar 3. mgr. 2. gr. laga nr. 135/2008 eftir að henni var breytt með 2. gr. laga nr. 82/2011. Jafnframt var ákvæðið tekið upp í heild sinni í skipunarbréfið og í lok þess tekið fram að „[u]m skipunartíma og kjör yðar vísast til tilvitnaðrar 2. gr. laga nr. 82/2001.“ Ákvæðið var einnig tekið upp í heild sinni í skipunarbréfi X í mars 2012 og tekið fram að ríkislögreglustjóri skipi X lögreglufulltrúa við embætti sérstaks saksóknara með vísan til ákvæðisins. Þá segir: „Skipun yðar fellur niður þegar embætti sérstaks saksóknara verður lagt niður eða sameinað annarri ríkisstofnun, sbr. 2. gr. laganna.“ Eins og áður er getið, telur dómurinn að við úrlausn málsins beri að líta svo á að X hafi verið fluttur til í starfi í lok október 2014. Það er jafnframt mat dómsins að við túlkun framangreindra lagaákvæða og skipunarbréfa, sem stafa frá X, verði að taka mið af orðanna hljóðan, enda eru bæði lagákvæðin og bréfin orðuð með skýrum hætti. Að því gættu og með hliðsjón af öðru framangreindu telur dómurinn ekki unnt að líta svo á að starfslok X hafi verið þáttur í niðurlagningu embættis sérstaks saksóknara í skilningi lagagreinarinnar, svo sem Í heldur fram. Þykja því engu breyta sjónarmið Í greinargerð sem lúta að því að í ráðningarviðtölum starfsmanna hjá embætti sérstaks saksóknara hafi þeim verið bent á að embættinu væri ætlað að starfa í skamman tíma. Við úrlausn máls þessa taldi dómurinn að líta yrði til ákvæða laga sem eiga við um flutning embættismanna í önnur störf. Er enda, eins og áður greinir, vísað til ákvæða 36. gr. laga nr. 70/1996 í framangreindum bréfum sem X voru send vegna starfsloka hans og einnig í flutningsbréfinu. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar ber að greiða þeim manni, sem flyst í annað embætti samkvæmt 1. mgr. sem er lægra launað, launamismuninn þann tíma sem eftir er af skipunartíma hans í fyrra embætti. Svo sem segir í athugasemdum með lögum nr. 70/1996 er ákvæðið í samræmi við 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, þar sem mælt er fyrir um að embættismenn, sem eru fluttir úr einu embætti í annað, „missi [...]einskis í af embættistekjum sínum“. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 135/2008, sbr. 2. gr. laga nr. 82/2011, skyldi skipun stefnanda falla niður þegar annað hvort kæmi til, að embætti sérstaks saksóknara yrði lagt niður eða að embættið yrði sameinað annarri ríkisstofnun. Fyrir liggur að embætti sérstaks saksóknara var lagt niður í árslok 2015. Þegar litið er til skýrs orðalags 3. mgr. 2. gr. laga nr. 135/2008 um skipunartíma lögreglumanna hjá embættinu, sem framlögð gögn bera með sér að miðað hafi verið við í setningarbréfum og skipunarbréfum X, verður að þessu leyti að miða við það tímamark. Óumdeilt er og ljóst af framlögðum gögnum málsins að laun X sem rannsóknarlögreglumanns hjá embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu voru lægri en þau laun sem hann hafði áður notið í starfi sínu sem lögreglumaður hjá embætti sérstaks saksóknara. Að öllu framangreindu virtu er það því niðurstaða dómsins að fallast beri á það með X að hann eigi kröfu á hendur Í um greiðslu þess launamismunar. Máli þessu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 328/2017.

8. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 3. mars 2017 í máli nr. E-780/2016 (óbirtur): G gegn íslenska ríkinu.

NIÐURLAGNING STARFS. BIÐLAUN. FÖST LAUN. ÓBREYTT LAUNAKJÖR.

G starfaði sem yfirlæknir hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu í Grafarvogi í Reykjavík. Með bréfi í september 2015 var G tilkynnt að vegna skipulagsbreytinga á starfsemi stofnunarinnar væri starf yfirlæknis á heilsugæslustöðinni lagt niður og miðast niðurlagning starfs við lok september 2015. Tekið var fram í bréfinu að um rétt G til greiðslna í tengslum við niðurlagningu starfs færi eftir ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og ætti G rétt til bóta sem næmu föstum mánaðarlaunum í 12 mánuði frá 1. október 2015 að telja. Ekki var ágreiningur um að G ætti rétt til biðlauna í 12 mánuði. Laut ágreiningur aðila að því hvaða launaliðir féllu undir óbreytt launakjör G. Á meðan G vann sem yfirlæknir fékk hann mánaðarlaun fyrir 100% starf auk 15% álags ofan á mánaðarlaunin. Í taldi að réttur G til biðlauna takmarkaðist við þessa liði og greiddi honum biðlaun samkvæmt því. Á meðan G vann sem yfirlæknir hjá heilsugæslunni fékk hann að auki greitt fyrir útgáfu læknisvottorða, vaktir milli kl. 16-18 á daginn og læknisverk unnin á þeim vöktum samkvæmt gjaldskrá. G taldi að greiðslur vegna þessa liða féllu undir föst laun og næði því réttur hans til biðlauna einnig til þessara liða. Dómurinn lagði til grundvallar við skýringu á 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 70/1996 að réttur starfsmanns til biðlauna taki aðeins til fastra launa en ekki til greiðslna sem inntar væru af hendi í samræmi við vinnuframlag hverju sinni. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að greiðsla fyrir gæsluvaktir og verk unnin á vöktum samkvæmt gjaldskrá teldist ekki til fastra launa G heldur teldust vera greiðslur sem inntar væru af hendi í samræmi við vinnuframlag hverju sinni. Var Í því sýknað af þessum liðum í kröfu G. Hvað varðaði greiðslur til lækna fyrir vottorð komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að þær greiðslur væru ekki föst greiðsla heldur breytileg, þannig að læknir fengi greiddar mismunandi fjárhæð fyrir hvert og eitt vottorð eftir efni þess. Taldi dómurinn að greiðsla fyrir læknisvottorð teldist ekki til fastra launa G heldur teldist vera greiðslur sem inntar væru af hendi í samræmi við vinnuframlag hverju sinni. Var Í því sýknað af þessum lið í kröfu G. Í var því sýknað af öllum kröfum G. Máli þessu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 185/2017.

9. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. mars 2017 í máli nr. E-1743/2016: A gegn íslenska ríkinu.

SLYSATRYGGING. Á LEIÐ FRÁ HEIMILI TIL VINNU.

A var á leið frá heimili sínu til vinnu sinnar á Landspítalanum í Reykjavík. Þar starfaði A sem ljósmóðir og var á leið á næturvakt. A stöðvaði bifreið sína við verslunina Hagkaup í Garðabæ, en þegar hún gekk um bifreiðastæðið fyrir utan verslunina var ekið á hana. A kveðst hafa stöðvað för sína við Hagkaup til þess að kaupa sér nesti fyrir næturvaktina þar sem mötuneyti á spítalanum væri ekki opið á nóttunni og að verslunin væri á eðlilegri leið til vinnu A. Þeirri lýsingu A á málavöxtum að ágreiningslaust væri að A hafi verið á leið til vinnu þegar slysið varð var mótmælt af Í í greinargerð sem rangri, órökstuddri og ósannaðri. Niðurstaða dómsins var sú að eins og háttaði til í málinu verði það talinn eðlilegur þáttur í ferðalagi A til vinnu á þessum tíma að nesta sig á leiðinni. Gat A varla á þessari leið vikið skemur frá akstursleið sinni þeirra erinda. Taldi dómurinn, m.a. með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 388/2016, að A hefði verið á eðlilegri leið frá heimili sínu til vinnustaðar síns í skilningi 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 30/1990 þegar hún lenti í slysinu. Átti A því bótarétt á grundvelli reglna nr. 30/1990.

10. Dómur Hæstaréttar frá 16. mars 2017 í máli nr. 444/2016: Vatnajökulsþjóðgarður gegn R.

TÚLKUN KJARASAMNINGS. FJARVISTARUPPBÓT. VINNUSTAÐUR Í ÓBYGGÐUM.

R starfaði samkvæmt tímabundnum ráðningarsamningi hjá V við landvörslu í Lónsöræfum. R og V deildu um hvort R ætti rétt á fjarvistaruppbót til viðbótar við laun sín samkvæmt kjarasamningi SGS. Niðurstaða dómsins var sú að talið var að samkvæmt orðanna hljóðan yrði ákvæðið skilið svo að það ætti við um tímabundin störf á vinnustað, þar á meðal vinnustað sem teldist fastur í skilningi samningsins, svo lengi sem vinnustaðurinn væri í óbyggðum þar sem ekki væri unnt að sækja hann frá heimili eða fasti aðstöðu vinnuveitanda í byggð. Vara krafa R því tekin til greina.

11. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 28. mars 2017 í máli nr. E-2475/2016: G gegn íslenska ríkinu.

UMSÓKN UM STARF. HÆFNISNEFND. JAFNRÉTTI. KÆRUNEFND JAFNRÉTTISMÁLA.

