Heilbrigðisstofnanir heimsóttar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra heimsótti í liðinni viku Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, ræddi við stjórnendur og annað starfsfólk og kynnti sér starfsemi stofnananna. Á morgun fer hún um Norðurland og heimsækir heilbrigðisstofnanir þar.
Svandís segir það bæði áhugavert og gagnlegt fyrir sig sem heilbrigðisráðherra að kynnast staðháttum, fá tækifæri til að skoða aðstæður á stofnununum, sjá húsakynnin og að hitta fólkið sem starfar á stofnununum og stýrir þeim augliti til auglitis: „Þessar stofnanir eru hornsteinar heilbrigðisþjónustunnar í heilbrigðisumdæmunum. Verkefnin eru eftir því fjölbreytt, starfsemin umfangsmikil og áskoranirnar eftir því margar“ segir Svandís.
Á morgun heimsækir heilbrigðisráðherra Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilsugæsluna þar og Heilbrigðisstofnun Norðurlands.