Ræddu tvíhliða samskipti, norræna samvinnu, Brexit og öryggismál
„Samskipti Íslands og Svíþjóðar eru náin og fara vaxandi, meðal annars á sviðum viðskipta og ferðamennsku, auk þess sem fjölmargir Íslendingar leggja stund á nám og búa í Svíþjóð. Ríkin vinna þétt saman í norrænu samstarfi og það er tilhlökkunarefni að taka við formennsku í Norðurlandasamstarfi af Svíum um næstu áramót. Þá er Svíþjóð, auk Finnlands, sérstaklega mikilvægt samstarfsríki Atlantshafsbandalagsins og varnarsamvinna ríkjanna hefur aukist hröðum skrefum. Það er því sérlega ánægjulegt að opinber heimsókn forseta Íslands til Svíþjóðar eigi sér stað á þessum tímapunkti, og við látum úrslit gærkvöldsins í handboltanum ekki skyggja þar á," segir Guðlaugur Þór.
Þá fylgdi utanríkisráðherra forseta Íslands á fundi forseta sænska þingsins og forsætisráðherra Svíþjóðar, og situr í kvöld hátíðarkvöldverð konungshjónanna.