Innanríkisráðuneytið auglýsti lausar til umsóknar þrjár stöður aðstoðaryfirlögregluþjóna á löggæslusviði við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Í auglýsingunni voru helstu verkefnum og ábyrgð aðstoðaryfirlögregluþjóna lýst og var sú lýsing í samræmi við 6. gr. reglugerðar nr. 1051/2006 um starfsstig innan lögreglunnar. Út frá þeirri forsendu að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fór með stjórnun þess embættis sem hinar lausu stöður tilheyrðu fól innanríkisráðherra lögreglustjóranum að meta hvaða hæfisskilyrði yrðu lögð til grundvallar við matið og þannig meta þá hæfileika sem hann teldi að best gögnuðust. Áður en umsóknarfrestur rann út fól lögreglustjórinn þremur einstaklingum að skipa hæfnisnefnd, undirbúa ráðningarferlið og í framhaldinu starfa saman að því að leggja mat á hvaða einstaklingar kæmu helst til greina í stöðurnar. Þeir sem skipuðu hæfnisnefndina voru taldir hafa góða þekkingu á starfsemi embættisins, sem og á hlutverki og verkefnum stöðvarstjóra og þeim kröfum sem gerðar væru til stjórnenda í lögreglu. Um stöðurnar þrjár bárust 51 umsókn, en þar af voru 11 umsækjendur konur. Af þeim sem sóttu um voru 25 umsækjendur taldir uppfylla hæfisskilyrðin sem sett voru fram í auglýsingu. Var þeim boðið í fyrsta starfsviðtal. G var í hópi þeirra sem komust í fyrsta starfsviðtal, en auk hennar voru tvær aðrar konur boðaðar í það viðtal. Í ráðningaráætluninni sem hæfnisnefndarmennirnir settu saman var skilgreindur matsgrundvöllur og forsendur fyrir mati á hæfni og vali á umsækjendum sem helst kæmu til greina í stöðurnar þrjár. Í ráðningaráætluninni var að finna ítarlega lýsingu á forsendum fyrir vali á umsækjendum og voru forsendurnar byggðar á hlutverki aðstoðaryfirlögregluþjóns sem stöðvarstjóra. Þá voru forsendur fyrir vali hæfnisnefndar á umsækjendum í fyrsta starfsviðtal að viðkomandi hefði að lágmarki eins árs samfellda reynslu af stjórnun fólks og skipti umfang stjórnunar máli, bæði verkefni og fjöldi starfsmanna. Þá taldi hæfisnefndin reynslu af stjórnun einstakra málaflokka eða rannsókna ekki vega jafn þungt. Þegar litið var til þessara atriða var það mat hæfnisnefndar að boða skyldi þá umsækjendur í fyrsta viðtal sem hefðu að minnsta kosti eins árs stjórnunarreynslu, próf frá Lögregluskólanum og hefðu starfað í lögreglu í fimm ár eða lengur. Fyrsta viðtali var ætlað að greina betur upplýsingar úr umsóknum umsækjenda um stjórnunarreynslu, tíma og umfang þeirrar reynslu, auk þekkingar og reynslu á sviði löggæslu. Í viðtalinu var stuðst við staðlaðan spurningalista og fengu allir umsækjendur í því viðtali sömu spurningar og sömu tækifæri til að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum. Voru umsækjendum jafnframt gefin stig fyrir fyrirfram skilgreinda matsþætti samkvæmt sérstökum matskvarða. G var ekki í hópi þeirra tíu umsækjenda sem hæfnismatsnefndin mat hæfasta að loknu fyrsta viðtali og komst því ekki áfram í ráðningarferlinu. Hlaut stefnandi 24 stig að loknu viðtalinu, en til þess að komast í annað viðtal þurfti umsækjandi að hljóta 29 stig. Voru tíu umsækjendur sem náðu þeim stigafjölda eða hærri, þar af ein kona. Ráðningarferlið samanstóð af tveimur viðtölum til viðbótar, ásamt úrlausn sem fólst í kynningu þeirra umsækjenda sem komust í síðari viðtöl. Eftir viðtal númer tvö var fimm umsækjendum boðið í þriðja og síðasta viðtal. Innanríkisráðherra setti þá A, B og C í hinar auglýstu stöður. G óskaði eftir rökstuðningi innanríkisráðherra vegna setningar í stöðurnar. Í rökstuðningi innanríkisráðherra meðal annars fram það mat ráðuneytisins að niðurstaða hæfnismatsnefndarinnar hefði verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum með það að markmiði að finna hæfustu umsækjendurna til starfans. Þá kom einnig fram að ráðuneytið hefði ekki séð ástæðu til þess að gera athugasemdir við mat hæfnisnefndarinnar sem lagt hafði verið undir og samþykkt af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. G kærði ákvörðun innanríkisráðuneytisins til kærunefndar jafnréttismála í janúar 2015. Í júní 2015 komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að innanríkisráðherra hefði brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við setningu í stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóna við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Í úrskurði kærunefndarinnar sagði m.a.: „[….] er ljóst að mat á að minnsta kosti fimm af sjö spurningum er beint var til umsækjenda var háð annmörkum að meira eða minna leyti. Telur nefndin að kærði hafi ekki metið hæfni kæranda til að gegna stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns á málefnalegum forsendum. Framangreindar athugasemdir kærunefndar við stigagjöf sýna að hæfni kæranda var að öllum líkindum vanmetin. Við þessar aðstæður telur kærunefnd að leiddar hafi verið líkur að því að kærði hafi mismunað kæranda og þykir kærði ekki hafa sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hennar hafi legið þar til grundvallar.“ Við meðferð málsins hjá kærunefndinni kom fram að ráðuneytið viðurkenndi að frammistöðu í viðtali hefði verið gefið of mikið vægi. Tekið var fram í úrskurðinum, að við meðferð málsins hjá kærunefndinni hafi innanríkisráðuneytið leiðrétt stigagjöf fyrir svör G við spurningum þannig að í stað fjögurra stiga fyrir svör við spurningu 3 um samstarf við hagsmunaaðila hefði borið að gefa fimm stig, í stað þriggja stiga fyrir spurningu 6 um stjórnunarreynslu hefði borið að gefa fjögur stig og fyrir spurningu 9 um rekstur og áætlanagerð hefði verið rétt að gefa fimm stig í stað fjögurra. Var því stigagjöfin leiðrétt þannig að bætt var þremur stigum við heildarfjölda stiga og fór hann því úr 24 stigum í 27 stig. Í júlí 2015 óskaði G eftir viðbrögðum Í við úrskurði kærunefndarinnar og viðræðum um skaðabætur. Í féllst ekki á að skaðabótaskylda væri fyrir hendi án frekari sönnunargagna. Var kröfunni um skaðabætur því hafnað. Í niðurstöðu dómsins segir að samkvæmt ákvæði 4. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 hafi úrskurðir kærunefndar jafnréttismála bindandi áhrif fyrir aðila máls. Var ákvæði þetta nýmæli í lögum nr. 10/2008, en áður gaf nefndin upp álit sitt í málum sem til hennar bárust. Var ætlunin með setningu þessa ákvæðis að veita niðurstöðum nefndarinnar meira vægi og leiða til þess að þær yrðu virtar. Heimilt er samkvæmt ákvæðinu að bera úrskurði kærunefndar jafnréttismála undir dómstóla. Í hefur borið fyrir sig að úrskurður kærunefndarinnar sé haldinn ýmsum göllum og að ekki sé unnt að leggja hann til grundvallar um að Í hafi gerst brotlegur við jafnréttislög. Í niðurstöðu dómsins kom fram að þar sem Í hefði ekki krafist ógildingar úrskurðarins fyrir dómstólum verði talið að úrskurðurinn sé bindandi fyrir aðila málsins. Hafði úrskurðurinn því réttaráhrif samkvæmt efni sínu og var ekki á færi dómsins að breyta efni hans í því máli sem hér var til úrlausnar. Dómurinn taldi því að leggja yrði til grundvallar við úrlausn málsins, að við setningu í stöður aðstoðaryfirlögregluþjóna við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefði innanríkisráðherra brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008. Að þessari niðurstöðu virtri tók dómurinn næst til úrlausnar hvort Í væri skaðabótaskyldur gagnvart G vegna stöðuveitinganna og hvort G ætti rétt á miskabótum úr hendi Í vegna brots gegn lögum nr. 10/2008. Í dómnum sagði um þetta atriði að samkvæmt 31. gr. laga nr. 10/2008 væri sá sem af ásettu ráði eða vanrækslu bryti gegn lögunum skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum. Enn fremur sagði að dæma mætti hlutaðeigandi til að greiða þeim sem misgert er við, auk bóta fyrir fjártjón ef því er að skipta, bætur vegna miska. G reisti kröfu sína um skaðabætur á því að hún hefði með réttu átt að vera með fleiri stig en tveir af þeim sem settir voru í stöðurnar. Þar af leiðandi hefði nægilegar líkur verið leiddar að því að ef ráðningin hefði verið í samræmi við þær reglur sem um málsmeðferðina giltu hefði G verið sett í eina af þeim þremur stöðum sem auglýstar voru. Um þetta sagði í dómnum að líta yrði til þess að G var ein af tuttugu fimm umsækjendum sem metnir voru nægilega hæfir til að komast í fyrsta viðtal. Eftir að niðurstöður út fyrsta viðtali lágu fyrir valdi hæfnisnefndin tíu umsækendur, sem hún taldi nægilega hæfa, til að fara í annað viðtal. G var ekki þar á meðal. G hlaut í fyrsta starfsviðtali 24 stig, en þeir er komust í annað starfsviðtal þurftu að hljóta 29 stig. Eftir viðtal númer tvö valdi hæfnisnefndin fimm umsækjendur, sem hún taldi nægilega hæfa, til að fara í þriðja og síðasta viðtalið. Úr hópi síðustu fimm umsækjendanna voru þrír settir í hinar auglýstu stöður. Eftir almennum reglum ber G sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi átt lögvarinn rétt til setningar í hinar umþrættu stöður umfram aðra umsækjendur. Við meðferð máls G fyrir kærunefnd jafnréttismála viðurkenndi Í að G hefði fengið of fá stig í stigagjöfinni í tilgreindum tilvikum. Að því er reynslu af samstarfi við hagsmunaaðila í spurningu 3 varðar fékk G fjögur stig hjá hæfnisnefndinni en Í kveður G með réttu hafa átt að fá fimm stig. Að því er stjórnunarstörf og reynslu á því sviði varðar fékk G þrjú stig hjá hæfnisnefndinni en Í féllst á fyrir kærunefndinni að G hefði átt að fá fjögur stig. Loks fékk G fjögur stig í spurningu nr. 9 um rekstur og aðkomu að áætlanagerð en Í viðurkenndi fyrir kærunefndinni að G hefði átt að fá fimm stig. G hefði því borið að fá 27 stig eftir starfsviðtalið. Að auki hefur Í viðurkennt að starfsviðtal hefði haft of mikið vægi í ráðningarferlinu og því ekki nægjanlegt tillit tekið til fyrirliggjandi gagna um umsækjendur. Allt eru þetta þættir sem Í hefur viðurkennt sem mistök við ráðningarferlið eftir að sett var í hinar auglýstu stöður. Að mati dómsins voru fleiri þættir sem telja verður annmarka á ráðningarferlinu. Þannig var sérstaklega horft til þess varðandi mat á almennri og sérstakri menntun hvort umsækjendur hefðu lokið stjórnendanámi við Lögregluskóla ríkisins. Óumdeilt er að nám þetta hefur ekki verið í boði fyrir starfsmenn innan lögreglunnar frá árinu 2007. Með því að leggja slíkt vægi á nám sem ekki er lengur í boði fyrir lögreglumenn er umsækjendum mismunað á ómálefnalegan hátt. Fram kom í dómnum að dómstólar og umboðsmaður Alþingis hafa á liðnum árum í málum er varða stöðuveitingar hins opinbera lagt til grundvallar að veitingarvaldshafi hafi ákveðið svigrúm við ráðningu og skipun í opinber störf. Þannig sé ákveðið svigrúm til staðar er kemur að því að meta hæfisskilyrði umfram hin almennu hæfisskilyrði, þegar gera þarf upp á milli hæfra umsækjenda um starf. Þau sjónarmið sem að baki ráðningum búi þurfi að vera málefnaleg og í eðlilegum tengslum við viðkomandi starf. Þá þurfi forsvaranlegar ályktanir að vera dregnar af fyrirliggjandi upplýsingum, en ávallt sé til staðar ákveðið efnislegt mat þegar kemur að samanburði á hæfni umsækjenda. Hafi stjórnvald aflað sér fullnægjandi upplýsinga til þess að geta lagt mat á hvernig einstakir umsækjendur falli að þeim málefnalegu sjónarmiðum sem ákvörðun byggist á og sýnt fram á að heildstæður samanburður hafi farið fram í ljósi þeirra, njóti stjórnvöld töluverðs svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur til að gegna starfi. Að öðru leyti en varðandi þá annmarka er hér að framan voru tíundaðir á störfum og mati hæfnisnefndarinnar verður talið að hæfnisnefndin hafi haft fullnægjandi upplýsingar yfir að ráða við mat og samanburð á hæfni einstaka umsækjenda. Þá verður ekki talið að þær áherslur er nefndin miðaði við hafi verið fyrir utan það svigrúm sem veitingavaldshafinn hefur eða verið ómálefnalegar þegar litið er til þeirra starfa er um ræddi. Eins og mál þetta er lagt fyrir dómstóla, að því er kröfu G um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varðar, taldi dómurinn að ekki verði fullyrt að G hafi borið setning í hinar umþrættu stöður, umfram þá tíu umsækjendur sem komust í annað starfsviðtal. Leiðir sú niðurstaða af þeirri staðreynd að fyrir dóminn eru ekki lögð gögn svo unnt sé að meta hæfni þeirra umsækjenda annarra er komust í tíu manna úrtakið og hvort einhver þeirra umsækjenda hefði með réttu átt að fá fleiri stig en hæfnisnefndin veitti viðkomandi. Af þeirri ástæðu var dóminum ómögulegt að slá því föstu hvort G hefði átt að fá eina af hinum auglýstu stöðum til setningar, þrátt fyrir að hæfnisnefnd hafi mismunað G á ómálefnalegan hátt, í samanburði við þá umsækjendur er settir voru í stöðurnar. Af þessu leiddi að G tókst ekki að sýna fram á að hún hafi orðið fyrir tjóni á þeim grundvelli að hún hafi beðið fjártjón við að fá ekki setningu í stöðuna. Var Í því sýknaður af skaðabótakröfu G. Af þeirri niðurstöðu leiddi jafnframt að G hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr öðrum málsástæðum að baki skaðabótakröfunni, svo sem um ætlað vanhæfi eins nefndarmanns hæfnisnefndarinnar, að innanríkisráðherra hafi ekki verið heimilt að framselja mat sitt á hæfni umsækjenda til hæfnisnefndar, að hæfnisnefndin hafi gert strangari kröfur til umsækjenda en fram komu í auglýsingu um starfið eða að hæfnisnefndin hafi ekki skráð nægjanlega niður þau atriði sem fram komu í viðtali við hvern og einn umsækjenda. Krafa G um miskabætur byggðist á því að í ráðningarferlinu hefði verið gert lítið úr allri starfsreynslu hennar og menntun og hún beitt mismunun, en í því hafi falist meingerð gegn æru hennar og persónu, sbr. 31. gr. laga nr. 10/2008 og b-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993. Að þeirri niðurstöðu var komist í úrskurði kærunefndar jafnréttismála í júní 2015 að Í hafi, í ráðningarferlinu, mismunað G á grundvelli kynferðis hennar og þannig brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Taldi dómurinn slíkt brot almennt til þess fallið til að valda þeim sem fyrir slíkri mismunun verður miska. Í ljósi þess hvernig brotið var gegn G í málinu taldi dómurinn að skilyrði 31. gr. laga nr. 10/2008 væru uppfyllt til þess að dæma G miskabætur. Að mati dómsins þóttu miskabætur hæfilega ákveðnar 800.000 krónur.

12. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. apríl 2017 í máli nr. E-240/2016: J gegn íslenska ríkinu.

STARFSLOK. LAUN. YFIRVINNA. BAKVAKT.

J starfaði sem umsjónarmaður á Bessastöðum frá því í janúar 2010 til ágústloka 2014. J sagði starfi sínu lausu í maí 2014. Ráðningarsamningur á milli aðila var undirritaður í desember 2009 og samkvæmt honum var J ráðinn til að starfa í dagvinnu en fékk auk þess fastar yfirvinnugreiðslur, 50 yfirvinnustundir á mánuði, sem alla jafna var ætlað að taka til allrar yfirvinnu sem J ynni. Þar að auki skyldi greiða yfirvinnukaup vegna vinnu á stórhátíðum. Í greinargerð J var tekið fram að til viðbótar hafi J verið greiddir viðbótaryfirvinnutímar. Í ráðningarsamningnum var SFR tilgreint sem stéttarfélag og þá sagði að um launagreiðslur, launaflokk, starfsaldur til launa og önnur starfskjör færi eftir því sem í samningnum greindi og samkvæmt kjarasamningi þess stéttarfélags sem í honum væri tilgreint.
Í stefnu var því lýst að við undirritun ráðningarsamnings hefði J verið tjáð að hann þyrfti að sinna bakvöktum utan dagvinnutíma, auk þess sem hann þyrfti að vera á bakvakt aðra hverja helgi að meðaltali. J hafi verið lofað því, að bakvaktakvöðin yrði lítt íþyngjandi en fælist aðallega í að fylgjast með boðum frá öryggiskerfum sem bærust sjaldan. Eingöngu yrði nauðsynlegt að J hefði náttstað á Bessastöðum meðan á vöktum stæði en hann hefði að öðru leyti fullt ferðafrelsi innan höfuðborgarsvæðisins. J sagði að svo hafi hins vegar ekki orðið raunin, heldur hefðu bakvaktir íþyngt honum mjög og hefði vinnuskyldu hans í raun aldrei lokið, auk þess sem J hefði þegar frá leið jafnframt verið gert að hlaupa í skarðið fyrir bílstjóra forsetans. Í málinu lá fyrir starfslýsing umsjónarmanns á Bessastöðum þar sem segir að hann hefði starfsstöð í vaktmiðstöð í Norðurhúsi á Bessastöðum og að búsetukvöð fylgi starfinu. Jafnframt var þar tiltekið að vinnutími umsjónarmanns tæki almennt mið af daglegri starfsemi staðarins og að umsjónarmaður skyldi auk þess vera til taks eftir því sem með þyrfti og óskað yrði eftir af forseta eða öðrum í hans umboði, utan hefðbundins vinnutíma, t.d. í tengslum við fundi og móttöku gesta. Þá kom einnig fram í starfslýsingunni að umsjónarmaður skyldi vera á svokallaðri boðvakt og sinna akstri fyrir embætti forseta Íslands eftir nánara samkomulagi. Í auglýsingu um starf umsjónarmanns á Bessastöðum frá því í september 2009 sagði um starfssvið hans eftirfarandi: „Umsjónarmaður skal annast almenna vörslu, eftirlit og daglega umsjón með húsakosti, lóð og landareign á Bessastöðum sem og tæknikerfum og lagnarýmum. Þá þarf umsjónarmaður að geta sinnt fjölþættum verkefnum fyrir embætti forseta Íslands, svo sem akstri, og tekið þátt í undirbúningi og framkvæmd viðburða á Bessastöðum. Nauðsynlegt er að umsækjandi hafi meirapróf, hæfni í meðferð tölvuvæddra hús- og öryggiskerfa og vald á enskri tungu. Umsjónarmanni ber að hafa fasta búsetu í íbúð sem honum er ætluð á Bessastöðum.“ J gerði á starfstímanum ýmsar athugasemdir við vinnufyrirkomulag og önnur kjör. Í niðurstöðu dómsins kom m.a. fram að af framlögðum gögnum og skýrslum J og vitna fyrir dóminum væri upplýst að J hefði viðveruskyldu allan sólarhringinn á Bessastöðum, að frádreginni annarri hverri helgi og að frádregnum þeim tíma þegar J var í orlofi. Sú viðveruskylda var í gildi á ráðningartíma J sem umsjónarmanns á Bessastöðum. Taldi dómurinn ráða yrði af starfsskyldum J að hann hafi átt að vera til taks á staðnum, m.a. við vöktun á öryggiskerfi staðarins, og að hann hafi jafnframt þurft að vera reiðubúinn til að sinna útköllum starfs síns vegna. Viðveruskyldan var í gildi utan hefðbundins dagvinnutíma og tilfallandi yfirvinnu, sem sýnt þótti að hafi meðal annars verið fólgin í akstursverkefnum fyrir forseta, auk þátttöku í viðburðum á Bessastöðum utan dagvinnutíma. Var það mat dómsins, að þegar litið væri til lýsingar J á starfsskyldum hans, vætti vitna sem studdu lýsingar hans á viðveruskyldu og framlögðum gögnum, að viðveruskylda og vinnutilhögun J sem ráðsmanns að því er hana varðar, sýni að J var skylt að vera tiltækur á Bessastöðum utan venjulegs vinnutíma og viðbúinn að sinna útkalli ef þess gerðist þörf. Það er mat dómsins að skilgreining greinar 2.5.1 í þágildandi kjarasamningi SFR og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs þar sem segir að „með bakvakt [sé] átt við að starfsmaður sé ekki við störf en reiðubúinn til að sinna útkalli“ taki samkvæmt orðanna hljóðan til umþrætts vinnuframlags stefnanda á ráðningartíma hans. Í ljósi alls taldi dómurinn að leggja yrði til grundvallar að J hefði sinnt bakvöktum í störfum sínum fyrir forsetaembættið og ætti hann því rétt á greiðslu fyrir þær samkvæmt fyrirmælum þágildandi kjarasamnings um bakvaktaálag af dagvinnukaupi, sbr. grein 1.6.2 í kjarasamningnum. Óumdeilt var og ljóst af ráðningarsamningi að J var í launaflokki 631-029-6, svo sem lýst er í málatilbúnaði beggja aðila. Með vísan til þess taldi dómurinn ekki unnt að fallast á það með Í, að umræddar bakvaktir hafi fallið innan starfsskyldna J, eins og þeim var lýst í ráðningarsamningi, sem greitt hafi verið fyrir með fastri mánaðarlegri greiðslu fyrir 50 yfirvinnustundir. Var það niðurstaða dómsins að taka bæri kröfu J til greina eins og hún var sett fram í endanlegri kröfugerð hans.

13. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. apríl 2017 í máli nr. S-893/2016: Ákæruvaldið gegn X, Y, og Z.

BROT Í OPINBERU STARFI. ÞAGNARSKYLDA. SPILLING.

X var ákærður fyrir brot gegn þagnarskyldu í starfi sínu sem lögreglumaður og Y fyrir hlutdeild í þeim brotum. Jafnframt voru X og Y ákærðir fyrir spillingu auk þess sem X var ákærður fyrir brot í opinberu starfi og Y fyrir fíkniefnabrot og brot á vopnalögum. Z var ákærður fyrir spillingu ásamt X. Niðurstaða dómsins var sú að X var fundinn sekur fyrir brot gegn þagnarskyldu í starfi og Y fyrir hlutdeild í þeim brotum. Jafnframt var X fundinn sekur um spillingu og brot í opinberu starfi og Y fyrir fíkniefnabrot og brot á vopnalögum. Z var hins vegar sýknaður í málinu.

14. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. maí 2017 í máli nr. E-1245/2016 (óbirtur): A, B, B, K og S gegn íslenska ríkinu.

LAUN Í VERKFALLI. HLUTASTARF Í VAKTAVINNU.

Ágreiningur aðila laut að því hvernig reikna bæri laun í verkfalli hjá starfsmönnum sem vinna hlutastarf í vaktavinnu. Stefnendur voru allar félagsmenn í Ljósmæðrafélaginu og störfuðu allar á Landspítalanum. Þegar laun viðkomandi voru greidd í byrjun maímánuðar 2015 beitti Í þeirri reiknireglu sem fylgt hefur verið í verkföllum opinberra starfsmanna og fram koma í dreifibréfi nr. 6/2001 um launagreiðslur í verkfalli. Launaútreikningurinn byggðist á túlkun Í á frádráttarheimildum og útreikningi á því hversu háu hlutfalli launa skyldi halda eftir þar eð verkfall Ljósmæðrafélagsins tók ekki til allra daga vikunnar, heldur einungis til þriggja daga í senn. Í byggð á því að beita ætti frádrætti á þann hátt að deila ætti hlutfalli verkfallsdaga á viku í heildarvinnudagafjölda mánaðar samkvæmt reiknireglu í grein 1.1.2 í kjarasamningi. Félagsmenn Ljósmæðrafélagsins vildu ekki una þessari aðferð við launagreiðslu í verkfalli og töldu að Í hefði þegið vinnuframlag starfsmanna athugasemdalaust og hefði því borið að greiða laun fyrir daga sem unnir voru utan verkfalls. Það var niðurstaða dómsins að regla 1.1.2 í kjarasamningi samræmdist vel þeirri meginreglu vinnuréttar að sérhver starfsmaður eigi að fá greitt fyrir allt vinnuframlag sitt sé berum orðum hennar fylgt og taldir þeir dagar sem starfsmaðurinn sem um ræðir vinnur 21,67 daga í meðaltalsmánuði. Þegar vinnufyrirkomulag vinnu starfsmannsins er annað en regla 1.1.2 gengur út frá er ekki hægt að beita henni samkvæmt berum orðum sínum. Hins vegar verður að beita þeirri efnisreglu sem í henni býr, að greiða skuli sérhverjum starfsmanni fyrir allar unnar stundir. Þótt starfsmaður vinni ýmist 12, 9, 8, 6,5,4 tíma vaktir á þó sérhver vaktavinnumaður, sem vinnur í tilteknu starfshlutfalli, að inna sama tímafjölda af hendi í hverjum meðaltalsmánuði rétt eins og sá sem vinnur tiltekið hlutfall á virkum degi. Á þessari einföldu grundvallarforsendu má byggja útreikning á því hversu hátt hlutfall vinnuskyldu sinnar starfsmaðurinn innti af hendi á verkfallstímanum og reikna honum laun í samræmi við það. Taldi dómurinn að þegar vaktavinnufólk væri í verkfalli verði ekki vikið frá þeirri meginreglu vinnuréttar að það fái greitt fyrir alla þá vinnu sem það hefur innt af hendi. Var Í því gert að greiða stefnendum vangoldin laun vegna vinnu þeirra í apríl, maí og júní 2015. Máli þessu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 614/2017.

15. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. júní 2017 í máli nr. E-3058/2016: Ó gegn íslenska ríkinu.

UMSÓKN UM STARF. HÆFNISMAT. JAFNRÉTTI.

Ó var ráðinn í starf lögfræðings hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála í mars 2002. Í október 2005 var Ó gerður að yfirlögfræðingi nefndarinnar og staðfengill forstöðumanns. Ó hóf síðan störf hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála við stofnun nefndarinnar í janúar 2012, en nefndin tók m.a. yfir hlutverk úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Með bréfi í ágúst 2013 var Ó settur til að gegna stöðu forstöðumanns nefndarinnar frá júlí 2013 til og með loka desember 2013, á meðan á leyfi forstöðumanns nefndarinnar stóð. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsti í september 2013 lausa til umsóknar stöðu forstöðumanns úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ó sótti um stöðu forstöðumannsins. Í auglýsingunni kom fram að umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði í stöðuna til fimm ára frá 1. janúar 2014 að telja. Skyldi forstöðumaður stýra starfi úrskurðarnefndarinnar og bera ábyrgð á fjárhag hennar og daglegum rekstri. Forstöðumaðurinn skyldi jafnframt vera formaður úrskurðarnefndarinnar. Væri hann í forsvari fyrir nefndina út á við, ákvarðaði hvernig nefndin væri skipuð í hverju máli og réði annað starfsfólk til nefndarinnar. Í auglýsingunni voru gerðar þær menntunar- og hæfniskröfur að viðkomandi hefði lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið yrði því jafngilt, starfsgengisskilyrði héraðsdómara, sbr. 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, hefði stjórnunarreynslu, leiðtogahæfileika og færni í mannlegum samskiptum, öguð og skilvirk vinnubrögð, hæfni til að vinna undir álagi og mjög gott vald á íslensku í ræðu og riti. Fyrirtækið Capacent var fengið til þess að aðstoða við ráðningarferlið. Áður en starfið var auglýst fór fram greining á starfi og lykilhæfnisþáttum. Var útbúinn matsrammi, þar sem tilteknir hæfnisþættir voru ákveðnir. Umsækjendur voru síðan metnir út frá þessum tilgreindu þáttum og hlutu þeir stig fyrir hvern þátt. Umsækjendur voru fyrst metnir á grundvelli umsókna þeirra miðað við menntunar- og hæfniskröfur sem gerðar voru í auglýsingu. Vægi grunnmatsins var 33% af heildarmati. Embættis- eða meistarapróf í lögfræði eða jafngildri grein hafði 5% vægi, reynsla sem nýttist í starfi 5%, starfgengisskilyrði héraðsdómara 8%, stjórnunarreynsla 10% og tungumálakunnátta 5%. Við stigagjöf var mest hægt að hljóta 5 stig fyrir hvern hæfnisþátt. Fjórir sóttu um stöðuna og voru Ó og A þar á meðal. Þegar kom að úrvinnslu umsókna hlaut einn umsækjenda flest stig eftir grunnmatið. A var í öðru sæti úr grunnmati og Ó í því þriðja. Þótti A standa stefnanda framar hvað varðaði tungumálakunnáttu. Bæði fengu þau 3 stig fyrir reynslu sem nýttist í starfi forstöðumanns en 3 stig fengust ef viðkomandi hafði verið ábyrgur fyrir daglegum rekstri í 1 til 3 ár. Bæði hlutu þau síðan 3 stig fyrir stjórnunarreynslu. Allir umsækjendur voru teknir í forviðtöl en auk þess voru þrír umsækjendur, sem metnir voru hæfastir, boðaðir í tvö önnur starfsviðtöl. Vægi forviðtalsins var 4% af heildarmati, annars viðtals 10% og þriðja viðtals 10%. Ó hlaut 4 stig af 5 mögulegum í forviðtali og lenti þar í þriðja sæti af umsækjendum. Í öðru og þriðja viðtali hlaut hann 3,5 stig og var þar síðastur af þremur umsækjendum. A hlaut hins vegar flest stig af umsækjendum í öllum þremur starfsviðtölunum. Í viðtölum var notast við fyrirfram ákveðnar spurningar sem byggðu á menntunar- og hæfniskröfum og lýsingu á starfssviði sem fram kom í auglýsingu um starfið. Tekin var sú ákvörðun að leggja fyrir umsækjendur hæfnisprófið ,,Inductive Reasoning“ til að mæla hugræna hæfni þeirra. Einnig var ákveðið að leggja á sama tíma fyrir persónuleikamat OPQ32, eða ,,Occupational Personality Questionnaire 32“ sem er sjálfsmat umsækjenda sem metur 32 starfstengda eiginleika. Starf forstöðumanns nefndarinnar var hæfnisgreint og þóttu eftirtaldir hæfnisþættir nauðsynlegir til að ná árangri í starfi forstöðumanns: 1) ákvörðunartaka og frumkvæði, 2) samvinna, 3) skipulag og áætlanir, 4) álags- og streituþol, 5) lærdómur og rannsóknir, 6) mætir þörfum og væntingum viðskiptavina. Niðurstöður úr persónuleikamati Ó þóttu gefa til kynna að af sex hæfnisþáttum væru tveir líklegir til að vera styrkleikar, það er ákvarðanataka og frumkvæði og álags- og streituþol. Hinir fjórir þóttu líklegir til að vera veikleikar. Niðurstöður mats A þóttu gefa til kynna að fjórir hæfnisþættir væru líklegir til að vera styrkleikar, það er skipulag og áætlanir, mætir þörfum og væntingum viðskiptavina, ákvarðanataka og frumkvæði og álags- og streituþol. Hinir hæfnisþættirnir voru þó ekki taldir ólíklegir til að vera styrkleikar. Ó hlaut 2,8 stig úr persónuleikamati en A 4 stig. Niðurstöður úr hæfnisprófinu voru þær að A hlaut flest stig, það er 2,35 stig og Ó 2,3 stig. Niðurstöður þeirra beggja voru í meðaltali samanburðarhóps. Að lokum var stjórnsýsluverkefni lagt fyrir þrjá hæfustu umsækjendurna. A hlaut næstflest stig fyrir úrlausn verkefnisins, það er 3,25 stig og var Ó þriðji með 2,5 stig af 5 mögulegum. Að loknu ráðningarferli var A ráðin í starfið, en hún hlaut flest stig og var skipuð forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í niðurstöðu dómsins kom m.a. fram að dómstólar og umboðsmaður Alþingis hafi á liðnum árum í málum er varða stöðuveitingar hins opinbera lagt til grundvallar að veitingarvaldshafi hafi ákveðið svigrúm við ráðningu og skipun í opinber störf. Þannig sé ákveðið svigrúm til staðar er kemur að því að meta hæfisskilyrði umfram hin almennu hæfisskilyrði, þegar gera þurfi upp á milli hæfra umsækjenda um starf. Þau sjónarmið sem að baki ráðningum búi þurfi að vera málefnaleg og í eðlilegum tengslum við viðkomandi starf. Þá þurfi forsvaranlegar ályktanir að vera dregnar af fyrirliggjandi upplýsingum, en ávallt sé til staðar ákveðið efnislegt mat þegar kemur að samanburði á hæfni umsækjenda. Hafi stjórnvald aflað sér fullnægjandi upplýsinga til þess að geta lagt mat á hvernig einstakir umsækjendur falli að þeim málefnalegu sjónarmiðum sem ákvörðun byggist á og sýnt fram á að heildstæður samanburður hafi farið fram í ljósi þeirra, njóti stjórnvöld töluverðs svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur til að gegna starfi. Í niðurstöðu dómsins var ráðningarferlið rakið en dómurinn taldi að Ó hefði ekki tekist að leiða í ljós þá staðhæfingu sína að hann hefði a.m.k. verið jafnhæfur til starfa forstöðumannsins eins og A, sem best þótti standa sig í viðtölum og prófum. Í því kom samanburður hennar við Ó fram. Komu því ekki til álita málsástæður Ó byggðar á lögum nr. 10/21008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, og lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks. Var Í sýknað af öllum kröfum Ó.

16. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. september 2017 í máli nr. E-1922/2017: Á gegn íslenska ríkinu.

UMSÓKN UM EMBÆTTI. HÆFNISNEFND. HÆFNISMAT.

Á gerði kröfu um að viðurkenndur yrði réttur hans til skaðabóta úr hendi Í vegna þess tjóns sem ákvörðun dómsmálaráðherra um að leggja ekki til að Á yrði skipaður í stöðu dómara við Landsrétt. Jafnframt krafðist Á þess að viðurkenndur yrði réttur hans til skaðabóta vegna þess tjóns sem ákvörðun dómsmálaráðherra um að leggja til við forseta Íslands að Á yrði ekki meðal þeirra 15 sem skipaðir voru í starf dómara við Landsrétt. Á gerði einnig kröfu um miskabætur. Í dómnum kemur fram að mat hæfnisnefndarinnar hafi verið haldið efnislegum annmörkum og hafnaði dómurinn því kröfu Á um að leggja matið til grundvallar dómsniðurstöðu. Dómurinn taldi þannig ekki sannað að Á hefði verið meðal 15 hæfustu umsækjenda. Dómurinn taldi að vegna þessara efnislegu annmarka hefði ráðherra átt að óska eftir nýju áliti dómnefndarinnar. Þá er komist að þeirri niðurstöðu í dómnum að tillaga ráðherra hafi hvorki bitnað á orðspori né æru Á og var miskabótakröfu hafnað. Máli þessu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 591/2017.

17. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. september 2017 í máli nr. E-2014/2017: J gegn íslenska ríkinu.

UMSÓKN UM EMBÆTTI. HÆFNISNEFND. HÆFNISMAT.

J gerði kröfu um að viðurkenndur yrði réttur hans til skaðabóta úr hendi Í vegna þess tjóns sem ákvörðun dómsmálaráðherra um að leggja ekki til að J yrði skipaður í stöðu dómara við Landsrétt. Jafnframt krafðist J þess að viðurkenndur yrði réttur hans til skaðabóta vegna þess tjóns sem ákvörðun dómsmálaráðherra um að leggja til við forseta Íslands að J yrði ekki meðal þeirra 15 sem skipaðir voru í starf dómara við Landsrétt. J gerði einnig kröfu um miskabætur. Í dómnum kemur fram að mat hæfnisnefndarinnar hafi verið haldið efnislegum annmörkum og hafnaði dómurinn því kröfu J um að leggja matið til grundvallar dómsniðurstöðu. Dómurinn taldi þannig ekki sannað að J hefði verið meðal 15 hæfustu umsækjenda. Dómurinn taldi að vegna þessara efnislegu annmarka hefði ráðherra átt að óska eftir nýju áliti dómnefndarinnar. Þá er komist að þeirri niðurstöðu í dómnum að tillaga ráðherra hafi hvorki bitnað á orðspori né æru J og var miskabótakröfu hafnað. Máli þessu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 592/2017.

18. Dómur Hæstaréttar frá 21. september 2017 í máli nr. 650/2016: Ö gegn íslenska ríkinu.

NIÐURLAGNING STÖÐU. BIÐLAUN.

Ö starfaði sem yfirlæknir heilsugæslunnar hjá HV. Í kjölfar sameiningar HV og HP undir heiti hinnar fyrrnefndu var Ö tilkynnt að ákveðið hefði verið að leggja niður starf hans frá og með 1. janúar 2015. Naut Ö biðlauna frá þeim degi til 31. desember sama ár. Í málinu krafðist Ö í fyrsta lagi að viðurkennt yrði að niðurlagning starfs hans hefði verið ólögmæt. Í öðru lagi krafðist hann greiðslu vegna svokallaðra gæsluvakta sem hann taldi sig eiga rétt til á biðlaunatímanum. Í þriðja lagi krafðist hann miskabóta vegna ólögmætrar niðurlagningar starfsins. Hæstiréttur vísaði viðurkenningarkröfu Ö frá héraðsdómi með vísan til þess að Ö hefði ekki lögmæta hagsmuni af því að fá sérstaka úrlausn um kröfuna, enda yrði að leggja mat á ólögmæti niðurlagningarinnar kæmi til þess að taka þyrfti afstöðu til kröfu hans um miskabætur. Að því er varðaði rétt Ö til greiðslu fyrir gæsluvaktir vísaði Hæstiréttur meðal annars til þess að samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skyldi Ö halda „óbreyttum launakjörum“ á biðlaunatímanum. Gæsluvaktir hefðu verið óháðar vinnuframlagi Ö og yrðu þær því lagðar að jöfnu við samninga um fastar yfirvinnugreiðslur óháð vinnuframlagi sem í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefðu verið taldar falla undir biðlaun. Var því fallist á kröfu Ö um greiðslu vegna þeirra. Kröfu Ö um miskabætur var á hinn bóginn vísað frá héraðsdómi með vísan til þess að hún væri í þversögn við kröfu hans um leiðréttingu á biðlaunum.

19. Dómur Héraðsdóms Suðurlands frá 28. september 2017 í máli nr. S-91/2017: Ákæruvaldið gegn X.

BROT Í OPINBERU STARFI.

X var ákærður fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi sem fangavörður, með því að hafa farið offari og ekki gætt lögmætra aðferða er X hugðist slökkva eld í fangaklefa þar sem refsifanginn A var vistaður. Strax eftir að X hafði slökkt eldinn sprautað hann úr léttvatnsslökkvitæki í andlit og bringu A í um þrjár sekúndur. Niðurstaða dómsins var sú að X var sýknaður í málinu.

20. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. september 2017 í máli nr. E-3646/2016: S gegn Ríkissjóði Íslands.

LAUSN UM STUNDARSAKIR. RANNSÓKNARREGLA. MEÐALHÓF. ÍÞYNGJANDI ÁKVÖRÐUN. MÁLEFNALEG SJÓNARMIÐ. VINNUSKYLDA.

Á árinu 2002 hóf S störf hjá ávana- og fíkniefnadeild sem rannsóknarlögreglumaður. Eftir að S hafði starfað í nokkurn tíma við langtímarannsóknir í ávana- og fíkniefnadeild var starfssviði hans breytt. Eftir breytinguna fólst starf hans eingöngu í að starfa í svokölluðu upplýsingateymi deildarinnar. Hlutverk upplýsingateymisins var að koma á tengslum við aðila, sem voru taldir búa yfir upplýsingum sem gætu nýst við lögreglurannsóknir, afla upplýsinga og koma þeim áfram til þeirra lögreglumanna sem mögulega gætu nýtt þær. Af einhverjum ástæðum hafi farið af stað orðrómur um að S ætti í óeðlilegu sambandi við upplýsingagjafa deildarinnar. Orðrómurinn um óeðlileg samskipti S við tiltekinn upplýsingagjafa hafi komist á flug síðla árs 2010 eða í byrjun árs 2011. Yfirmaður S ákvað að skoða málið og tók saman minnisblað um athugun sína þar sem fram kom að hann bæri 100% traust á samskiptum S við upplýsingagjafa. Var minnisblaðið kynnti yfirstjórn LRH. Vorið 2015 fóru sögusagnir um S af stað af nýju. Fór það svo að ríkissaksóknari tók þá ákvörðun í desember 2015 að hefja sakamálarannsókn á ætluðum brotum S og óskaði eftir liðsinnis ríkislögreglustjóra. Ríkislögreglustjóri sendi í janúar 2016 héraðssaksóknara málið til viðeigandi meðferðar og var LRH send tilkynning um rannsóknina 11. janúar 2016. Þrem dögum síðar var S tilkynnt á fundi að honum væri veitt lausn frá embætti um stundarsakir. S kærði þá ákvörðu til innanríkisráðuneytisins sem úrskurðaði að ákvörðunin væri ólögmæt þar sem lögreglustjóri hefði ekki gætt meðalhófssjónarmiða við meðferð málsins og vandaði ekki undirbúning og meðferð ákvörðunarinnar líkt og ber skv. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í niðurstöðu héraðsdóms var það niðurstaðan að yfirstjórn LHR hefði gengið of langt gagnvart S þegar ákveðið var að veita honum lausn um stundarsakir og að sú ákvörðun hafi verið ólögmæt. Rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar hafi ekki verið gætt sem skyldi og heldur ekki andmælaréttar S. Jafnframt hefði meðalhófs ekki verið gætt í ljósi atvika málsins og þá einkum þeirrar staðreyndar að engin afgerandi gögn sem ekki var auðveldlega hægt að hnekkja komu fram í málinu frá því að orðrómur fæddist um áramótin 2010/2011, um að S væri ekki allur þar sem hann væri séður og reyndar gjörspilltur, og þar til ákvörðun um lausn var tekin. Kröfur um að gæta meðalhófs verða enn meiri og strangari þegar um jafn íþyngjandi ákvörðun er að ræða. Það undirstrikaði að mati dómsins að ákvörðunin var ólögmæt að jafnvel eftir lausn og mjög ítarlega rannsókn héraðssaksóknara varð engu við bætt. Þvert á móti kváðu rannsakendur þar margar ávirðingar á hendur S óskiljanlegar og óútskýrt væri hvernig þær rötuðu inn í málið og gætu varðað starfsskyldur hans. Dómurinn taldi því að ekki hefði verið sýnt fram á að málefnaleg sjónarmið hefðu verið lögð til grundvallar þegar ákvörðunin var tekin, heldur hefðu aðstæður og ástand á vinnustaðnum og persónuleg óvild nokkurra starfsmanna í garð S verið nokkur drifkraftur þar. Ekki væri nægjanlegt að byggja ákvörðun sem þessa á orðrómi þótt ásakanir væru vissulega alvarlegar. Dómurinn taldi og að yfirstjórn LHR hefði hæglega, í ljósi málsatvika, getað réttlætt það og rökstutt að S héldi þáverandi starfi sínu og vammleysiskröfur sem vissulega eru gerðar til lögreglunnar hafi ekki staðið því í vegi. Jafnframt kom fram að ef yfirstjórn LHR teldi með öllu útilokað að S væri áfram sýnilegur í störfum sínum fyrir lögregluna þá hefði sá kostur einnig verið fær að leysa hann undan vinnuskyldu meðan á rannsókn stæði án þess að um lausn samkvæmt 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga um stundarsakir væri að ræða, eins og dæmi munu vera um. Því var það niðurstaða dómsins að ákvörðun yfirstjórnar LHR um að víkja S frá störfum um stundarsakir hafi í senn verið óþörf og ólögmæt. Ákvörðunin var án nokkurs vafa til þess að gefa á þeim tíma mjög alvarlegum ásökunum samstarfsmanna embættisins á hendur S byr undir báða vængi og valda honum miklum álitshnekki og andlegri vanlíðan. Ákvörðunin fól því í sér ólögmæta meingerð gegn æru og persónu S og voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og var R dæmt til að greiða S miskabætur.

21. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. október 2017 í máli nr. E-2233/2016: B gegn Ríkissjóði Íslands.

VANGOLDIN LAUN. GÆSLUVAKTIR LÆKNA. LAUNASETNING. JAFNRÆÐI.

B krafðist greiðslu vangoldinna launa fyrir gæsluvaktir. Taldi B að sér hafi borið vaktlaun í álagsflokki 40-49% en til vara að sér hafi borið vaktlaun í álagsflokki 30-39%, til samræmis við lækna í öðrum umdæmum Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Taldi B engin málefnaleg rök fyrir því að vaktir heilsugæslulækna innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands hafi verið í ólíkum álagsflokkum og hafi það fyrirkomulag brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, samnefndri meginreglu stjórnsýsluréttar og réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Vegna þessa taldi B að hann ætti kröfu á hendur R sem næmi mismun greiðslna eftir álagsflokkum. Fram kom í niðurstöðu dómsins að í málinu var óumdeilt að greiðslur til B fyrir gæsluvaktir voru í samræmi við gildandi kjarasamning og umsamin launakjör samkvæmt ráðningarsamningi B við Heilbrigðisstofnun Austurlands. Sú staðreynd að samið var við tiltekna heilsugæslulækna Heilbrigðisstofnunar Austurlands um hærra álagsþrep en 0-9% auk greiðslna fyrir gjaldskrárverk, þrátt fyrir ákvæði í bókun 1 í þágildandi kjarasamningi, og þar með laun umfram lágmarksrétt leiddi ekki eitt og sér, að virtum stjórnunarheimildum vinnuveitanda, til þess að B ætti rétt til sömu launa fyrir störf sín. Þvert á móti þótti dómnum fram komið í málinu, að virtum málsgögnum og skýrslum vitna við aðalmeðferð málsins og í máli B sjálfs, að aðstæður í læknisumdæmum stofnunarinnar væru um margt ólíkar og að til þess hafi verið horft við launasetningu einstakra lækna. Tókst B því ekki að mati dómsins að færa fyrir því haldbær rök né gögn að ómálefnalega hafi verið staðið að launaröðun eða að matið hafi verið óforsvaranlegt og var R sýknað af körfum B. Jafnframt sagði í dómnum að af 9. gr. laga nr. 70/1996, sbr. 24. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, leiddi að laun og önnur starfskjör sem samið er um í kjarasamningi skulu vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfi. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 70/1996 er forstöðumönnum stofnana heimilt að greiða einstökum starfsmönnum, laun til viðbótar grunnlaunum samkvæmt kjarasamningi vegna sérstakrar hæfni er nýtist í starfi eða sérstaks álags í starfi, svo og fyrir árangur í starfi. Ákvörðun forstöðumanns um laun til viðbótar grunnlaunum er unnt að segja upp hvenær sem er, að virtum uppsagnarfresti starfsmanns. Samkvæmt 42. gr. sömu laga skulu ráðningarkjör starfsmanns koma fram í skriflegum ráðningarsamningi. Launasetning B byggði á vinnuréttarsambandi og væri því einkaréttarlegs eðlis en fæli ekki í sér einhliða ákvörðun stjórnvalds um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiddi að dómurinn hafnaði þeirri málsástæðu B að brotið hefði verið gegn 11. gr. laga nr. 37/1993 við launasetningu B.

22. Úrskurður Félagsdóms frá 3. nóvember 2017 í máli nr. 4/2017 (óbirtur): Kennarasamband Íslands gegn íslenska ríkinu vegna Kvennaskólans í Reykjavík.

BÓKUN MILLI KÍ OG KVENNASKÓLANS UM FRÁVIK FRÁ 2. KAFLA KJARASAMNINGS KÍ OG RÍKISINS.

KÍ byggði á því að bókun sem það gerði við Kvennaskólan í Reykjavík fæli í sér útfærslu á kjarasamningi og hefði þar með gildi eins og kjarasamningur í skilningi laga. Í bókuninni hafi verið samið um vinnumat á grundvelli 7. gr. kjarasamnings KÍ og íslenska ríkisins. Í krafðist frávísunar. Taldi Í að krafa KÍ og ágreiningsefnið varðaði ekki þau atriði sem talin eru upp í 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, heldur einfaldlega um skuldbindingargildi samninga og af þeim sölum ætti að vísa málinu frá dómnum. Jafnframt hafnaði Í að um væri að ræða kjarasamning milli aðila eða stofnanasamning. Niðurstaða Félagsdóms var sú að vísa bæri málinu frá dómi. Fram kemur í niðurstöðu dómsins að bókunin væri gerð á milli KÍ og Kvennaskólans en hvorki mennta- og menningarmálaráðuneytið né fjármála- og efnahagsráðuneytið komu að gerð hennar og í bókuninni sé ekki vísað til þess við hvaða heimild hún styddist. Taldi dómurinn að ekki væri unnt að líta svo á að bókunin gæti talist kjarasamningur eða ígildi kjarasamnings í skilningi 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 og félli því undan lögsögu dómsins að fjalla um skuldbindingargildi bókunarinnar.
Sjá dóm Hæstaréttar frá 13. desember 2017 í máli nr. 710/2017.

23. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. nóvember 2017 í máli nr. E-33/2017 (óbirtur). M gegn íslenska ríkinu.

SKAÐABÓTAÁBYRGÐ. HLUTLÆG ÁBYRGÐ. LÖGREGLUMAÐUR. LÍKAMSTJÓN. LÍKAMSRÆKT Á VINNUTÍMA.

M var á næturvakt á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík. Á vaktinni óskaði M eftir því við yfirmann sinn að fá að fara í líkamræktaraðstöðuna á lögreglustöðinni og fékk hann leyfi yfirmanns til þess. Er M var við lyftingaræfingar hafi hann verið að gera réttstöðulyftu þegar hann fann skyndilega fyrir miklum verk í baki. Varð M að hætta æfingum þegar í stað og fann strax fyrir miklum dofa og verkjum í baki sem leiddu niður í vinstri fót og ökkla. M fann fyrir verkjum næstu daga en leitaði þó ekki strax til læknis þar sem M taldi að verkirnir myndu lagast. Það hafi þó ekki gerst og í ljós kom brjósklos hjá M. M krafði Í um bætur á grundvelli þess að Í bæri skaðabótaábyrgð á afleiðingum slyss hans á grundvelli 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og kjarasamningi Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra fyrir hönd Í. Byggði M á því að 30. gr. lögreglulaga fæli í sér hlutlæga bótaábyrgð Í á líkams- og munatjóni lögreglumanna sem þeir verða fyrir í vinnutíma og við öll störf sín. Jafnframt byggði M kröfu sína á grein 7.5 í kjarasamningi LL og Í þar sem kveðið sé á um að lögreglumenn eigi rétt til bóta fyrir meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Í hafnaði skaðabótaskyldu á slysi M þar það yrði rakið til aðstæðna sem M bæri ábyrgð á og að um óhappatilvik hafi verið að ræða. Jafnframt vísaði Í til þess að regla 30. gr. lögreglulaga um hlutlæga ábyrgð væri undantekningarregla og yrði ekki beitt nema sýnt væri fram á að gild rök væri fyrir því að hún ætti við og einnig ætti að skýra ákvæði greinar 7.5 í kjarasamningnum með hliðsjón af þeim undirstöðurökum sem búi að baki lagaákvæðinu. Í niðurstöðu dómsins kemur fram að við mat á því að 30. gr. lögreglulaganna ætti við í tilviki M yrði að leggja mat á það, hvort hann teldist hafa orðið fyrir líkamstjóni vegna starfs síns. Taldi dómurinn að framlögð gögn bæru það með sér að M teldist hafa orðið fyrir slysi eða slasast á vinnutíma. Jafnframt kom fram að ekki yrði annað ráðið af ákvæðum greina 7.5.1 og 7.5.2 en að með þeim hefði réttarstaða lögreglumanna verið bætt enn frekar og gildisvið hinnar hlutlægu reglu 30. gr. lögreglulaga víkkað með frjálsum samningum lögreglumanna við vinnuveitanda sinn. Mat dómurinn það svo að þær líkamsæfingar, sem M lagði stund á þegar hann slasaðist, verði felldar undir ástundun lögregluæfinga í skilningi greinar 7.5.2 í kjarasamningnum og taldist M því, eftir orðalagi ákvæðisins, hafa verið að störfum þegar slysið varð. Í ljósi alls sem fram kom í málinu þótti dómnum ekki ráða úrslitum þótt þessi tiltekna lögregluæfing hafi ekki verið skipulögð eða sérstaklega til hennar mælst af yfirboðara eða öðrum aðilum. Leit dómurinn svo á að uppfyllt væri skilyrði fyrir hlutlægri bótaskyldu skv. 30. gr. lögreglulaga og að M hefði orðið fyrir líkamstjóni vegna starfs síns. Var niðurstaða dómsins því sú að Í bæri skaðabótaábyrgð á tjóni M.

24. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. nóvember 2017 í máli nr. E-2203/2016: H gegn íslenska ríkinu.

UMSÓKN UM STARF. HÆFNISMAT. JAFNRÉTTI.

Starf yfirlæknis æðaskurðdeildar á Landspítala var auglýst laust til umsóknar. Í auglýsingunni kom fram að starfið yrði veitt frá 1. september 2012 eða eftir samkomulagi, til fimm ára, og um það vísað til 2. málsliðar 5. mgr. 9. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu. Þar var enn fremur vikið að helstu verkefnum og ábyrgð sem fylgdu starfinu, en þar kom fram að í því fælist fagleg ábyrgð, fjárhagsleg ábyrgð og starfsmannaábyrgð. Óskað var eftir því í auglýsingunni að umsækjendur legðu fram „vottfestar upplýsingar“ um nám, fyrri störf og reynslu af kennslu-, vísinda og stjórnunarstörfum, ásamt afriti af helstu ritsmíðum sem umsækjandi hefði ritað eða átt þátt í. Þess var og getið að stöðunefnd lækna hjá landlæknisembættinu fengi umsóknir til umfjöllunar. Þá var upplýst að viðtöl yrðu tekin við umsækjendur og að ákvörðun yrði einnig reist á þeim ásamt mati stöðunefndar á innsendum umsóknargögnum. Þrír æðaskurðlæknar sóttu um starfið, H, S og L. H starfaði þá sem sérfræðingur á æðaskurðlækningadeild Landspítalans, en L var starfandi yfirlæknir deildarinnar í forföllum ráðins yfirlæknis. Umsóknir og fylgigögn voru send stöðunefnd embættis landlæknis til umsagnar. Umsögn nefndarinnar um umsækjendur lá fyrir í ágúst 2012. Þar var fjallað um hvern umsækjanda með tilliti til menntunar, sérfræðireynslu í æðaskurðlækningum, kennslu- og stjórnunarreynslu, félagsstörfum, ritstörfum og öðru. Því næst var í umsögninni að finna samantekt um hvern umsækjanda. Niðurstaða stöðunefndarinnar var að umsækjendur væru allir hæfir til að gegna hinu auglýsta starfi. Stöðunefnd taldi ekki ástæðu til innbyrðis röðunar umsækjenda. Umsækjendur voru kallaðir í viðtöl í september 2012. H var því næst tilkynnt með bréfi framkvæmdastjóra skurðlækningasviðs í lok septembers 2012 að ákveðið hefði verið að ráða L í starfið. Með bréfi í október sama ár óskaði H eftir því að ákvörðunin yrði rökstudd. Rökstuðningur ráðningarinnar barst H með bréfi framkvæmdastjóra skurðlækningasviðs í október 2012. Umsækjandinn S kærði í apríl 2013 ákvörðun Landspítalans um ráðningu L til kærunefndar jafnréttismála. Í úrskurði kærunefndarinnar frá 26. september 2013 var komist að þeirri niðurstöðu að Landspítalinn hefði brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Landspítalinn höfðaði mál á hendur S í kjölfarið og krafðist þess að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2014 var þeirri kröfu hafnað. Landspítalinn áfrýjaði málinu til Hæstaréttar Íslands sem sýknaði S af kröfum spítalans með dómi 15. janúar 2015 í málinu nr. 364/2014. H sagði starfi sínu sem sérfræðingur á deild æðaskurðlækninga Landspítalans lausu í júní 2015. Lögmaður H ritaði Landspítalanum bréf í ágúst sama ár þar sem óskað var eftir því að spítalinn tæki afstöðu til bótaábyrgðar vegna ráðningarinnar í septemberlok 2012, en þar var vísað til niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála frá 26. september 2013 og talið að sömu sjónarmið ættu við um H. Með bréfi Landspítalans í desember 2015 var bótaskyldu hafnað. Eins og mál þetta lá fyrir taldi dómurinn að leggja yrði ályktun kærunefndar um ráðninguna í máli S til grundvallar. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar taldi dómurinn enn fremur að fallast yrði á það með H að hann hafi búið yfir lengri starfs- og stjórnunarreynslu en L og að kennslureynsla og vísindastarf H væri að nokkru leyti meira að umfangi en L. Málsvörn Í var á því reist að H hefði þrátt fyrir þetta ekki orðið fyrir miska við ráðninguna sem baki Í bótaskyldu. Í því efni vísaði Í meðal annars til aðstæðna við ráðninguna sem og að rökstuðningur ákvörðunarinnar hafi ekki verið meiðandi eða til þess fallinn að valda H sárindum. Fram kemur í niðurstöðu dómsins að engin sönnunargögn hafa verið lögð fram til stuðnings staðhæfingum H er lúta að því að ráðning L hafi valdið honum álitshnekki, kvíða og andlegum áhyggjum. Taldi dómurinn rétt að líta til þess að L var starfandi yfirlæknir æðaskurðlækningadeildar þegar hin umdeilda ákvörðun var tekin í september 2012 og hafði þá gegnt því starfi í forföllum ráðins yfirlæknis frá október 2010. H hafði þá jafnframt starfað á sömu deild sem æðaskurðlæknir undir stjórn L í eitt ár og tíu mánuði. Við ráðningu L í yfirlæknisstarfið urðu í raun engar breytingar á stöðu og högum H. H hélt áfram að starfa í tæp þrjú ár á deildinni, meðan L gegndi þar starfi yfirlæknis, uns hann sagði starfi sínu lausu árið 2015. Enn fremur taldi dómurinn að líta bæri til þess að hið lausa starf var stjórnunarstarf af faglegum toga. Í því ljósi máttu umsækjendur gera ráð fyrir að áhersla yrði lögð á ýmis önnur sjónarmið en hlutlæga þætti. Þannig hlutu þeir að ganga út frá því að litið yrði til málefnalegra atriða á borð við þau sem gerð er grein fyrir í rökstuðningi fyrir ákvörðuninni um persónulega eiginleika, þar á meðal viðhorfa þeirra, framtíðarsýnar og stjórnunarhæfileika. Í rökstuðningi var jafnframt vísað til sérstakrar þekkingar L á nýjum aðferðum í æðaskurðlækningum og stuðningi L við uppbyggingu göngudeildarþjónustu sem væru í samræmi við stefnu spítalans. Dómurinn fékk því ekki séð að með rökstuðningnum, sem uppfyllti efnislega skilyrði 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hafi á nokkurn hátt verið vegið að starfsheiðri H eða að hann hafi að öðru leyti verið til þess fallinn að valda honum miska. Í þessu sambandi varð einnig að líta til þess að stöðunefnd lækna mat alla umsækjendur um starfið hæfa til að gegna því og að ekki væri efni til þess að raða þeim innbyrðis. Þó að L hafi starfað sem deildarlæknir á Landspítalanum á árunum 1998 til 2000, meðan H var þar sérfræðingur, og tekið þátt í einhverjum aðgerðum sem hann hafði umsjón með, er ráðning L meira en tólf árum síðar ekki til þess fallin að valda H miska. Taldi dómurinn því ekki liggja fyrir að ráðning L hefði, þrátt fyrir niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála frá 2013, valdið H miska þannig að hann ætti rétt á fébótum. Var Í því sýknað af miskabótakröfu H.

25. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. nóvember 2017 í máli nr. E-3730/2016: Þ gegn íslenska ríkinu.

UPPSÖGN. HAGRÆÐING Í REKSTRI. RÉTTMÆTISREGLAN. RANNSÓKNARREGLA. MEÐALHÓF.

Þ var ráðinn skrifstofumaður við embætti sýslumannsins á Akureyri og var sagt upp störfum í september 2014 og skyldi uppsögnin taka gildi í lok árs 2014. Upp kom ágreiningur um það hvort Þ ætti rétt á bótum vegna uppsagnarinnar þar sem Þ taldi að ekki hefði verið byggt á málefnalegum sjónarmiðum og málsmeðferð ekki samræmast rannsóknarreglunni og sjónarmiðum um meðalhóf. Þ sinnti í fyrstu verkefnum við dagbók þinglýsinga, en tveir starfsmenn sinntu þá þeim verkefnum við embættið. Síðla árs 2011 ákvað sýslumaður, að einn starfsmaður skyldi sinna dagbók þinglýsinga í stað tveggja og var ákveðið að samstarfsmaður Þ sinnti því verki. Þ voru þá falin verkefni vegna Sjúkratrygginga Íslands í kjölfar þess að annar þeirra starfsmanna sem þeim verkefnum hafði sinnt lét af störfum. Nýju verkefnin fólust að meginstefnu til í bókun tannlæknareikninga og skráningu upplýsinga af læknabréfum vegna útgáfu afsláttarkorta. Einnig tók Þ um tíma þátt í símsvörun vegna Sjúkratrygginga og annaðist jafnframt afleysingar við dagbók þinglýsinga í hádegi og í sumarleyfum. Í uppsagnarbréfi því sem sýslumaður afhenti Þ í september 2014 var vísað til 43. gr. laga nr. 70/1996 og efni ráðningarsamnings um þriggja mánaða uppsagnarfrest. Í bréfinu sagði að ástæður uppsagnarinnar væru rekstrarlegar þar sem þau störf sem Þ hefði sinnt síðustu ár hjá sjúkratryggingum, við skráningu tannlæknareikninga og afgreiðslu afsláttarkorta, væru orðin rafræn. Því væri ekki lengur þörf á starfskröftum hans þar og núverandi starf hans við tiltekt og afleysingar næði ekki fullu starfi og/eða væri ekki til frambúðar. Í uppsagnarbréfinu sagði enn fremur að Þ hefðu verið gefin tækifæri til að taka að sér önnur störf við embættið, svo sem við innheimtu og önnur störf í sjúkratryggingum, en ekki hafi verið vilji til þess af hendi Þ að sinna þeim störfum. Því væri ekki annað í stöðunni en að segja Þ upp störfum. Fram kemur í niðurstöðu dómsins að skv. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 hafi forstöðumaður stofnunar rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi. Ráðningarsamningur Þ var ótímabundinn og sagði þar m.a. að uppsagnarfrestur væri þrír mánuðir, uppsögn miðast við mánaðamót og um réttindi og skyldur starfsmanns fari að lögum nr. 70/1996. Auk þeirra laga gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um ákvörðun um uppsögn á ráðningarsamningi Þ. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996 ber forstöðumaður ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunar, sem hann stýrir, sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Sé út af þessu brugðið er ráðherra eftir sömu málsgrein heimilt að áminna forstöðumann eða veita honum lausn frá embætti ef hann hefur gerst sekur um ítrekaða eða stórfellda vanrækslu í starfi. Forstöðumönnum eru játaðar rúmar heimildir við þær aðstæður að segja þarf upp fólki vegna hagræðingar í rekstri og sætir slík ákvörðun ekki öðrum takmörkunum en þeim að aðgerðir, sem gripið er til, þurfa að vera í samræmi við lög og meginreglur stjórnsýsluréttar. Ein þeirra er réttmætisreglan, en samkvæmt henni verða stjórnvöld ávallt að reisa matskenndar ákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum. Þá þarf að gæta að rannsóknarskyldu við undirbúning ákvörðunar og gæta meðalhófs með því að fara ekki strangar í sakir en nauðsyn ber til við svo íþyngjandi ákvörðun sem uppsögn er. Lög nr. 70/1996 hafa ekki að geyma reglur um hvað skuli ráða vali forstöðumanns á því hvaða starfsmanni er sagt upp þegar starfsmönnum fækkar vegna hagræðingar. Hafi starfsmaður verið ráðinn til ákveðins starfs getur verið nægilegt í þessu sambandi að uppsögn hans sé reist á því að ekki sé talin þörf á að nokkur gegni því starfi lengur. Þ vísaði til þess að hér eigi við það sem segi í forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 647/2006, að hafi starfsmaður sinnt ákveðnu verkefni á tilteknu tímabili dugi þó ekki að líta eingöngu til þess að það verkefni muni dragast saman eða leggjast af, heldur þurfi jafnframt að leggja frekara mat á hæfni hans í samanburði við aðra starfsmenn, meðal annars með tilliti til þekkingar og starfsreynslu á viðkomandi sviði. Þ var ráðinn sem skrifstofumaður á embætti sýslumanns á árinu 2008. Ekki segir í ráðningarsamningi hans nánar hvaða verkefnum hann skyldi sinna, en hann hóf störf í þinglýsingum. Í málinu var ekki deilt um þá ákvörðun sýslumanns að fækka starfsmönnum í þinglýsingum og flytja Þ í deild sjúkratrygginga á árinu 2011. Af framburði þáverandi staðgengils sýslumanns fyrir dóminum varð ráðið að sú ákvörðun, að flytja Þ til, hefði í raun byggst á mati stjórnenda embættisins á hæfi þessara tveggja starfsmanna til starfa við dagbók þinglýsinga. Ítrekuð höfnun setts sýslumanns á árinu 2014 á því að til álita kæmi að fallast á tillögur Þ um að honum yrði aftur falið starf við þinglýsingar og að hinn starfsmaðurinn yrði fluttur í önnur verkefni sýnir að það hæfnismat stóð óbreytt. Uppsögnin var reist sjálfstætt á því að verkefni Þ voru ekki lengur fyrir hendi og þegar til hennar kom lágu önnur verkefni ekki á lausu. Í ljósi ábyrgðar sýslumanns á fjárhagsstöðu embættisins kom ekki til álita að Þ héldi stöðu sinni verkefnalaus. Að virtu því sem upplýst varð um atvik málsins taldi dómurinn að settur sýslumaður hefði lagt sig fram um að finna Þ önnur verkefni en hann hafi ekki viljað taka við þeim verkefnum sem honum stóðu til boða. Með því að kanna ítrekað hvort Þ gæti tekið að sér önnur verkefni á verksviði skrifstofufólks gætti sýslumaður að rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar áður en hin íþyngjandi ákvörðun var tekin. Að virtum aðstæðum, og því hvernig staðið var að málum, verður ekki fallist á það með Þ að uppsögnin hafi byggst á ómálefnalegum ástæðum. Í ljósi alls þessa taldi dómurinn réttmætt eins og á stóð að segja Þ upp starfi með hliðsjón af þörfum embættisins. Þá var ekki farið strangar í sakirnar en nauðsyn bar til miðað við aðstæður. Uppsögnin var lögmæt og í samræmi við fyrri málslið 1. mgr. 43. gr. og síðari málslið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996, hún var byggð á málefnalegum sjónarmiðum og meðalhófs var gætt. Að öllu framangreindu virtu var það niðurstaða dómsins að Þ hefði ekki sýnt fram á að hann hafi öðlast rétt til greiðslu bóta frá Í vegna uppsagnarinnar. Í var því sýknað af kröfum Þ.

26. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. nóvember 2017 í máli nr.E-32/2017: S gegn íslenska ríkinu.

SKAÐABÓTAÁBYRGÐ. HLUTLÆG ÁBYRGÐ. LÖGREGLUMAÐUR. LÍKAMSTJÓN.

S, lögreglumaður hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra, var á skyldubakt og fór heim til sín í mat á lögreglubreið. Var hann nýlega kominn heim til sín þegar vaktsími hringdi og óskað var eftir aðstoð hans vegna umferðaróhapps. S lýsti því svo að hann hefði farið út og gengið rösklega eftir gangstíg við húsið að bílstæðinu heima hjá sér og hafi hann hoppað af lágum kanti niður á bílstæðið en lent á svellbunka með þeim afleiðingum að hann rann út af svellbunkanum. Lenti S þá á auðum bletti og fékk við það talsvert högg á vinstri fót og fann S þá mikið til og fannst eins og fóturinn færi í yfirsveigju. Sýndi segulómskoðun skemmdir á innri liðþófa og rof í fremra krossbandi á hné. Varanlegur miski S var metinn 17 stig og varanleg örorka 10%. Niðurstaða dómsins varð sú að hann taldi að S ætti rétt til skaðabóta úr hendi Í bæði á grundvelli hinnar hlutlægu ábyrgðar í ákvæði 30. gr. lögreglulaga og grein 7.5 í kjarasamningi.

27. Dómur Hæstaréttar frá 13. desember 2017 í máli nr. 710/2017: Kennarasamband Íslands gegn íslenska ríkinu.

FRÁVÍSUN FRÁ FÉLAGSDÓMI STAÐFEST.

KÍ kærði úrskurður Félagsdóms þar sem máli KÍ gegn Í var vísað frá Félagsdómi. Krafðist KÍ að viðurkennt væri að bókun Kvennaskólans í Reykjavík og KÍ frá júní 2015 væri skuldbindandi. Í úrskurði sínum tók Félagsdómur meðal annars fram að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefðu ekki komið að gerð bókunarinnar en samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga færi ráðherra fyrrnefnds ráðuneytis með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð og framkvæmd kjarasamninga samkvæmt lögum. Þá kæmi ekki fram í bókuninni að hún væri byggð á kjarasamningnum og ekki væri unnt að líta svo á að aðilar bókunarinnar hefðu upp á sitt eindæmi getað breytt eða aukið við efni kjarasamningsins. Var því talið að framangreind bókun gæti ekki talist vera kjarasamningur eða ígildi kjarasamnings í skilningi 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 og félli því utan lögsögu Félagsdóms að fjalla um skuldbindingargildi bókunarinnar. Hæstiréttur staðfesti úrskurð Félagsdóms með vísan til forsendna hans.

28. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 13. desember 2017 í máli nr. E-2614/2016: A gegn íslenska ríkinu.

SKIPULAGSBREYTINGAR. BREYTINGAR Á STÖRFUM OG VERKSVIÐI. TÍMABUNDIN BREYTING.

A var skipuð aðstoðaryfirlögregluþjónn við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í apríl 2015 en hafði árið áður verið sett til eins árs í stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns og yfirmanns R-2, rannsóknardeildar fíkniefnamála og skipulagðrar brotastarfsemi. Sumarið 2015 ákvað lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu að gera skipulagsbreytingar í kjölfar skýrslu svonefnds umbótahóps. Meðal annars voru rannsóknardeild fjármunabrota og deild R-2 sameinaðar og átti A að fara með stjórn hinnar nýju deildar. Í kjölfar breytinganna í september 2015 tók til starfa innleiðingarhópur sem falið var að vinna að innleiðingu breytinganna og átti A sæti í innleiðingarhópnum. Á fundi í janúar 2016 tilkynnti lögreglustjóri A um þá ákvörðun sína að breyta starfsskyldum hennar og afhenti A bréf þess efnis. Í bréfi lögreglustjórans frá janúar 2016 til A segir að frá og með 25. janúar 2016 til og með 24. júlí sama ár, eða þar til annað verði ákveðið, verði störfum A og verksviði breytt þannig að hún muni tímabundið taka við verkefni sem felist í skipulagningu á hinni nýju rannsóknardeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem taka muni til starfa á vormánuðum í samræmi við hugmyndir og vinnu innleiðingarhóps sem A eigi sæti í. Þá er tekið fram að verkefnið verði unnið á skrifstofu lögreglustjóra undir stjórn aðallögfræðings embættisins en á meðan verði stjórn miðlægrar deildar um skipulagða brotastarfsemi falin öðrum stjórnanda. Þá er vísað til þess að breytingarnar séu gerðar með vísan til skipunarbréfs A frá því í apríl 2015, og 19. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Tekið var fram í bréfinu að breytingarnar skerði hvorki launakjör né réttindi A. Loks var athygli vakin á því að A gæti óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. A krafðist ógildingar á ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um breytingu á starfsskyldu A og skaðabóta fyrir það tjón sem ákvörðunin og aðdragandi hennar hafi þegar valdið A við útgáfu stefnunnar. Til viðbótar krafðist A skaðabóta sem námu mismun þeirra launa og eftirlaunaréttinda, sem hún hefði notið um ókomna tíð í starfi sínu sem skipaður aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður rannsóknardeildar fíkniefnamála og skipulagðrar brotastarfsemi, og þeirra launa sem hún geti aflað sér hjá Vinnumálastofnun. A byggði kröfur sínar á því að umrædd ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um breytingu á starfsskyldu hennar hafi verið stjórnvaldsákvörðun sem hafi verið byggð á ómálefnalegum forsendum og tekin án þess að viðhlítandi ákvæða laga og reglna stjórnsýsluréttar hafi verið gætt. Ákvörðunin hafi í raun falið í sér dulbúna og fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi, án þess að gætt hafi verið að lögbundnum skilyrðum fyrir slíku og án þess að meðferð málsins samrýmdist lögbundnum kröfum, m.a. samkvæmt ákvæðum 26. gr. laga nr. 70/1996. Í mótmælti þessu og vísaði til þess að einungis hefði verið um að ræða tímabundna breytingu á starfi A og hafi lögreglustjóri haft heimild til að ráðast í breytinguna á grundvelli stjórnunarréttar síns sem yfirmaður embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þá vísaði Í til þess að bæði í umdeildri ákvörðun lögreglustjórans og rökstuðningi fyrir henni hefði komið fram að breytingin byggði á 19. gr. laga nr. 70/1996. Fram kom í niðurstöðu dómsins að orðfæri ákvörðunarinnar og rökstuðningur lögreglustjóra sem og tilvísun til 19. gr. laga nr. 70/1996 bæri með sér að ekki hafi staðið til að breyting á störfum A og verksviði yrði varanleg. Jafnframt kom fram í niðurstöðu dómsins að ljóst væri að engin breyting var fyrirhuguð á launakjörum A eða réttindum hennar að öðru leyti á meðan á hinni tímabundnu breytingu á starfi hennar stæði. Þá lá fyrir að A væri enn í launalausu leyfi frá störfum sem aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóraembættinu og hafi viðhaldið ráðningarsambandi sínu við embættið á þeim forsendum að hún njóti þar lögbundinna og kjarasamningsákveðinna réttinda. Að þessu virtu og þegar litið væri til þess, sem rakið var um efni ákvörðunar og rökstuðnings fyrir henni, og að þar sem ekki yrði séð að ákvörðunin hefði haft í för með sér skert launakjör eða önnur réttindi A, gat dómurinn ekki fallist á það með A að ákvörðunin hefði verið stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Í þessu ljósi og með vísan til ákvæða 19. gr. laga nr. 70/1993 um að starfsmanni beri að hlíta breytingu á störfum sínum og verksviði, þótti það ekki breyta þeirri niðurstöðu þótt vilji A hefði ekki staðið til þessarar breytingar né heldur þótt hún hafi átt að sinna tímabundið öðrum verkefnum en hún hafði áður sinnt. Enn fremur var það mat dómsins að ekki réði úrslitum að þessu leyti, þótt breytingin hefði haft í för með sér að A færi ekki tímabundið með mannaforráð eða að hana hefði átt að setja tímabundið undir stjórn starfsmanns sem nyti ekki formlegrar tignar innan lögreglunnar. Að þessu leyti skiptir mestu að breytingin var tímabundin, hvort sem hún myndi vara sex mánuði, svo sem gert var ráð fyrir í upphafi, eða annan tíma. Loks var það niðurstaða dómsins, að þótt fyrir lægi að á árinu 2015 hafi samskipti A og lögreglustjóra versnað frá því sem áður var sé í ljósi alls ekki unnt að fallast á það með A að ákvörðun lögreglustjóra hafi í raun falið í sér dulbúna og fyrirvaralausa brottvikningu í starfi, svo sem A byggði á. Að þessu virtu og þar sem hvorki var heldur um að ræða lausn frá starfi um stundarsakir né lausn frá embætti var því hafnað að lögreglustjóra hefði borið að gæta ákvæða 26. gr. laga nr. 70/1996 áður en ákvörðunin var tekin. Eins og málið lá fyrir taldi dómurinn með sömu rökum að hafna þeirri málsástæðu A að lögreglustjóri hefði með ákvörðuninni og aðdraganda hennar brotið gegn reglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt og rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga. Niðurstaða dómsins var því sú að ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi samrýmst stjórnunarrétti hans sem forstöðumanns embættisins og að hún hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og hvorki gengið lengra né verið meira íþyngjandi fyrir A en efni stóðu til. Því féllst dómurinn ekki á það með A að ákvörðunin væri ólögmæt á þeim grundvelli að með henni hafi lögreglustjóri brotið gegn skráðum eða óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins með saknæmum og ólögmætum hætti. Taldi dómurinn því ekki vera efni til að verða við kröfum A um ógildingu ákvörðunarinnar og skaðabætur vegna hennar. Í var því sýknað af öllum kröfum A í málinu.

29. Dómur Hæstaréttar frá 19. desember 2017 í máli nr. 591/2017: Á gegn íslenska ríkinu.

STÖÐUVEITING. RANNSÓKNARREGLA. MISKABÆTUR.

Á var á meðal þeirra 15 sem dómnefnd samkvæmt lögum um dómstóla taldi hæfasta til að gegna embætti dómar við Landsrétt. Þegar dómsmálaráðherra gerði tillögu til Alþingis um þá 15 umsækjendur sem skipa skyldi dómara vék ráðherra frá niðurstöðum nefndarinnar varðandi fjóra umsækjendur og var Á ekki á meðal þeirra sem lagt var til að yrðu skipaðir. Alþingi samþykkti tillögur ráðherra og höfðaði Á í kjölfarið mál þetta á hendur Í og krafðist í fyrsta lagi ógildingar á ákvörðunum ráðherra, í öðru lagi viðurkenningar á skaðabótaskyldu Í og í þriðja lagi miskabóta. Í dómnum kom meðal annars fram að það væri óskráð meginregla að stjórnvaldi sem skipar í opinbert starf eða embætti beri hverju sinni að velja hæfasta umsækjandann. Áður hefði sú skylda hvílt á ráðherra dómsmála að sjá til þess að þau atriði sem máli skiptu við það mat væru nægjanlega upplýst. Við gildistöku reglna um dómnefndir til að meta hæfni umsækjenda um dómaraembætti hefði þeirri rannsóknarskyldu hins vegar að verulegu leyti verið létt af ráðherra og þess í stað lögð á herðar sjálfstæðrar og óháðrar dómnefndar. Samkvæmt því hefði verið lagt til grundvallar í dómaframkvæmd að ef dómsmálaráðherra gerði tillögu til Alþingis um að vikið yrði frá áliti dómnefndar, væri óhjákvæmilegt að sú ákvörðun væri reist á frekari rannsókn ráðherrans eftir 10. gr. stjórnsýslulaga. Að þessu gættu taldi dómurinn ljóst að dómsmálaráðherra hefði að lágmarki borið að gera samanburð á hæfni annars vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefndin hafði metið meðal 15 hæfustu en ráðherra ekki gert tillögu um og hins vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem ráðherra gerði tillögu um í þeirra stað. Gögn málsins bæru á hinn bóginn ekki með sér að slík rannsókn hefði farið fram af hálfu ráðherra. Samkvæmt því hefði málsmeðferð hans verið andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga og af því leiddi að það sama ætti við um meðferð Alþingis á tillögu ráðherra þar sem ekki hefði verið bætt úr þeim annmörkum sem málsmeðferð ráðherra var haldin. Með því að Á hafði ekki lagt fram fullnægjandi gögn til sönnunar á því að hann hefði orðið fyrir tjóni vegna þessa var viðurkenningarkröfu hans hafnað, en hins vegar var talið að fullnægt væri skilyrðum b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga til að dæma Á miskabætur úr hendi Í.

30. Dómur Hæstaréttar frá 19. desember 2017 í máli nr. 592/2017: J gegn íslenska ríkinu.

STÖÐUVEITING. RANNSÓKNARREGLA. MISKABÆTUR.

J var á meðal þeirra 15 sem dómnefnd samkvæmt lögum um dómstóla taldi hæfasta til að gegna embætti dómar við Landsrétt. Þegar dómsmálaráðherra gerði tillögu til Alþingis um þá 15 umsækjendur sem skipa skyldi dómara vék ráðherra frá niðurstöðum nefndarinnar varðandi fjóra umsækjendur og var J ekki á meðal þeirra sem lagt var til að yrðu skipaðir. Alþingi samþykkti tillögur ráðherra og höfðaði J í kjölfarið mál þetta á hendur Í og krafðist í fyrsta lagi ógildingar á ákvörðunum ráðherra, í öðru lagi viðurkenningar á skaðabótaskyldu Í og í þriðja lagi miskabóta. Í dómnum kom meðal annars fram að það væri óskráð meginregla að stjórnvaldi sem skipar í opinbert starf eða embætti beri hverju sinni að velja hæfasta umsækjandann. Áður hefði sú skylda hvílt á ráðherra dómsmála að sjá til þess að þau atriði sem máli skiptu við það mat væru nægjanlega upplýst. Við gildistöku reglna um dómnefndir til að meta hæfni umsækjenda um dómaraembætti hefði þeirri rannsóknarskyldu hins vegar að verulegu leyti verið létt af ráðherra og þess í stað lögð á herðar sjálfstæðrar og óháðrar dómnefndar. Samkvæmt því hefði verið lagt til grundvallar í dómaframkvæmd að ef dómsmálaráðherra gerði tillögu til Alþingis um að vikið yrði frá áliti dómnefndar, væri óhjákvæmilegt að sú ákvörðun væri reist á frekari rannsókn ráðherrans eftir 10. gr. stjórnsýslulaga. Að þessu gættu taldi dómurinn ljóst að dómsmálaráðherra hefði að lágmarki borið að gera samanburð á hæfni annars vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefndin hafði metið meðal 15 hæfustu en ráðherra ekki gert tillögu um og hins vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem ráðherra gerði tillögu um í þeirra stað. Gögn málsins bæru á hinn bóginn ekki með sér að slík rannsókn hefði farið fram af hálfu ráðherra. Samkvæmt því hefði málsmeðferð hans verið andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga og af því leiddi að það sama ætti við um meðferð Alþingis á tillögu ráðherra þar sem ekki hefði verið bætt úr þeim annmörkum sem málsmeðferð ráðherra var haldin. Með því að J hafði ekki lagt fram fullnægjandi gögn til sönnunar á því að hann hefði orðið fyrir tjóni vegna þessa var viðurkenningarkröfu hans hafnað, en hins vegar var talið að fullnægt væri skilyrðum b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga til að dæma J miskabætur úr hendi Í.

31. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. desember 2017 í máli nr.E-2193/2017 (óbirtur): J gegn íslenska ríkinu.

SKAÐABÓTAÁBYRGÐ. HLUTLÆG ÁBYRGÐ. LÖGREGLUMAÐUR. LÍKAMSTJÓN.

J , lögreglumaður hjá ríkislögreglustjóra, var á leið heim til sín eftir vinnu og lagði bíl sínu fyrir utan heimili sitt. Þegar J hafi stigið út úr bílnum hafi J runnið til í hálku með þeim afleiðingum að J skall niður á bakið og rann með fæturna undir bílinn. J hafi strax fundið mikið til hægra megin í bakinu og verið óvinnufær. Í ljós hafi komið að J fékk los á brjósk á tveimur hryggjarliðum. Taldi dómurinn ótvírætt að J hafi verið við störf í umrætt sinn í skilningi 30. gr. lögreglulaga og ákvæðis 7.5 í kjarasamningi. Taldi dómurinn það of þrönga túlkun að telja ferðalok vera þegar bifreið staðnæmist við heimili viðkomandi, heldur séu þau í fyrsta lagi eftir að viðkomandi er kominn út úr bifreið sinni. Niðurstaða dómsins varð því sú að J átti rétt til skaðabóta úr hendi Í bæði á grundvelli hinnar hlutlægu ábyrgðar í ákvæði 30. gr. lögreglulaga og grein 7.5 í kjarasamningi.

32. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. desember 2017 í máli nr.E-3344/2016: H gegn íslenska ríkinu.

UPPSÖGN. ÁMINNING EKKI VEITT. SKAÐA- OG MISKABÆTUR.

H var ráðinn aðstoðarskólameistari við Fjölbrautarskóla Vesturlands með ráðningarsamningi í júní 2015 að loknum störfum valnefndar um ráðningarferlið. H var síðan sagt upp störfum um haustið með eins mánaðar fyrirvara og fékk greidd laun í uppsagnarfresti í einn mánuð. Ágreiningur málsins laut fyrst og fremst að því hvort uppsögn H úr starfi aðstoðarskólameistara og í kjölfarið einnig úr starfi kennara við skólann, hafi borið að með lögmætum hætti. Einnig greindu aðilar á um það hvenær H hóf störf sem aðstoðarskólameistari. Í málatilbúnaði H var byggt á því að ráðningarsamningum hans við skólann hafi verið rift á ólögmætan hátt með yfirlýsingum skólameistara um að H væri vikið frá störfum við skólann. Að mati dómsins þótti ljóst að með bréfum hafi H verið sagt upp störfum við skólann, sbr. 1. málslið 43. gr. laga nr. 70/1996, annars vegar úr starfi aðstoðarskólameistara með bréfi í september 2015 og hins vegar úr starfi kennara með bréfi í október sama ár. Leit dómurinn því svo á að brottvikning H úr starfi væri uppsögn á ráðningarsamningum H en ekki riftun þeirra. H byggði á því í málinu að uppsögn hans úr starfi aðstoðarskólameistara hafi verið ólögmæt þar sem hann hafi ekki hlotið áminningu, sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996, og því hafi ekki verið heimilt að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi í samræmi við 45. gr. laganna. Vísaði H í þessu samhengi til þess að í rökstuðningi skólameistara hafi verið vísað til atriða sem falli undir 21. gr. laganna. Um þessa málsástæðu vísaði dómurinn til þess að í uppsagnarbréfi frá september 2015 komi ekkert fram um að uppsögn H úr starfi aðstoðarskólameistara hafi byggst á þeim ástæðum sem raktar eru 21. gr. laga nr. 70/1996 en hins vegar væri í rökstuðningi fyrir uppsögn lýst aðdraganda uppsagnarinnar og vísað til efnis tölvupósts H til skólameistara og samskiptaerfiðleika þeirra í kjölfarið sem hafi farið versnandi. Þá komi þar einnig fram að reynt hafi verið að ná sáttum allt þar til uppsagnarbréf var afhent H. Jafnframt kom fram í rökstuðningnum að ástæður uppsagnarinnar mátti rekja til tilvika sem lutu að því að H hefði ekki sinnt vinnu sinni með þeim hætti sem honum hafi borið að gera. Síðan sagði í rökstuðningnum: „Þótt uppsögnin hafi byggst á heimild í ráðningarsamningi til uppsagnar á reynslutíma þá má ljóst vera að framkoma [H] í garð skólameistara sem síns næsta yfirmanns braut í bága við ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins svo sem kveðið er á um í 21. gr. laganna: [...]“. Að þessu virtu taldi dómurinn að líta yrði svo á að uppsögn H hefði átt rætur að rekja til ástæðna sem getið er um í 21. gr. laga nr. 70/1996. Samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 44. gr. laganna var það mat dómsins að skólameistara hafi borið að veita H skriflega áminningu samkvæmt 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum var sagt upp störfum. Ekkert kom fram í málinu að slík skrifleg áminning hafi verið veitt. Því var það niðurstaða dómsins að með uppsögn ráðningarsamningsins, án undangenginnar áminningar, hafi verið brotið gegn ákvæðum laganna og fallist á það með H að uppsögn hans sem aðstoðarskólameistara hafi verið ólögmæt og átti H því rétt á bótum vegna þess. Hvað varðaði uppsögn H úr starfi kennara taldi dómurinn hins vegar nægilega sýnt fram á það að H hefði verið gefinn kostur á að snúa aftur í starf kennara við skólann, jafnt í aðdraganda uppsagnar hans úr starfi aðstoðarskólameistara sem og eftir að honum hafði verið sagt upp störfum. Taldi dómurinn að ekki yrði séð að H hefði nýtt það tækifæri til að snúa aftur til starfa sem kennari við skólann. Af þeim sökum féllst dómurinn ekki á kröfu H um skaðabætur né miskabætur vegna uppsagnar hans úr starfi kennara.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta